Ég var berfætt í nýjum skóm, sem ég hafði keypt til fararinnar, og var svo sár fyrsta kvöldið, að ég vafði blautum handklæðum um fæturna, svo að ég gæti sofnað eftir langar göngur og skáldlegar lýsingar á leyndardómum þessarar höfuðborgar heimsins.
Það var á þessari löngu göngu endur fyrir löngu, sem ég hitti Guðmundu Elíasdóttur í fyrsta sinn. Hún var einn af leyndardómum borgarinnar – gott ef skáldið var ekki skotið í henni. Hann varð einhvern veginn bjartari og glaðari í návist hennar, tók á sig nýjan svip. Gott ef ég gerði það ekki líka. Enda var hún ómótstæðileg og töfrandi í allsleysi sínu. Brosandi opnaði hún faðminn og bauð okkur velkomin í sitt hús. Ég man sérstaklega eftir sérkennilegum augnsvipnum, dimmum og dularfullum. En samt var glettnin alltaf skammt undan. „Ég er að vestan“, sagði hún, „þrjósk og einbeitt, eins og Bolvíkinga er háttur“. Svo hló hún eins og krakki, villt og óstýrlát. Váá…, hvað ég heillaðist af þessari konu. Og um leið fann ég til þess, hvað ég sjálf var mikið barn og átti margt ólært. Hér var engin meðalmanneskja á ferð.
Svo liðu mörg ár. Við kysstumst og klöppuðum hvor annarri á síðkvöldum í búningsherbergjum Þjóðleikhússins, ýmist dansandi, leikandi eða syngjandi. En ekkert meir. Báðar önnum kafnar, sjálfsagt.
Það var svo ekki fyrr en Guðmunda fór að setja svip sinn á Vesturgötuna – götuna okkar – mörgum árum seinna, að mér gafst aftur tækifæri til að sitja við fótskör hinnar lífsreyndu, gáfuðu og fallegu konu. Og Vesturgatan varð aldrei söm eftir það. Það geislaði af Guðmundu, söngurinn barst út á götu, hláturinn yljaði þeim sem fram hjá gengu. Dyr hennar stóðu opnar gestum og gangandi, hvenær sem var og hvernig sem á stóð. Blómin á tröppunum og ljósið í glugganum laðaði að. Og umræðuefnin voru óþrjótandi. Fram á síðustu stundu var hún að miðla öðrum af þekkingu sinni og dýrkeyptri reynslu á langri ævi.
Vertu sæl, Guðmunda, og þökk fyrir ógleymanleg kynni.