Garcia Lorca var fæddur í litlu þorpi – Fuente de Vaqueros – á sléttunni austan við borgina. Hin hvítu fjöll – Sierra Nevada – rísa í suðri, alhvít sumar sem vetur. Faðir hans var landeigandi, ræktaði rauðrófur og tóbak, en félagar hans voru synir og dætur bændanna, sem unnu á akrinum og áttu vart í sig né á. Það er engu líkara en að bernskuár skáldsins – kynni hans af tregafullum söngvum úr hversdagslegri tilveru hinna hrjáðu og smáðu – hafi markað þá braut, sem hann átti eftir að feta, þau fáu ár sem hann lifði. Það var hann, sem átti mestan þátt í því, ásamt með tónskáldinu Manuel de Falla, að vekja athygli heimsins á hinum vanræktu alþýðusöngvum Andalúsíu. Það sem einkennir þessa söngva (oft við gítarundirleik og dans) er berorð einlægni, óheftar tilfinningar og næstum dýrslegur kraftur – flamenco. Og heimurinn hreifst með.
Um allt þetta var ég sem sagt að hugsa á afmælisdaginn minn, þar sem við ókum eftir hraðbrautinni, fyrst undir snarbröttum klettaþiljum upp frá ströndinni og síðan yfir hásléttuna í átt að Granada. En það sem ég vissi ekki var, að næstu nótt mundum við gista í húsi skáldsins, ættaróðali móðurfólks Garcia Lorca, sem nú er rekið sem hótel – Hotel Reina Cristina. Það stendur í miðaldahverfinu, lætur lítið yfir sér, en strax í anddyrinu heilsar manni annars konar veröld – veröld sem var. Við grípum andann á lofti og stígum varlega á hvítt og svalandi marmaragólfið. Myndir af skáldinu prýða veggina, sem eru úr dökkri eik. Það er mjög hátt til lofts, og einhvers staðar þarna uppi heyri ég kvak fugla og gott ef ekki vatnsnið, sem minnir á hallir Máranna. Við afgreiðsluborðið situr svartklæddur maður og vísar okkur á herbergi. Við sjáum ekki aðra gesti, allt er svo undurhljótt. –
Það var þegar við komum niður aftur, búin að klæða okkur upp á fyrir skemmtun kvöldsins, að svartklæddi maðurinn hallaði sér fram á afgreiðsluborðið og fór að tala um skáldið, alveg óumbeðinn. „Ég sé, að þið voruð að skoða myndirnar af skáldinu, en þið vitið kannski ekki, að í þessu húsi, meðal ættingja og vina, leitaði Garcia Lorca skjóls seinustu nóttina, sem hann lifði. Sólin var enn ekki risin til að fagna nýjum degi, þegar falangistar höfðu umkringt húsið og raðað vopnuðum vörðum á þökin allt um kring. Lorca átti engrar undankomu auðið. Hann var fluttur í böndum ásamt fleiri ímynduðum óvinum borgarastéttarinnar út fyrir bæinn og skotinn ofan í fjöldagröf eins og hver annar vanskilahundur. Bein hans hafa aldrei fundist.“
Spænska borgarastríðið skipti þjóðinni í tvær fylkingar – og gerir enn. Francisco Franco sór þess dýran eið að drepa alla þá, sem sýndu honum mótþróa. Í þeim hópi voru menntamenn, kennarar, fræðimenn og bændur. Enn þann dag í dag eru að finnast í úthverfum borga og þorpa mörg hundruð fjöldagrafa. Afkomendurnir heimta réttlæti og krefjast þess að forfeður þeirra og mæður og börn fái að bera beinin í vígðri mold. Aðrir hunsa þá kröfu og vilja gleyma fortíðinni, (reyndar var um það samið eftir fall Francos í svonefndum pacto de olvido – sáttmála gleymskunnar). Og um þetta stendur stríðið enn þann dag í dag. Svo fer það eftir því, hver ræður ríkjum hverju sinni, hvort réttlætið nær fram að ganga.
Að öllu þessu sögðu skaut það óþægilega skökku við að sjá samankomna undir veggjum Alhambrahallarinnar þetta kvöld alla broddborgara Granada – og þótt víðar væri leitað – í skraddarasaumuðum fötum með bleik bindi (þau eru í tísku) og konurnar í aðskornum silkikjólum, (og jafnvel skóm í stíl) – falla í duftið fyrir grasrótarhreyfingunni, skjólstæðingum Garcia Lorca – flamencosöngvurum, dönsurum og hljóðfæraleikurum – og leyfa sér jafnvel þann munað að æpa af fögnuði í hvert sinn sem sígauninn gekk fram af þeim með líkamlegum yfirburðum og þokka, sem ekkert stenst samaburð við.
Þetta gerðist allt undir berum himni. Leiksviðið var umkringt hávöxnum og tígulegum kastaníutrjám, sem bærðust í takt við hlýja goluna og bar við stjörnubjartan himininn. Þau stóðu bara þarna og kveinkuðu sér ekki einu sinni undan ærandi hávaða af sviðinu. Þegar leið á nóttina og spennan jókst, hitnaði mönnum í hamsi. Þeir klæddu sig úr skraddarsaumuðu jökkunum. Konurnar tóku blævængi upp úr pússi sínu og blökuðu þeim í gríð og erg til að kæla sig, á milli þess sem þær klöppuðu saman lófunum í gleði sinni. Allir voru í hrifningarvímu, greinilega löngu búnir að gleyma Garcia Lorca og örlögum hans.
Þrátt fyrir stórkostlega upplifun þetta kvöld, var ég samt ekki alveg ánægð með sýningu Carlos Saura. Ég var kannski búin að hlakka til allt of lengi. Ég hafði einhvern veginn búist við meira hömluleysi, meiri ástríðu og angist í hverri hreyfingu, hverjum tóni – svona eins og maður upplifir á flamencokvöldum í þorpunum við ströndina, þar sem dansinn sprettur upp úr grasrótinni – er lífið sjálft í allri sinni nekt og miskunnarleysi. Á slíkum kvöldum snýr maður heim grátandi af trega og sælu.
Flestir dansararnir þetta kvöld í Alhambra höfðu augljóslega fengið þjálfun í klassískum dansi. Þeir voru einhvern veginn of fágaðir, of kurteisir og tillitssamir við áhorfendur. Vildu engan særa, en þar með var neistinn farinn úr sýningunni. Enda hét hún reyndar „Flamenco okkar tíma“. Og með tímanum hefur tjáningin tekið breytingum, jafnvel runnið saman við dansa af öðrum uppruna, tangó, rumbu og sömbu, eða þá þynnst út í sevillana og malaguena, sem allir geta spreytt sig á. Þetta var svona, eins og kallað er „fusión“, allt sett í stóran pott og hrært í. Í prógramminu sagði, að það væri verið að gefa flamenco ferskan tón! Fyrir mér var þessi útþynning aðeins tákn um breytta tíma. Við ráðum engu sjálf lengur, það er lögmál markaðarins, sem stjórna lífi okkar og ræður för.