Frá Leiklistarfélagi MH
Mér fannst eins og þetta gæti verið gamalt frystihús – eða kannski bara vinnslusalur í frystihúsi. Hér hafa hugsanlega einhvern tíma staðið örþreyttar konur og pillað rækjur eða flakað þorsk til útflutnings. En það er liðin tíð. Nú er hér ekkert nema ísköld gólf og snjakahvítir veggir. Birtan er bláföl – eiginlega líkföl. Ósjálfrátt dreg ég fæturna undir mig og hneppi að mér kápunni til að halda á mér hita. Er þetta fyrirboði um það sem koma skal? Ljótleikur heitir það.
Kvöldið áður hafði ég farið að sjá Draum um Jónsmessunótt, sýningu Herranætur Menntaskólans í Reykjavík (líka í gamalli verksmiðju í hinum enda bæjarins). Ég hafði leyft mér þann munað að hlæja af hjartans list og gleyma mér í næturævintýrum æskufólksins. Það sem eftir sat, voru ljúfar minningar um leikrit, sem snýst um ástir, dufl og daður – og fær happy end.
En leikritið, sem ég sá í frystihúsinu í Örfirisey eftir nemendur Menntaskólans í Hamrahlíð og kennara þeirra, Bjartmar Þórðarson, er allt öðru vísi – og fær ekki happy end. Og kannski er það ekki leikrit í venjulegri merkingu, heldur miklu fremur ádrepa, áminning eða viðvörun. Fjórði veggurinn er rifinn niður og leikendur tala beint til áhorfenda – um það sem þeim liggur á hjarta.
Þetta var allt eitthvað svo óvænt. Hvað er fólkið að pæla, fólk í blóma lífsins? Hér er allt í einu komið fram á sjónarsviðið ungt fólk, sem lætur ekki glepjast af glassúrnum, en skyggnist undir yfirborðið – hið áferðarfallega yfirborð. Hér er verið að leita sannleikans, hugsa um samfélagslega ábyrgð, réttlæti og ranglæti, sekt og sakleysi (Þau ættu að gefa sér tíma til að fara og sjá verk Arthurs Miller í Þjóðleikhúsinu. Sem ungur maður pældi hann í öllu þessu, og áratugum seinna á hann enn fullt erindi við okkur. Hefur ekkert breyst?). Þetta var allt svo óvænt, því að flestir í þessu þjóðfélagi eru í bullandi afneitun, að manni sýnist, láta sem allt sé í stakasta lagi í gerspilltum heimi.
Og svo fór ég að hugsa um það á leiðinni heim, hvort þetta ólíka leikritaval tveggja framhaldsskóla hefði einhverja dýpri merkingu. Lýstu þessar andstæður tveimur ólíkum heimum? Væri þarna í hnotskurn hinn ímyndaði munur á þessum tveimur skólum, MR og MH – og reyndar öllum öðrum framhaldsskólum landsins? Það virðist vera mikill titringur meðal nemenda í 10. bekk grunnskóla varðandi val á framhaldsskólum. MR stendur á gömlum merg og hefur sérstöðu, hvort sem hún er réttlætanleg eða ekki. Er kannski eitthvað til í því, að hann sé öðru vísi – hvað segja þeir – að hann sé yfirstéttarskóli?
Eru MR-ingar í afneitun – eða er það hrein tilviljun, að þeir velja verk til sýningar, sem hefur sáralítið fram að færa nema yfirborðslega skemmtun og hrífandi texta? Eru þá krakkarnir þar ekkert annað en ofvernduð 101 dekurbörn, sem lifa í áferðarfallegum heimi, er hlíft við raunveruleika íslensks samfélags og velja sér verk í samræmi við sinn lífsstíl? Eða er galsinn og glaumurinn á Jónsmessunótt kannski þeirra flóttaleið frá alvöru lífsins, á meðan MH-ingar horfast í augu við raunveruleikann og takast á við hann?
Ljótleikur er afrakstur margra mánaða pælinga nemenda við menntaskólann með kennara sínum, Bjartmari, sem hefur augljóslega lagt sig allan fram um að finna hinn rétta tón, leyfa öllum að njóta sín, standa frammi fyrir áhorfendum og fá að segja hug sinn. Krökkunum liggur mikið á hjarta og öllum tekst þeim að koma því vel til skila með mátulega leikrænum tilburðum, án þess að vera tilgerðarlegir. Hef ég þá í huga Ástu Heiði, Höllu Guðrúnu og Jón Reginbaldur, sem sýna, að í þeim býr leikaraefni, á meðan hin eiga svolítið erfiðara með að láta huga og hönd fylgjast að. Stirðleiki sem hverfur með æfingu.
Sagðar eru hryllingssögur úr hversdagslífinu um hvers kyns ofbeldi, nauðganir, trúarfasisma, fíkniefnanotkun, blóðsúthellingar – sögur sem við heyrum í daglegum fréttum, en skellum skollaeyrum við – gleymum jafnharðan. Þetta kemur okkur ekki við.
Áhorfandinn hangir svolítið í lausu lofti framan af, veit ekki alveg hvert stefnir, en allt gengur þó upp að lokum og þræðirnir tvinnast saman. Og skilaboðin eru skýr: við viljum ekki meir af svo góðu. En hver er svo niðurstaðan? Heldur mikil svartsýni, að mér finnst, eiginlega uppgjöf. Móðirin kýs að fórna barni sínu nýfæddu, fremur en að sætta sig við, að það hljóti örlög fórnarlambsins í grimmum heimi. En má ekki líka benda á, að erfiðleikarnir séu til þess að sigrast á þeim? Lífið er til þess að læra af því, eða hvað?
Og nú er kominnn nýr dagur – ég er enn að hugleiða Ljótleikinn/ljótleikann. Var það kannski af ásettu ráði, sem gólfið var ískalt og birtan líkföl? Verk MH-inga er angistarfullt, ágengt og grimmt – í Ljótleik fer fram miskunnarlaus sjálfskoðun, sem ég vona innilega, að eldist aldrei af Ástu, Birki, Höllu Björgu og Höllu Guðrúnu, Ingimari, Ingunni, Jóni, Sölmundi og Steinunni.
Þökk fyrir vakninguna.
3 stjörnur