Hversu oft sat ég ekki við fótskör ömmu á dimmum vetrarkvöldum, þar sem hún steig rokkinn og spann ullina frá Dalsmynni. Hún spann fínan þráð og prjónaði nærboli á okkur krakkana. Svo prjónaði hún líka nærbuxur – ögn þykkari – og klukkur svokallaðar, sem við stelpurnar klæddumst undir kjólunum. – Þess vegna varð okkur aldrei misdægurt í kuldahretum.
Margrét og Guðmundur voru annáluð fyrir, hversu barngóð þau voru. Fyrir utan sín eigin börn tóku þau börn annarra til sumardvalar og komu til manns. Þannig leiddi vinátta Margrétar og ömmu til þess, að þrjú af mínum eigin börnum fengu að njóta sumardvalar í Dalsmynni. Sérstaklega var Snæfríður, dóttir mín, í miklu dálæti hjá þeim hjónum. Hún lærði að ríða út með Guðmundi bónda og sinna fé um sauðburð og réttir. Og fékk þau eftirmæli frá Guðmundi, að þar færi fjárglögg og efnileg búandkona. Sjálf sagði fyrirsætan, Snæfríður, að hún ætti sér þann draum að búa í sveit.
Þessi tengsl leiddu til nánari kynna. Við Jón Baldvin fórum helst ekki hjá garði við Dalsmynni. Þegar Margrét húsfreyja kom í kaupstaðarferð, leit hún gjarna við á Vesturgötunni. Hún var fljúgandi mælsk, hápólitísk og gegnheil framsóknarkona af upprunalegu tegundinni. Það var kostulegt að fylgjast með því, hvernig þrætubók hennar og krataforingjans leiddi smám saman til gagnkvæmrar væntumþykju og virðingar. Jóni Baldvini þótti mikið til Margrétar koma og líkti henni jafnvel við ömmu sína á Strandseljum – en hærra verður sennilega ekki komist í hans virðingarstiga.
Margrét í Dalsmynni var persónuleiki, sem sópaði að. Hún lá ekki á skoðunum sínum og kvað fast að orði. Hagmælskan nærðist á húmornum, þar sem mannlýsingar hennar voru oft bersöglisvísur. Hún fann til í stormum sinnar tíðar og fór aldrei í manngreiningarálit.
En þótt hún væri félagslynd, var hún engu að síður náttúrubarn. Um bjartar sumarnætur vakti hún til að hlú að viðkvæmum gróðri í garðinum sínum? Þar var hennar einkaveröld. Sjálf var hún eins og sprottin upp úr íslenskri gróðurmold, barn náttúrunnar í sínu upprunalega umhverfi á nesinu undir jökli.
Fyrir jólin 2010 birtist ævisaga Margrétar eftir vinkonu mína, Önnu Kristíne Magnúsdóttur. Frásagnargleði Margrétar, atorka hennar og næmt auga fyrir því, sem er sérstakt og eftirtektarvert í mannlífi og náttúru, naut sín vel í meðförum Önnu. Bókin sló í gegn. Það sannaði, að frásagnarlist heilsteyptrar alþýðukonu, byggð á lífsreynslu langrar ævi, átti enn erindi við Íslendinga.
Blessuð sé minning Margrétar frá Dalsmynni,
Vilnius, 6.maí, 2013