Ilmur Kristjánsdóttir í hlutverki sínu
En samlíkingin nær ekki öllu lengra, því að önnur þeirra kýs að svipta sig lífi – hin lifir fram í háa elli. Önnur þeirra verður ódauðleg, harmsöguleg persóna og öðlast eilíft líf í bókmenntunum, á meðan hin, dóttir biskupsins, gleymist.
Hedda er hins vegar ekki væntumþykjuleg persóna. Hún vekur ekki samúð – þvert á móti, hún vekur andúð. Hún er greinilega dekurbarn, sem aldrei hefur þurft að láta neitt á móti sér. Frek, eigingjörn, sjálfselsk, öfundsjúk og – eins og hún orðar það sjálf – “ræður ekki við púkann í sjálfri sér”. Það er skírskotun í “hin myrku öfl”, sem Ibsen byggir verkið á. Þessi eyðileggingarhvöt, sem er svo erfitt að hemja – að unna ekki öðrum þess að vera hamingjusamir, hafa tilgang í lífinu, elska og vera elskaðir – þessi hamslausa löngun til að drepa yndi sitt. Þetta eru allt kunnuglegar tilfinningar. – (Svona hef ég alltaf ímyndað mér, að Hallgerður langbrók hafi verið.)
Thea, óvæntur gestur, segir frá því, hvað hún var alltaf hrædd við Heddu sem krakki. Hedda átti það til að rífa í hárið á henni, þegar þær mættust í skólastiganum, og hóta því jafnvel að svíða það af henni. Hedda þykist ekkert muna – man ekki einu sinni, hvað Thea heitir – en auðvitað þoldi hún ekki Theu, sem hafði svo fallegt hár.
Hedda er sjálfhverf persóna, sem hugsar bara um eigin hag og svífst einskis í samskiptum við annað fólk. (Könnumst við ekki við svoleiðis fólk?) Hún traðkar á lítilmagnanum, sýnir honum forakt, lítilsvirðingu. Það er ömurlegt að horfa upp á það, hvernig hún kemur fram við Júllu, fóstru Jörgens, eiginmannsins – þessa góðu konu, sem vill henni svo gott og hefur stutt ungu hjónin til að kaupa draumahúsið.
Eða hvernig hún kemur fram við eiginmann sinn. Hún traðkar á honum líka, sýnir honum óverðskuldaða fyrirlitningu. Samt eru þau bara nýgift
Hvers vegna öll þessi neikvæðni? Þetta niðurrif? Hedda er kona í uppreisnarham gegn því lögmáli tíðarandans sem neyðir konur til að sætta sig við þá rullu, sem þeim er skömmtuð – að vera fallegt stofublóm, undirdánug eiginkona í stássstofu. Uppreisn hennar gegn þessum ásköpuðu örlögum brýst út í óvild og meinbægni gagnvart öllum þeim, sem fá að njóta sín í lífinu – eða sætta sig við stöðu sína í þjóðfélaginu. Hún er niðurrifsmanneskja.
Hedda er í innsta eðli sínu ekki góð kona – og á því ekkert gott skilið. Og þegar hún er búin að brenna allar brýr að baki sér, þá er bara ein útgönguleið – að svipta sig lífinu. Og ekki hvarflaði að mér að hafa samúð með henni í dauðanum. Þaðan af síður fannst mér hún sýna hugrekki. Þetta var hennar flóttaleið.
Hedda Gabler er á sviðinu allan tímann. Hún birtist okkur í upphafi, klædd fölbláum dragsíðum kjól með breiða gjörð um sig miðja. Liðað hárið fellur laust niður á axlirnar og augun skjóta gneistum. Hún er tíguleg – mögnuð, eins og segir í prógramminu.
Og Ilmur Kristjándsóttir er mögnuð leikkona. Við sleppum ekki af henni augunum allt kvöldið, þessari frekjudós, sem er vön að beygja alla í duftð og ráða örlögum manna – eða því trúir hún alla vega sjálf.. Augun eru spegill sálarinnar, og Ilmur hefur stór og falleg augu. Í þeim speglast örvæntingin í bland við djöfullegan svip “púkans sem hún ræður ekki við”. Ég var alsæl með Ilmi í hlutverki Heddu.
