Við höldum áfram að umgangast móður jörð eins og enginn sé morgundagurinn.
Enn segjum við bara takk, þegar strákurinn á kassanum í Bónus spyr: Má bjóða þér poka? Einn eða tvo? Hring eftir hring. Við komum aftur í búðina, dag eftir dag – og alltaf þiggjum við plastpoka. Alveg hugsunarlaust.
Og þó! Það fer um okkur smáhrollur, þegar fréttir tíunda, hvernig stórhveli með magann fullan af plasti geispa golunni á fjarlægum ströndum – eða þegar vísindamenn staðfesta, að þessi fjögur þúsund manna risaskip ,sem lóna hér á ytri höfninni í Reykjavík yfir sumartímann séu dag og nótt að spú eiturgufum yfir borgina okkar – bara af því að við erum svo kærulaus og höfum ekki sett okkur reglur eins og aðrar siðmenntaðar þjóðir um notkun svartolíu.
Erum við a grafa okkar eigin gröf? Vitandi vits?
Við höldum áfram að hlaða niður börnum, eins og enginn sé morgundagurinn, og allt í stakasta lagi. Þetta reddast, segja Íslendingar gjarnan – eða hvað?
Var kannski allt þetta Valgerði Rúnarsdóttur í huga, þegar hún settist niður – eða stóð við æfingaslána – með nýfædda dóttur sér við hlið, heltekin af þeirri hugsun að reyna koma á framfæri skilaboðum til þjóðar sinnar: Kæra manneskja – við fljótum sofandi að feigðarósi.
Og þegar upp er staðið, er ég ekki frá því, að Valgerði hafi tekist að vekja okkur af værum blundi og uppgerðarkæruleysi. Það var satt að segja hálfgerður hrollur í manni á útleiðinni eftir frumsýningu – þrátt fyrir sætar kökur í boði hússins, sem slógu á óttann og óbragðið í munninum.
Svo má líka bæta því við, að í lokin sneru flytjendur alvörunni upp í grín og glens með plastbrúðu, sem þeir blésu upp, þar til hún yfirgnæfði mannskapinn og gerði sig líklega til að gleypa alla viðstadda. Það hefði hún eflaust gert, ef mannshöndin hefði ekki gripið í taumana og sagt stopp, hingað og ekki lengra. Brúðan lyppaðist niður og minnti á tóman Bónuspoka á ruslahaug í lokin. Það er nefnilega maðurinn, sem á síðasta orðið.
Kæra manneskja er á margan hátt mögnuð sýning, og það er auðvitað fleirum að þakka en Valgerði – sem er frumkvöðullinn. Tónskáldið, Áskell Harðarson, á ekki minnstan þátt í því að gefa sýningunni vægi. Í rauninni stjórnar hann taktinum frá upphafi til enda , gefur sýningunni lit og bragð og dramatíska dýpt.
Öll umgerðin í þessu þrönga rými Tjarnabíós er svo sannalega eftirtektarverð. Margir ungir listamenn leggja þar hönd á plóg, fá útrás fyrir brjálaðar hugmyndir, njóta þess að vera til og fá að skapa að eigin vild. Það er lífið, og það er öfundsvert. Tjarnarbíó á framtíðina fyrir sér með nýju liði og ferskum hugmyndum.
Hring eftir hring. Lífið endurtekur sig. Ein kynslóð tekur við af annarri – og öll þurfum við súrefni. Við getum ekki lifað án súrefnis. Þau gengu hring eftir hring á sviðinu, aftur og aftur, ein kynslóð af annarri. Voru við það að ganga fram af manni. Sumir áhorfenda litu á klukkuna, voru að missa þolinmæðina. Allt með ráðum gert – nokkuð snjallt hjá Valgerði.
En það besta var eftir. Það var dans hinnar þríeinu manneskju á dauðastundinni. Kannski var það ekki dans – heldur angistaróp, sem birtist í ótrúlegum – má ég segja grotesque – hreyfingum hinnar örvæntingarfullu manneskju – gapandi eftir súrefni – við það að gefa upp öndina. Þetta voru þær allar þrjár, Valgerður, Snædís Lilja og Védís. Allar hafa þær brotist út úr viðjum hins klassíska dansskóla – eða sneitt fram hjá þeim – fara nýjar slóðir, sínar eigin slóðir, sem eru hrífandi í frumstæðri tjáningu og verða ógleymanlegar eftir þetta kvöld. Þetta var birtingarmynd raunveruleikans, sem við blasir komandi kynslóðum, ef ekkert verður að gert.
Við fljótum sofandi að feigðarósi.