Sögusviðið er Djúp og Jökulfirðir. Þetta er heljarslóðarorrusta umkomulauss fólks við náttúruöflin – upp á líf og dauða. Það hvarflar ekki að nokkrum manni, að á þessum náströndum leynist bæjarheitið Unaðsdalur – fegurst bæjarheiti á íslensku. Hvað þá heldur, að sjálft Nóbelskáldið hafi lýst því yfir, að fegursta bókarheiti á íslensku væri: Frá Djúpi og Ströndum. Í sögum Kalmanns er nefnilega ekkert sumar.
Upp á líf eða dauða, sagði ég. Á þessum slóðum, og á þessum tímum – undir lok næstsíðustu aldar – var lífið mestan part ógæfa. Dauðinn líkn frá þraut.
Söguþráðurinn, flókinn en einfaldur í senn, spunninn upp úr þríleik Jóns Kalmanns: Himnaríki og helvíti, Harmur englanna og Hjarta mannsins – tæplega þúsund blaðsíður.
Söguþráðurinn er einfaldur í þeim skilningi, að allt snýst þetta um stríð mannfólksins við ofurefli náttúrunnar um það að lifa af. Flókið í þeim skilningi, að í hugarfylgsnum og sálarlífi þessa umkomulausa fólks lifa, þrátt fyrir allt, draumar og vonir um betra og fegurra mannlíf.
Höfundurinn, Jón Kalmann, er einn helsti galdramaður hugarflugsins í bókmenntum samtímans. Orð hans eru eins og „björgunasveitir í þrotlausu útkalli“, sem eiga að bjarga „liðnum atburðum og slokknuðum lífum undan svartholi gleymskunnar“.
Í texta höfundarins á síðum þríleiksins gera þau það. Höfundurinn höfðar til ímyndunarafls lesandans, sem hverfur með honum aftur í tímann og setur sig í spor þessa örsnauða fólks á hjara veraldar, þar sem það heyr tvísýna baráttu við ofureflið. Lesandinn nemur orð Kalmanns stundum sem tónlist, stundum sem myndverk, en aldrei sem dauðan bókstaf. Þetta getur gerst í hugarheimi lesandans. En er þetta hægt á leiksviðinu?
Þeir færast ekki lítið í fang, listrænir stjórnendur þessarar sýningar, þeir Bjarni Jónsson og Egill Heiðar Anton Jónsson. Báðir eru þrautreyndir leikstjórnendur. Þeir þekkja af eigin reynslu, bæði innan lands og utan, þá tækni, sem leiksviðið býr yfir við að koma sögu til skila í máli, myndum og hljóðum.
Kannski höfum við aldrei séð annað eins á íslensku leiksviði. Hamslaus öldugangur á grimmu úthafi, þar sem opin bátskel er eins og leikfang í heljargreipum hafsins. Manndrápsbylur á reginfjöllum, þar sem snjóhengjan hótar dauða og djöfli. Og mannskepnan reynir að skríða í skjól eins og sært dýr. Magnað!
Hvernig kemur maður þessum ósköpum til skila á sviðinu?
Til þess að upplifa það verður maður einfaldlega að sjá sýninguna. Í þrjár klukkustundir sátu frumsýningargestir eins og bergnumdir inni í þessari ógnarveröld.
Stóra sviðið er nýtt út í ystu mörk. Engin afmarkandi leikmynd, bara myrkrið, gnauðið og óttinn, sem hangir í loftinu – og sverfur stöðugt að. Stundum glittir í hamingjuna, ástina. En hafið er ógnvekjandi – ég tala nú ekki um, ef þú ert ósyndur og átt líf þitt undir miskunnsemi Guðs. Í bakgrunninn er brugðið upp myndum af teikningum Þórarins Blöndal, sem eru hrífandi í einfaldleik sínum en um leið svo ótrúlega grimmar. Búningar Helgu, lýsing Þórðar Orra og undirliggjandi tónlist Hjálmars Helga magna upp steminguna. Maður vill helst hjúfra sig upp að sessunaut. Hvað næst?
