Kæru vinir

Kæru vinir.

Á þessu vori, árið 2023, eru liðin 70 ár frá því ég hóf eins konar „samtal“við íslensku þjóðina.  Það var vorið 1953. Ég var fimmtán ára og dansaði can-can  í  Kátu ekkjunni – söngleik sem sló í gegn í nýstofnuðu leikhúsi þjóðarinnar, og gekk fyrir fullu húsi langt fram á sumarið. Can-can er ekki fallegur dans – en sagður kynæsandi. Og ég man, að skólafélagar mínir í MR flykktust í leikhúsið, bara til þess að geta skoðað fótleggina á Bryndísi – að sögn!  – Líklega ýkjur.

Nema hvað, að síðan þetta ógleymanlega vor hef ég –  að sagt er –  stöðugt verið á milli tannanna á fólki,  bæði vegna starfa minna í leikhúsinu og síðar í sjónvarpinu – en kannski ekki síst vegna náinna kynna minna af róttækum stjórnmálamanni, sem er  bæði hataður af íhaldinu, en ekki síður af kommunum. 

Ég notað orðið „samtal“ við  þjóð mína. Kannski er það ekki alveg rétt – ég átti í rauninni  „eintal“ við þjóð mína – bæði ofan af leikhússviðinu og seinna úr lokuðum sal sjónvarpsins.  Ég vissi í rauninni aldrei, hvernig mér var tekið, hvort ég var á réttri leið eða hvort mér tókst að vekja samúð og velvild – eða hrifningu –  áhorfenda minna. Það var enginn sem sagði mér það. Ég skynjaði, að ég var þekkt persóna,sem vakti forvitni með fólki. Það horfði á mig, en tjáði sig sjaldan  – brosti ekki heldur.

Ég var í rauninni svolítið einmana, fékk sjaldan hrós – og hafði ekki hugmynd um, hvaða augum þjóð mín liti á mig.

Af hverju er ég að segja ykkur þetta? Það er vegna þess, að núna, þegar óvinunum hefur loksins tekist að svipta okkur – mig og manninn minn – ærunni, tekist að  telja fólki trú um, að við séum kynferðisglæpamenn, sem níðast á saklausum konum um hábjartan dag á okkar eigin heimili –  þá er eins og himnarnir hafi skyndilega  opnast, og englanir vitji okkar. Og ég upplifi eitthvað –  sem mér hlotnaðist aldrei  allt mitt líf í fjölmiðlum og á leiksviði – hamingju, gleði, þakklæti  fyrir örlæti náungans, fólks sem ég þekki ekki neitt.

Eftir síðustu atburði í réttarsal  og þann dóm, sem maðurinn minn hlaut að lokum, er eins fólk hafi umhverfst.  Það er sama hvar við komum –  út á götu, í búðina, á veitingastaðinn, á spítalann jafnvel – allir brosa til okkar, taka utan um okkur, tala við okkur, segja eitthvað fallegt og hughreystandi. Vilja gera allt fyrir okkur!

Þetta hefur aldrei í lífi mínu gerst áður. Og kannski hef ég alltaf – allt mitt líf –  verið að bíða eftir einmitt þessu.

Ég fyllist þakklæti, og ég verð svo hamingjusöm, að ég græt af gleði, þar sem ég stend adspænis ókunnri manneskju . Loksins hefur margra ára tómlæti snúist upp í ólýsanlega gleði og þakklæti. Lífið brosir við okkur.

Ég hef aldrei verið hamingjusamari en þessa síðustu daga, hugsið ykkur.