Nema það var eitt sem angraði mig óskaplega. Það var kjóllinn sem hún klæddist seinni partinn í leikritinu. Ég hélt satt að segja, að snillingurinn Filippía Elísdóttir gæti ekki brugðist. En þarna hefur orðið einhver misskilningur. Allt í einu var Hedda komin í knallstuttan kjól úr skríðandi satíni, sem meira að segja fór henni illa. Hún var enn með beltið um sig miðja, með hárið slegið og í hnéháum stígvélum samkvæmt nýjustu tísku. Allt í einu var Hedda orðin eins og hver önnur miðbæjarskvísa á leið út í næturlífið.
Kannski er leikstjórinn þarna að reyna að skírskota til þess, að barátta Heddu við sjálfa sig eigi enn fullt erindi og að hún sé tímalaus. Já, kann að vera, en einmitt klæðnaður kvenna á seinni hluta nítjándu aldar var partur af hlekkjunum, sem þær þurftu að rífa utan af sér. Korselett, skósíðir undirkjólar, fyrirferðarmikil pils, langar ermar, uppsett hár og hattar. Allt þetta pírumpár laut ströngum reglum, sem enginn vogaði sér að hrófla við á þessum tímum. Byltingin fólst einmitt í því að rífa utan af sér hin hreyfihamlandi þröngu klæði, rífa af sér búrkuna. Auk þess fer ég ekki ofan af því, að Hedda var mun glæislegri í síða kjólnum en í stuttpilsinu.
Það var gaman að horfa á þær stöllur saman á sviðinu, Ilmi og Brynhildi. Þær eru báðar fæddar leikkonur og verða æ betri við hverja raun. Þær eru ekkert að leika, þær bara eru, og hversdagslegt samtal þeirra Heddu og Theu öðlast dýpri merkingu í munni þessara tveggja. Thea hefur samúð okkar allra, hún er tákn um hið góða og fagra í tilverunni, sem kveikir öfund í brjóstum hinna ófullnægðu. Thea er á mörkum þess að vera of mikil tilfinningavera, en Brynhildi tekst að fara bil beggja og gera henni sannfærandi skil, algerlega laus við alla væmni.
Það er um fatnað Theu að segja, að þar fer Filippía hálfa leið. Snið og yfirbragð dragtarinnar er ibsenskt, en það hefur verið skorið neðan af pilsinu, þannig að fagrir fótleggir Brynhildar fá að njóta sín. Ef pilsin mega vera stutt og tvöþúsundogtíuleg, af hverju eru þá strákarnir klæddir alveg samkvæmt hefðinni, með síð frakkalöf og í hnepptum vestum? Á það að vera dæmi um íhaldssemi karla, sem vilja engu breyta og halda sem fastast í fornar hefðir – og allra síst sleppa konunum lausum? Kristín leikstjóri er sennilega sannfærður femínisti!
En hvað þá með elsku Kristbjörgu, sem mætti halda af fatavali, að væri hin dæmigerða súfragetta, kona í uppreisn gegn hefðinni? Kristbjörg er látin klæðast síðum buxum, sem ég held, að hefði verið óhugsandi á þessum tímum, og er næstum krúnurökuð. Minnir meir á karlmann, þar til hún setur upp þennan líka hræðilega hatt, sem hún hefur valið af sérstöku tilefni, en bendir til þess, að Júlla hafi mjög gróteskan smekk. Mér fannst klæðnaður Kristbjargar út í hött, einkum þar sem Júlla er eins konar Florence Nightingale og hefur eytt ævinni í á hjálpa þeim sem minna mega sín. Auk þess á Kristbjörg þetta ekki skilið, hún er ein af máttarstólpum leikarastéttarinnar, sem bregst ekki og gerir aldrei uppsteit.
