Það er einmitt á svona kvöldum í leikhúsinu, sem ég hverf í huganum langt aftur í tímann og fyllist söknuði – nostalgiu – eftir einhverju, sem var, endur fyrir löngu, en aldrei kemur til baka. Það var á svona kvöldum, sem maður skynjaði svo sterkt aðdráttarafl leikhússins – hvað það er, sem gerir leikhúsið að töfraveröld – ærir mann og tryllir.
Á svona kvöldum fallast allir í faðma í lok sýningar, gráta af gleði, örþreyttir en hamingjusamir. Fagnaðarlátum áhorfenda handan tjaldsins ætlar aldrei að linna, það er stappað í gólfið og hrópað – encore, encore! Fögnuðurinn hríslast um sviðið, og allir verða vinir. Allir – líka smiðurinn, sendillinn, skúran, sminkan og tenorinn – jafnvel súperstjarnan. Því að samstaðan skiptir öllu máli, þegar upp er staðið. Einn hlekkur bregst – og allt hrynur. Þetta er hópvinna, þar sem allir leggjast á eitt.
Sagan að baki öllum þessum hávaða og látum, skrauti og skrumi er oftast nauðaómerkileg og varla þess virði að leggja á minnið: Ást í meinum, ást í bala, svik og prettir, bla, bla, bla… En það er gjörningurinn sjálfur, tónlistin, söngurinn, dansinn, flikk-flakkið, flippflappið og töfrabrögðin, sem heilla áhorfendur upp úr skónum og verða ógleymanleg.
Slá í gegn er einmitt dæmi um þetta. Góa er falið það hlutverk að spinna þráð úr sögu Stuðmanna, tengja saman verk þeirra, svo að úr verði heildarmynd, með upphaf og endi. – (Þetta hefði eflaust getað orðið ástarsaga með dramatískum tilþrifum, en þá hefði kannski ekki orðið svona gaman í leikhúsinu) – Nei, Gói velur þá leið, sem reyndar lá í augum uppi, að búa til farandleikhús, sem var mjög í tísku á þeim árum, þegar Stuðmenn eru að fóta sig í tónlistarflórunni. Þá var ferðast um landið að sumarlagi, boðið upp í dans í félagsheimilum, og duflað og daðrað fram undir morgun. Stuðmenn urðu fljótlega eftirlæti allra – þeir slógu í gegn, mjög ólíkir, en samhentir þó. Hver snillingurinn á fætur öðrum. Ragga varð svo rósin í hnappagatinu. Hver smellurinn af öðrum smitaði frá sér út í þjóðfélagið. Lög Stuðmanna voru komin til að vera.
Þeir voru þarna, Stuðmennirnar, næstum allir um kvöldið í leikhúsinu – nema Tómas, blessuð sé minning hans. Ég sá ekki Valla. Löngu orðnir goðsagnir í lifanda lífi, en – þrátt fyrir fræðgarljómann – hógværir og lítillátir. Þakklátir? Já, kannski. Sjálft Þjóðleikhúsið lagt undir, virðulegasta stofnun þjóðfélagsins. Aðdáendur gátu ekki dulið fögnuð sinn, allir brosandi út að eyrum. trallandi „slá í gegn“.
Í upphafi leit út fyrir, að sagan hans Góa ætlaði að verða svolítið púkó – naive eða gamaldags. Jón Gnarr, fyrrverandi borgarstjóri Reykjavíkur mættur í hlutverki hins heimaríka allsherjarþorpsreddara, sem er að færa upp Gullna hliðið í félagsheimilinu, í lopapeysu með kústinn á lofti. Einhvern veginn gat maður ekki alveg sæst við borgarstjórann fyrrverandi í þessu hlutverki. Var þetta djók?
En svo breytist allt, þegar sirkusinn kemur í bæinn, heimurinn kemur í heimsókn. Þorpsbúar fá tækifæri til að sýna, hvers þeir eru megnugir. Og það er ekki upp á þá logið: Edda Björgvins, Sigurður Þór, Siggi Sigurjóns, Esther Talía, Hallgrímur, Oddur, Birgitta, og Þórey syngja öll, dansa og hlæja af slíkri hjartans list, að maður sýpur hveljur og tárast. Og ekki versnar það, þegar Helga og Binni (Ólafía og Örn) – og auðvitað dóttir þeirra, hún Harpa Sjöfn (Snæfríður) – skerast í leikinn, og sirkusinn tekur á sig mynd. Þau Helga og Binni, sem eru vön í bransanum, vita sem er, að sjóið er ekki fullkomnað, nema þau geti boðið upp á stórstjörnu í lokin. Og þar kemur hr. Frímann til sögunnar (Hilmir Örn), ásamt aðstoðarmanni sínum, Herra Reykjavík (Bjarni Snæbjörnsson) – og trylla liðið. Áhorfendur geta varla setir kyrrir í sætum sínum fyrir gleðihrolli.
Það sem eftir situr, þegar upp er staðið, er þessi ótrúlega færni – og þá er ég ekki að tala um stórstjörnur eins og Ólafíu Hrönn, Örn Árna, Eddu Björgvins, Sigga Sigurjóns eða Hilmi Snæ – við vitum allt um þau. Ég er að hugsa um þessa ungu krakka, sem sýndu fágæta agaða leikni, hvort sem var í dansinum eða fimleikunum. Þeir voru eiginlega hið undraverðasta í þessari sýningu. Danshöfundurinn, Chantelle Carey, er greinilega fagmanneskja, stelur ekki sjóinu, en gefur því fyllingu og fjör. Gleður augað.
Við erum stödd í vaudeville, leikhúsi gleðinnar. Það er sungið og dansað á sviðinu. Gleðigjafar og grínarar gantast. En þar koma líka við sögu hönnuðir, smiðir, danshöfundar, ljósameistarar, búningahönnuðir og tónlistarmenn. Án þeirra væri ekkert leikhús – ekkert vaudeville – enginn sirkus. Þessi sýning er dæmi um frábæra hópvinnu. Ef einn hlekkur bregst, þá hrynur allt.
———-
Áhorfendur stöppuðu í gólfið, vildu meira – og hrópuðu encore, encore, alveg eisn og forðum, þegar allt gekk vel. Að tjaldabaki hefur eflaust verið grátið og hlegið, faðmað og kysst – allir verið vinir. Og einhvern tíma í framtíðinni verður þetta kvöld í leikhúsinu bara dýrmæt minning, sem yljar. Njótið á meðan varir.