Bryndís Schram í júlí 2013
Hvernig ætlarðu að halda upp á daginn, Bryndís?
Flamengohátíð! JB er búinn að bjóða mér á flamengohátíð í tilefni dagsins. Þetta er sko ekkert venjulegt sjó. Sjálfur Carlos Saura er stjórnandinn. Hann stjórnar öllu, frá tónlist og dansi til hárgreiðslu og ljósagaldurs. Við fengum sæti á öðrum bekk. – Sýningin fer fram á útileiksviði og stendur fram yfir miðnættið. Það sem meira er, þetta útileiksvið er í hæðunum hér fyrir ofan, í blómagarðinum undir veggjum Alhambra hallarinnar. Sú höll er einstæður minnisvarði um menningarstig og listsköpun Máranna, sem ríktu hér í Andalúsíu í sjö hundruð ár. Ég græt af gleði. Af tilhlökkun.
Hvernig tilfinning er að eldast?
Þegar ég var stelpa, hryllti mig við þeirri tilhugsun að verða 75 ára. Það jafngilti dauðadómi. Nú er ég komin á þennan stað í lífinu, og enn er þetta allt í lagi – ég er spriklandi af fjöri, eða svo segir JBH, að minnsta kosti. Samt er svolítið merkilegt að verða svona hundgamall. Það gerði ekki móðir mín, né heldur systir mín, né heldur dóttir mín – konurnar í lífi mínu. Af hverju fæ ég að lifa og njóta? – Nei, það er ekkert erfitt að eldast, ég tala nú ekki um, ef maður er forvitinn og áhugasamur um lífið og tilveruna. – Mér sýnist að vísu það vera frekar leiðinlegt að eldast á Íslandi. Maður er settur á einhvern bás og sagt að láta lítið fara fyrir sér. Helst ekki að hafa skoðanir, þaðan af síður að láta þær í ljósi. Mér finnst þetta óþolandi. Fullkomin óvirðing við gildi lífsreynslunnar og lýsir lágu menningarstigi.
Hvernig sérðu framtíðina fyrir þér?
Ég skal viðurkenna, að það setur að mér kvíða, þegar ég hugsa til framtíðarinnar. Ef þú átt við okkar sameiginlegu framtíð – framtíð mannsins á jörðinni – þá ræðst hún af því, hversu lengi enn móðir jörð umber ágengni mannskepnunnar. Viðvörunarljósin blikka víða – eyðing skóga, auðlindir á þrotum, fyrirsjáanlegur vatnsskortur víða um heim. Og án vatns er ekkert líf – aqua vitae. Mengun láðs og lagar, útrýming dýrategunda og loftlagsbreytingar af mannavöldum, sem munu víða raska lífsafkomu milljóna manna. Allt eru þetta afleiðingar af hugarfari mannsins – siðmenningu eða menningarleysi – sem ýtir undir hömlulausa græðgi og kann sér ekkert hóf í umgengni við náttúruna. – Fjármálakreppan minnir okkur á, að auðæfi jarðarinnar eru í fárra höndum. Ójöfnuður fer ört vaxandi innan flestra þjóðfélaga. Stór hluti næstu kynslóðar – los indignados – víða um lönd er án atvinnu, húsnæðis og vonar. Lýðræðið er lamað. Hinir ofurríku hafa keypt það – upplýsingakerfin, fjölmiðlana og pólitíkina. Þeir njósna orðið um hverja okkar hreyfingu. Pólitíkusarnir eru á fullu að bjarga bönkum, en gleyma fólkinu, sem berst í bökkum. – Ástandið minnir um margt á upplausn og úrræðaleysi millistríðsáranna á öldinni sem leið. Þá endaði það í blóðugum byltingum, einræði og að lokum í heimsstyrjöld. Spurningin er, getum við ekkert lært af reynslunni? Ef þú ert að spyrja um Ísland, sérstaklega, þá er ég hrædd um, að svarið við þeirri spurningu sé: nei, því miður. – Er ég of bölsýn? Vonandi. Bjartsýnin er aflvaki breytinganna. Og mannlegu hugviti eru lítil takmörk sett. Kannski er enn von – en klukkan tifar.
Hvernig horfir þú til baka?
