Zombiljóðin: Lifandi dauð

Borgarleikhúsið frumsýnir ZOMBILJÓÐIN eftir: Mindgroup í leikstjórn Mindgroup
Leikmynd gerði: Mindgroup
Tónlist stjórnar: Mindgroup
Lýsingu annast Kjartan Þórisson og Mindgroup
Stjórn sýningar: Haraldur Björn Halldórsson
Leikarar: Mindgroup

Mindgroup skipa:
Halldóra Geirmundsdóttir
Hallur Ingólfsson
Jón Atli Jónasson
Jón Páll Eyjólfsson


Zombiljóðin

Svona eftir á að hyggja, hefði leikhúsið átt að setja gestum sínum fyrir að lesa leikskrána, áður en þeir gengu í salinn. Ella er hætt við, að þeir botni ekki upp eða niður í því, sem fram fer á sviðinu – fyrr en vonandi eftir á. Enda sagði gamalreyndur leikhúsmaður við mig, um leið og við gengum í salinn: “Ég ætla ekki að óska þér ekki góðrar skemmtunar í kvöld, Bryndís, heldur bara …”

Heldur bara hvað? Mér var satt að segja ekki skemmt þarna um kvöldið, eiginlega leið mér bara hálfilla. Það var verið að nudda mér upp úr einhverju óþægilegu, einhverjum hjartaskerandi minningum um löngu liðna atburði. Þetta var ekki leikrit, eins og við eigum að venjast, heldur eins konar annáll í fréttaskeytastíl, um hryllilega atburði, sem hefðu átt að rífa úr okkur hjartað á sínum tíma, krefjast aðgerða og uppgjörs. En samt gerðist ekkert.

Höfundar ganga hreint til verks, komast strax að kjarna málsins og hlífa engum. Tyggja ofan í okkur staðreyndir á sinn ísmeygilega hátt, svipbrigða og ástríðulaust – en kannski með vott af ásökun. Við kveinkum okkur eins og krakkar, sem vita upp á sig skömmina. Við erum hinir lifandi dauðu, sinnulausir, feitir og sljóir – ómennskir.

Efnilegur unglingur dópar sig til dauða. Það nær í fréttir þann daginn. Hvað svo? Menn sem segjast vera málsvarar lýðræðis og réttarríkis í heiminum stunda pyntingar og morð á saklausu fólki. Það er nóg, að einhver liggi undir grun og breytir engu, þótt grunurinn reynist rangur. Bregðumst við við? Nei, það fer inn um annað og út um hitt. Maður fer í – lögreglubúningi – á úteyju æskulýðssamtaka norska jafnaðarmannaflokksins og fremur fjöldamorð á varnalausum unglingum. En það má ekki kalla hlutina sínum réttu nöfnum. Hann verður að heita brjálæðingur, þótt hann hafi undirbúið ódæðið árum saman og framið það með köldu blóði í nafni hugmyndafræði, sem hann hefur stælt og stolið frá stjórnmálamönnum á 1500 blaðsíðum. Hann framdi 90 morð. Hvað eru Bush og Cheney búnir að limlesta, myrða og hrekja á flótta margar milljónir af saklausu fólki til að hefna fyrir ódæðið í tvíburaturnunum? Setjum vði það í sitt rétta samhengi? Lærum við eitthvað af reynslunni?

Kirkjunnar þjónar, sem eiga að hlú að sálartötri okkar, hafa misnotað tugi, hundruð, nei, þúsundir barna, sem þeim var trúað yfir og treyst til að leiða á guðsvegum, en reyndust vera djöflar í mannsmynd, sem misnotuðu sakleysið. Angrar það nokkuð safnaðarmeðlimina, þar sem þeir sitja á sunnudagsmorgni undir guðsorðinu?

Við erum sem sé lifandi dauð. Kveikjan að þessari sýningu er sótt í Wudu á Haiti. Þræalahaldararnir á Haiti notuðu ólyfjan, sem lamaði viðnámsþrótt fórnarlamba, gerði þau meðfærileg, viljalaus verkfærði í höndum kúgara sinna. Þannig var það þar, samkvæmt heimildum í leikskrá. Og svona er það enn þann dag í dag – ekki satt? Er ekki flokkur fjöldamorðingjans aftur farinn að sækja í sig veðrið í Noregi, skv. Fréttum? Og hvað með flokkana, sem báru höfuðábyrgð á íslenska hruninu? Eru þeir ekki bara einar kosningar frá því að taka aftur við völdum? Eru ekki flestir lifandi dauðir? Viljalaus verkfæri í höndum kúgara sinna – eða hvað?

Ef þið nennið að hugsa málið, munið þá að verða ykkur úti leikskrána, áður en þið látið lesa ykkur Zombiljóðin.