Verk Íslenska dansflokksins Sinnum þrír: Allt á réttri leið

Íslenski dansflokkurinn sýnir í Borgarleikhúsinu:
Sinnum þrír
Heilabrot
White for Decay
Grossstadtsafar


Úr verkinu White for Decay

Fyrsta verkið á sýningu Íslenska dansflokksins í Borgarleikhúsinu að þessu sinni heitir Heilabrot. Og það má segja, að höfundarnir, Brian Gerke og Steinunn Ketilsdóttir, brjóti svo sannarlega heilann. Efnið er dregið beint út úr hversdagleikanum, hugleiðingar um tilgang lífsins í gerviveröld og leitina að hamingjunni. Meinfyndið verk, sem vekur upp áleitnar spurningar um tilganginn með þessu öllu saman.

Í Heilabrotum er farið inn á nýja braut, sem bendir til þess, að þetta sé allt smátt og smátt að renna saman í einn gjörning – danslist, myndlist og leiklist – í bland við fimleika. (Hreyfiþróunarsamsteypan sýndi okkur gott dæmi um það í vetur). Bilið styttist á milli þessara listgreina, þær skarast og skerpa á skilaboðunum – því að öll verk eru pólitísk í nútímanum. Þetta hefur allt ákveðinn tilgang.

Í þessu fyrsta verki kvöldsins er farið fram á ystu nöf, þar sem skilur á milli hefðbundins dans og leiks. Orð eru notuð – í hófi þó (mættu heyrast betur), og dansinn er smættaður niður í ekki neitt, en er þó augljóslega byggður á áralangri þjálfun og sjálfsaga. Að tala með líkamanum kemur ekki af sjálfu sér. Þau Aðalheiður Halldórsdóttir, Cameron Corbett, Katrín Á. Johnson og Lovísa Gunnarsdóttir fara feikilega vel með hlutverk sín og koma öllu til skila – vonbrigðum, sorgum, ótta og vonleysi í hörðum heimi.

Ég verð að viðurkenna, að það fór engu að síður um mig þægilegur straumur, þegar Katrín Johnson rifjaði upp kunnugleg spor úr veröld sem var. Hún hefur þann elegansa, sem aðeins klassískt nám getur gefið.

White for Decay eftir Sigríði Soffíu Níelsdóttur var annað verkið á efnisskránni. Svona eftir á finnst mér, að það hafi heillað mest. Það er byggt á fréttagreinum úr Öldinni okkar á árunum 1939 – 51, fjallar um seinni heimsstyrjöldina og þær skelfingar, sem fylgdu í kjölfarið. Sigríði Soffíu er greinilega ýmislegt til lista lagt, því að hún fæst líka við kvikmyndagerð og hefur stundað nám í sirkusdansi. Myndlist er henni ofarlega í huga. Allt þetta endurspeglast í verkinu, sem tekur hálfa klukkustund og er hrundið áfram af seiðandi, en dramatísku tónverki Jóhannesar Friðgeirs Jóhannssonar. Flott samspil milli tónskálds og dansahöfundar.

Sigríður Soffía er sjálf glæsileg í aðalhlutverkinu á móti þremur herramönnum, þeim Ásgeiri Helga Magnússyni, Cameron Corbett og Hannesi Þór Egilssyni. Steppdansinn í upphafi er frábært atriði, sem eitt og sér er gott teater. Cameron Corbett er greinilega ekki allur þar sem hann er séður og virðist vera leiðandi í hópnum. Hannes og Ásgeir Helgi láta ekki sitt etir liggja, og öll fjögur sýna þau ótrúlega tækni og flott samspil í seinni hlutanum, sem flæðir eins og stríð elfur um sviðið og fjarar síðan smám saman út. Áhrifamikið verk, sem hefði kannski orðið ennþá áhrifameira með því að stytta það ögn.

Seinasta verkið að þessu sinni, Stórborgarsafari eftir Jo Strömgren – sem hefur oft áður unnið með Íslenska dansflokknum – var geggjað flott og vitnaði enn um samstillingu og tæknilega yfirburði flokksins. Tíu manns koma fram , fimm konur og fimm karlar, sem láta gamminn geysa undir trylltri tónlist The Young Gods. Það var næstum eins og maður væri kominn í öngstræti Berlínarborgar að næturlagi – one way street – kæfandi andrúmsloft – öll sund lokuð. Þannig er stórborgin. Þetta var flott show – svolítið í anda söngleikjanna – en þó öllu dramatískara.

Það er til fyrirmyndar, hversu vel er vandað til þessarar sýningar. Hvergi til sparað. Aðeins það besta er nógu gott. Nægilegt rými, þaulhugsuð lýsing og eftirminnilegir búningar, sem vekja athygli fyrir listræn tilþrif.

Þegar ég skoða í huganum þessa þriggja verka sýningu Íslenska dansflokksins, sem ég sá á miðvikudagskvöldið (2. sýning), átta ég mig á því, hvað dansflokkurinn hefur tekið gífurlegum framförum á seinustu árum. Hann hefur einhvern veginn fundið sér stað í tilverunni, þar sem honum líður vel, og er á pari við það besta, sem gengur og gerist í löndunum í kringum okkur. Þess vegna hefur hann líka miklu meira sjálfstraust nú en áður. Og bara það að hafa trú á sjálfum sér, gefur byr undir báða vængi.

Það sem gerir þennan hóp líka spennandi er, að hann er ekki bara að þjóna danslistinni listarinnar vegna, ekki bara að sýna akróbatískar teygjuæfingar eða láta reyna á þanþol líkamans, heldur lætur hann sig varða lífið utan leiksviðsins. Hann sækir sér yrkisefni út í samtímann, finnur til í stormum sinnar tíðar og grætur yfir örlögum ráðvillts fólks í áferðarfallegum – en spilltum heimi.

Fyrir utan þetta hefur hópurinn tekið miklum tæknilegum framförum og öðlast fágaðan stíl. Það er eins og allir hafi gengið í sama skóla (sem ég veit, að þeir hafa ekki gert), en heildarsvipurinn er ótrúlega samstilltur, einbeittur og fallegur. Léttleiki einkennir flokkinn, fimi, mýkt og þokki. Og meira verður ekki sagt. Þetta er allt á réttri leið.

Katrín Hall hefur verið listrænn ráðunautur dansflokksins í mörg ár, og kannski er hún nú að uppskera, svo sem til var sáð. Allt hennar mikla starf er að skila sér í markvissari vinnubrögðum, meiri metnaði og meiri framsýni.