VEISLA MINNINGANNA í 40 ÁR. Afmælishátíð Íslenska dansflokksins í Borgarleikhúsinu

Sentimental, Again
Höfundur: Jo Strömgren
Tónlist Pjotr Leschenko
Ljósahönnun: Dusan Loki Markovic
Búningar: Elín Edda Árnadóttir

Tímar 2013
Danshöfundur: Helena Jónsdóttir
Samsetning tónlistar: Helena Jónsdóttir
Frumsamin tónlist: Biggi Hilmars
Búningahönnun: Helena Jónsdóttir

Ég skynjaði einhvers konar fortíðarþrá meðal spariklæddra gesta, sem hópuðust í leikhúsið til að halda upp á 40 ára afmæli Íslenska dansflokksins á föstudagskvöldið. Helena hafði lofað að tína sitt af hverju upp úr kistu minninganna og rekja sögu flokksins með kunnuglegum tónum, litum og efnum úr fortíðinni og skírskota til sögunnar í tjáningarforminu – og enn fremur til þrældómsins að baki tjáningunni.

Rafmagnað andrúmsloftið sveif á alla eins og áfengt vín og gaf gleðinni lausan tauminn? Fyrrum stjörnur íslenskrar danslistar svifu um ganga, fegurri en nokkru sinni fyrr, enn með þvengmjó mitti, þráðbein bök og uppsett hár. 40 ár þýða að minnsta kosti fimm kynslóðir dansara – þeirra starfsævi er örstutt. Og jafnvel þó að þessar konur séu enn í blóma lífs, eru dansafrek þeirra flestra bara til í minningunni. Við munum eftir þeim á sviðinu í sigurvímu, hverri á fætur annarri, með fangið fullt af blómum, brosandi í gegnum tárin út í troðfullan salinn. Allir höfðu staðið upp til að fagna nýrri stjörnu.

Og ef þessar stjörnur hefðu aldrei verið til, þá væri heldur enginn dansflokkur í dag. Ef allar þessar konur hefðu ekki lagt á sig þrotlausa vinnu dag eftir dag, ár eftir ár, þá hefði aldrei orðið til sá grundvöllur, sem skapar flokknum skilyrði í dag. Þær voru frumkvöðlarnir, þær hugsuðu til framtíðar og þeirra er heiðurinn – enda voru þær heiðursgestir kvöldsins.

Og Helena stóð við loforðin – og meira en það. Þessi sýning hennar, sem hún kallar „Tímar“ er ekki bara danssýning, heldur eitthvað miklu voldugra, meira í ætt við myndlist, sem fær líf alveg óvænt. Hún segir sjálf í dagskrá, að hún hafi gert þetta verk „fyrir besta vin sinn og eiginmann“, sem nú er ekki lengur á meðal vor. En mér finnst eins og hann leiði hana í gegnum verkið –eða leiðir hún hann? Þau eru eitt, hann hugsar og skrifar, hún grípur hugmyndirnar á lofti og skapar. Þess vegna er þetta allt svo undur fallegt.

Leikmyndin er ekki flókin, en með listilegri lýsingu fær hún líf, sem veitir gleði og unað fyrir augað. Tónlistin er ísmeygilega seðjandi og fellur fullkomlega að óreiðunni í umhverfinu og verður hluti af myndinni sjálfri. Tyrólajakkar og ungversk stígvél gera góðlátlegt grín að bernskuafrekum íslenskra dansara. Tjull í hvítu og rauðu minnir okkur á þá daga, þegar við vorum enn að daðra við þá hugmynd að nema klassískan ballet í anda Rússa! (Mikið er annars gott, að við vékum út af þeirri braut og skópum okkar eigin stíl).

Við erum stödd baksviðs í leikhúsinu, myrkur allt um kring, ys og þys berst utan úr salnum, tónlistin kallar á dansarana, sem þeytast lafmóðir fram og til baka, inn og út af sviðinu. Til þess að ná þessari fullkomnun verða þeir að æfa þrotlaust alla daga frá morgni til kvölds, liðka og styrkja líkamann til þess að geta tekist á við verkefni kvöldsins – sem stendur kannski í örfáar mínútur – en nógu lengi þó til að allt stritið og þjáningarnar gleymast. Fagnaðaróp áhorfenda bæta allt upp. Partur af sviðsmynd Helenu er einmitt undurfögur ballerína, sem stendur hvítklædd við stöngina og gerir æfingar þindarlaust frá upphafi til enda sýningar. Þannig er líf dansarans, eilíft strit og sjálfsafneitun.

Ég nefni verk Helenu Jónsdóttur fyrst, vegna þess að mér finnst eins og þetta hafi verið kvöldið hennar – kannski endurkoma hennar. Langdvalir við nám og störf í útlöndum skipta sköpum. Reynsla er dýrmæt, þekking skapar dýpt. Það er augljóst, að Helena hefur af miklu að miðla og mikið að gefa. Hún verður að koma oftar heim og auðga listalíf borgarinnar.

Annars varð ég líka uppnumin af fyrra verkinu á dagskránni – „Sentimental“ eftir norska snillinginn, Jo Strömgren. Ég hefði heldur kallað verkið „Jalousie“, því sagan segir af tveimur pörum, sem geta ekki alveg gert upp við sig, hvað er hvurs og hvurs er hvað, eins og stundum hendir í lífinu. Ást breytist í hatur og hatur í ódæðisverk. En þrátt fyrir þetta melodrama er stutt í gáska og húmor, jafnvel gráglettni. Verkið er vandasamt í flutningi og gerir verulegar kröfur til dansaranna, sem virtust líka gæddir töluverðum leikhæfileikum. Þessi Jo er greinilega bæði skapandi og frumlegur, hristir fram úr erminni – eða af skæpinu (því þau fengu víst tilsögn í gegnum tölvuna) – frumlegan gjörning, sem nýtir mannslíkamann til hins ítrasta og gerir kröfur, sem hljóta að vera ögrandi fyrir dansarana.

En það er ekki nóg að hafa á að skipa hugmyndaríkum höfundum, ef efniviðurinn er rýr og óagaður. Það er mjög ánægjulegt að sjá, hversu miklum framförum dansarar flokksins taka frá einu ári til annars. Hópurinn er svo samstilltur og áferðarfallegur, að unun er á að horfa. Enginn sker sig beint úr, en samt hefur hver sinn stíl og sterkan persónuleika. Hver og einn gæti spilað einleik og farið létt með það, en vandinn er meiri að vinna í hóp og reyna ekki að stela senunni hver frá öðrum.