Þúsund blaðsíður, sagði ég, tólf leikarar í 23 hlutverkum í rúmlega þrjár klukkustundir á sviðinu. Öllum liggur mikið á hjarta og þurfa að koma skilaboðum áleiðis. Allir vilja verða þátttakendur í sögunni – sögunni okkar. En tíminn leyfir það ekki.
Það er bara strákurinn, sem fær þann tíma, sem hann þarf. Hann er á sviðinu allan tímann. Þuríður Blær Jóhannsdóttir nýtir tækifærið og slær rækilega í gegn í hlutverki stráksins. Hún dregur upp einlæga, sannfærandi og kraftmikla mynd af þessum ljúflingi, sem saknar Bárðar og er kominn í plássið til að skila bókinni. „Bárður hugsaði of mikið um ljóð, gleymdi stakknum, og heimurinn var ekki samur“, segir á einum stað.
Sumir leika tvö hlutverk, jafnvel þrjú – og það er erfitt. Það er farið hratt yfir sögu, brugðið upp myndum, en sagan ekki sögð til enda. Það hefði verið forvitnilegt að tala lengur við Jens landpóst, sem fer á flug í túlkun Bergs Þórs, eða Andreu, sem að lokum flyst til Bjarna bónda á Nesi. Mér finnst Katla Margrét hafa góða nærveru í hlutverki Andreu, fanggæslunnar – en það var svolítið erfitt að skilja á milli hennar og Salvarar, vinnukonunnar af Ströndinni.
En það geta ekki allir komist að í svona margskiptri sögu. Hefði þá mátt stytta verkið? Það hlýtur að hafa komið til tals og hefði kannski verið til bóta. Það vefst örugglega fyrir þeim, sem ekki hafa lesið magnum opus Kalmanns að fylgjast með í afkimum og undirmálum sögunnar.
Saga Geirþrúðar gæti verið efni í aðra leiksýningu. Geirþrúður er burðarásinn andspænis hinu karllæga og veitir hinum veika gróðri skjól. Hún brýtur allar hefðir og er á skjön við danskættaða þorpstilveruna. Harmur hennar að lokum er ógnvekjandi og minnir á hetjur grískra leikbókmennta. Margrét Vilhjálmsdóttir sómir sér vel í hlutverki Geirþrúðar, þó svo að hún sé ekki svarthærð! Rautt er líka eggjandi, að sögn!
Er þá einhver von? Ef draumur skáldsins um himnaríki á jörðu getur ekki ræst, verðum við þá að láta okkur nægja framtíðarsýn feminismans? Átökin milli hinna karllægu og kvenlegu gilda standa á milli útgerðarauðvaldsins, Friðriks, sem Vali Frey Einarssyni, tekst snilldarlega að gera mátulega fráhrindandi, og hinna harðdrægu sjósóknara annars vegar, og svo hins óharðnaða unglings (stráksins) í skjóli Geirþrúðar hins vegar.
Mítú-hreyfingin læðist inn í sýninguna með stóryrtum yfirlýsingum gegn „helvítis karlmennskunni“. Víst er kappið best með forsjá (það þarf að hafa stakkinn með í róður). En hver sækir björg í bú, ef engin er karlmennskan? Var það ekki Búdda, sem leysti þrautina og fann samræmið í samhverfu andstæðnanna – yin og yang, karls og konu?
Niðurstaða – glæsileg sýning, en kröfuhörð. Það var næstum eins og stórbrotið myndverkið kæfði á stundum hinn ofurskáldlega texta höfundar.
Er einhver boðskapur? Hvað segir Kalmann sjálfur:
„Ég hef heimildir fyrir því, að allt sé svo fullkomið í himnaríki, að fólk deyr þar um aldur fram af tómum leiðindum, en að lífið og fjörið sé í helvíti…. Ef svo ólíklega vildi til, að við myndum ná einhverri fullkomnun, þá værum við ekki lengur manneskjur. Heldur eitthvað annað“.
Og eitt, sem ég gleymdi að minnast á: Sólrún Ylfa Ingimarsdóttir í hlutverki Lilju, litlu systur stráksins, sem honum þótti svo vænt um, á meðan hún lifði, fylgir honum í svefni og vöku. Segir aldrei orð, en leikur hennar á fiðluna er ógleymanlegur – fullur saknaðar, ástar og trega.