Þegar ég lít til baka, sé ég allt bjart. Þetta hefur verið skemmtilegt ferðalag, spennandi og viðburðaríkt. Við höfum orðið fyrir þungum höggum í lífinu, já – en ekkert þeirra var jafnþungt og það síðasta – dótturmissirinn. Að missa barnið sitt í blóma lífs er svo óendanlega sárt – við erum svo varnarlaus. Sorgin nístir inn í innstu hjartarætur. Snæfríður stóð okkur mjög nærri. Hennar skarð verður aldrei fyllt.
Hvað gefur þér mesta gleði í lífinu?
Fæðing barns – þetta undur lífsins – er svolítið kraftaverk í hvert skipti. Engin furða, að eftir það snýst lífið um barnið og framtíð þess. Velgengni í starfi er lífsfylling – en ekkert jafnast á við gleðina yfir velgengni barnsins. Eitt fallegasta orð í íslenskri tungu lýsir þessu – barnalán. Ef börnunum vegnar illa, þá veldur það okkur sorg, sem við verðum að bera og verður ekki umflúin. Sama hversu víða ég fer, þá er ég alltaf með hugann hjá börnum mínum og barnabörnum. Hvernig skyldi þeim líða, hvað skyldu þau vera að gera? En hver er sinnar gæfusmiður. Sú kemur tíð, að við verðum að sleppa af þeim hendinni…
Hverju sérðu mest eftir?
Ó, að ég væri orðin aftur ung… Það er eiginlega bara eitt, sem ég sé eftir í lífinu. Að ég skyldi ekki hafa tekið af skarið, þegar tækifærið gafst, endur fyrir löngu. Ég hefði átt að pakka dansskónum, fara úr landi og læra flamengo meðal innfæddra. Ég sé það alveg fyrir mér, hvað ég hefði orðið stórkostleg! Að hika er sama og tapa – ég hikaði. – Það er ekkert tjáningarform, sem nær betur að lýsa hamslausum ástríðum, þóttafullum hreyfingum og líkamlegum þokka en þessi dans hinna fátæku, smáðu og hrjáðu. – Ég lét loksins verða af því í fyrra að fara á námskeið hér í nágrannaþorpinu. Kennarinn var sígaunastelpa, sem hafði dansað frá því hún var barn. Við æfðum fyrir fram stóran spegil, og það var leikið undir á gítar. Mjúkur, þeldökkur líkami stúlkunnar iðaði við minnsta áslátt gítarleikarans, sem var líka sígauni. Ég var komin í annan heim, þar sem þráin eftir fegurðinni ríkti ein, lostinn, hamingjan og sorgin. Ég naut þess í botn að dansa – finna líkamann smám saman taka undir með tónlistinni. En – ég varð að sætta mig við, að minn tími væri kominn – og farinn. Qué lástima (hvílík synd)!
Hverjar eru fyrirmyndirnar í lífi þínu?
Ég nefndi konurnar þrjár í lífi mínu, móður, systur og dóttur. Allar miklir persónuleikar, úrræðagóðar og öðrum stoð og stytta í lífinu. Jafnvel Snæfríður, ung að árum, var oft mín fyrirmynd. Ég leitaði til hennar um svör við áleitnum spurningum. – En líklega var það amma Margrét, sem átti mestan þátt í að móta mig til framtíðar. Ég leitaði til hennar sem barn. Hennar helsta aðalsmerki var æðruleysið. Mig langaði að líkjast henni. Hún hataði engan, fyrirgaf allt. Hún brosti ekki oft, hún amma, enda hafði hún mikla sorg að bera. Synir hennar tveir, ungir menn, fullir atorku og elju, fórust í Halaveðrinu mikla árið 1925. Ég spurði hana einu sinni: Varstu hamingjusöm, amma? Hún bara leit á mig, undrandi. Ég held hún hafi ekki skilið spurninguna. Hugtakið hamingja var ekki til í hennar orðabók. Líf hennar snerist um það að lifa af frá degi til dags, hafa „oní sig og á“, fyrir sig og sína. Það var ekkert sjálfgefið á hennar leið í gegnum lífið. Hún var göfug kona – ógleymanleg þeim, sem henni kynntust.
Hvað er þér mikilvægast í lífinu?
Ástin. Það mikilvægasta í lífinu er að vera svo lánsöm að finna til, elska, vera elskuð og njóta ásta. Það er það sem gefur lífinu gildi umfram allt annað. Í þessum skilningi hefur gæfan verið mér gjafmild.
Salobrena (Granada), júlí, 2013