Og fyrst ég er nú búin að nefna allar konurnar í leikritinu nema eina, þá ætla ég nú að geta vinnukonunnar, sem segir fátt, en spilar þó stóra rullu – alla vega í meðförum Hörpu Árnadóttur, sem er smám saman að verða meira áberandi í leikhúslífinu. (Leikstýrði meðal annars einni albestu sýningu, sem nú er á fjölunum í Reykjavík, Súldarskeri.) Berta vinnukona er sú eina kvennanna, sem er klædd samkvæmt hefð, í skósíðu pilsi, með langar ermar og hneppt upp í háls (þannig skyldi það vera). En Berta er líka greinilega í uppreisnarhug, því að hún er með hárið slegið, sem setur óneitanlega nýtt strik í reikninginn. Við förum ósjálfrátt að gefa henni auga. Hvað er hún að fara með þessu? Og þetta kemst hún upp með í fínu húsi væntanlegs prófessors!
Þá er ég komin að karlmönnunum í lífi Heddu. Þeir eru allir á hennar valdi, nema kannski síst Brakk lögmaður, sem nær slíkum fantatökum á henni, að hún engra kosta völ í lokin. Þarna er Eggert á réttum stað, mjúkmáll á yfirborðinu, en háll sem áll undir niðri. Hefur ráð undir rifi hverju, ísmeygilegur, undirförull eiginhagsmunaseggur, sem heillar en hrindir frá sér á sama tíma. Eggert kemur þessu öllu til skila á sinn látlausa en ögn húmoriska máta.
Eiginmaður Heddu er ekki öfundsverður af hlutverki sínu. Fagmaður, sem hefði auðvitað átt að halda áfram að lifa í skjóli Júllu frænku, fá að njóta athygli og ástar og geta helgað líf sitt óáreittur lestri og fræðistörfum. Í staðinn situr hann uppi með kröfuharða, óbilgjarna eiginkonu, sem virðir hann einskis, nema hann geti skaffað vel og haldið uppi óbreyttum lífsstíl. Valur Freyr sést hér í nýju ljósi, allt í einu svo lítill sér, bljúgur og auðsveipur. Maður fer að trúa því, að Valur Freyr sé svona í raun og veru, og það segir eiginlega allt um frábæra framgöngu hans.
Og þá er bara eftir að geta Ellerts (mjög algengt nafn í minni fjölskyldu), hins fallvalta alkóhólista, sem Hedda dregur á tálar en hendir síðan. Alkóhólistar mega ekki við slíkum áföllum. Í smábæjarillkvittninni kremst hann undir og á sér ekki viðreisnar von, jafnvel þótt hann skrifi hverja metsölubókina á fætur annarri. Ellert er líka fórnarlamb “púkans, sem Hedda ræður ekki við”.
Ég ætlaði satt að segja ekki að þekkja Stefán Hall aftur, hafandi séð hann í hinum ólíklegustu hlutverkum. Hér birtist glæsimennið sem áður var, okkur á sviðinu, ögn þungur og luralegur, svoítið sveitó, nýkominn að norðan, aumkunarverður daginn eftir fylliriið, óþekkjanlegur í niðurlægingunni. Stefán er líka einn af þeim, sem fer æ meir fyrir bæði í kvikmyndum og á leiksviði. Ég óttaðist kannski, að hann mundi festast í hlutverkum sætu, kláru gæjanna, en þarna fær hann að kljást við verðuga persónu, sem gefur honum færi á að kafa inn í sálarlíf örvinglaðs manns. Frábært.
Leikmynd Finns Arnars Arnarsonar og lýsing Halldórs Arnar Óskarssonar er glæsileg, og hæfir vel yfirstéttarfjölskyldu í norsku þorpi – tímalaus, og gæti þess vegna verið í nýlegri villu í Grafarholti. Mikill elegans yfir breiðum stiga upp á loftið og glervegg, sem skilur á milli stofu og svala. Stílhreint og þægilegt fyrir augað.
Tónlistin er líka mjög spennandi. Barði Jóhannsson fylgir eftir stígandi verksins, og tónlistin verður æ magnaðri, efti því sem djöfulskapurinn eykst. Það lá við, að maður hrykki af hjörunum, þegar skotið reið af og tónlistin fjaraði út.
Með stuttu millibili tvö sígild meistaraverk á fjölum Þjóðleikhússins – Ibsen og síðari tíma lærisveinn hans, Arthur Miller. Ekki verður sagt, að Þjóðleikhússtjórann okkar vanti metnað. Ég óska henni til hamingju með kraftmikinn og djarfan leikstjóra, Kristínu Eysteinsdóttur.