Lorca – listaskáldið spænska – er undrabarn ljóðsins. Innsæi hans í mannlegt eðli er gegnumlýsandi. Ljóðmál hans er töfraveröld út af fyrir sig. Framan af stuttum ferli varð þetta innblásna ljóðskáld beinlínis til trafala fyrir leikritasmiðinn, Lorca. Hann var hrópaður niður á fyrstu sýningu, sem hann efndi til, kornungur, í Madrid. Og ef þeir hefðu myrt hann þrítugan, lægi hann sennilega enn, gleymdur og grafinn, í óþekktri fjöldagröf. En á seinasta áratug ævinnar fékk náðargáfan að blómstra – allt gekk upp. Hugmyndaauðgin var ótæmandi. Ljóðaperlurnar glitruðu eins og flugeldasýning á næturhimni. Sviðsverkin – þessi voldugu prósaljóð um mennska tilveru – gegnumlýstu tíðarandann.
Þegar þeir myrtu hann – þrjátíu og átta ára að aldri – og husluðu í ómerktri gröf við vegkantinn, hafði hann náð því að reisa sér óforgengilegan minnisvarða í verkum sínum. Hann var uppreisnarmaður í lífinu. Dauður og grafinn rís hann upp, endurfæddur, og storkar fjendum sínum út yfir gröf og dauða. Hús Bernhörðu Alba, sem Borgarleikhúsið sýnir undir leikstjórn Kristínar Jóhannesdóttur, er seinasta meistaraverk ofurhugans.
Upp úr hvaða jarðvegi er Lorca sprotinn? Þorpið, þar sem hann sleit barnsskónum, dregur nafn sitt af brunni kúasmalanna (Fuente de Vaqueros), snautlegur útnári á hásléttunni vestan við Granada. Faðir hans var ríkur landeigandi og tilheyrði því hinu þríeina drottnunarvaldi spænsku yfirstéttarinnar: Landeigendum, her og kirkju. Þrælarnir, sem unnu á ökrunum, skópu auðinn. Herinn sá um að halda lýðnum niðri og verja forréttindastéttina. Kirkjan ól upp lýðinn í guðsótta og góðum siðum (í bókstaflegum skilningi, því að hún – en ekki ríkið – rak skólana og sá um að viðhalda ólæsi hinna snauðu). Hjálpræðið átti að felast í auðsveipni við valdið.
Kirkjan boðaði, að þeir sem sættu sig við hlutskipti sitt, eymdina og volæðið í hinum jarðneska táradal, fengju umbun hjá guði á himnum – hallelúja. Þessi bernska trú varð athvarf og sáluhjálp kvennanna. Þær fylltu kirkjurnar, meðan karlarnir sátu að sumbli á kránum. En kúgunin gekk yfir bæði kyn. Landeigendur héldu iðulega úti sjálfir vopnuðum óaldarflokkum, sem börðu þrælana til hlýðni. Þegar hungrið svarf að og hinir landlausu risu upp, kom herinn til bjargar. Kirkjan blessaði síðan ofbeldið í nafni guðs.
Stéttkipt þjóðfélag
Þetta er arfleifð skáldsins – jarðvegurinn sem hann er sprottinn upp úr. Sem sonur hins ríka landeiganda var þess vænst, að hann héldi uppi merki ættarinnar, lærði lög (sem hann reyndi), gengi í þjónustu valdsins og hjálpaði til við að viðhalda óbreyttu ástandi. En hann reyndist snemma óstýrilátur og með sterka réttlætiskennd. Börn berfætlinganna urðu vinir hans og skjólstæðingar. Hann varð uppnuminn af lífsreynslusögum þeirra og tungutaki. Hann heillaðist af tónlist sígaunanna, sem ferðuðust úr einum stað í annan, með gítarinn sér til halds og trausts. Hann ætlaði að verða tónskáld, eins og þeir, þegar hann yrði stór. Brjótast út úr viðjum fortíðar og hefða – verða frjáls.
Það fór að vísu á annan veg. Engu að síður er það ljóðskáldinu Lorca – og vini hans, Manuel de Falla – að þakka, að flamenco, tónlist alþýðunnar, hefur öðlast nýjan sess í hugum og hjörtum Andalúsíubúa – og reyndar um allan heim. Þeir félagar grófu upp gömul og gleymd munnmælaljóð, skipulögðu tónleika, kölluðu til söngvara, hljóðfæraleikara og dansara, og ferðuðust vítt og breitt um landið. Það varð vakning. Grasrótarmenningin óx eins og ólífutréð upp úr þurrum jarðveginum – og bar ávöxt. Tónlistin gaf erfiðisvinnumanninum frelsi, virðingu og sjálfstraust. Hann braut af sér hlekki kúgunarinnar.
Hús Bernhörðu Alba er táknmynd fyrir þetta grimmilega stéttskipta þjóðfélag, sem Lorca elst upp í. Höll landeigandans er virki yfirstéttar, sem er umsetið öreigalýð, sem þarf að halda niðri með valdi. Á ytra borði er allt slétt og fellt. Sýndarmennskan ræður lögum og lofum. Þótt siðavendni rétttrúnaðarins ætli allt að kæfa hið innra, ber að láta eins og allt sé með kyrrum kjörum. Afneitun raunveruleikans birtist sem hræsni, helgislepja, sýndarmennska. Lögmálið er þöggun. „Þögn“ – hrópar Bernharða yfir salinn í lokin.
Femínísk nornakviða
Hvernig á að koma þessu verki til skila við íslenska áhorfendur? Þótt við eigum að heita Lútherstrúar að nafninu til, erum við löngu gengin af trúnni. Kirkjan er bara partur af félagsmálastofnun ríkisins. Og þótt við förum með faðirvorið við útförina, er það bara ritual. Trúarhitinn er kulnaður. Hverra kosta er þá völ? Einn er sá að halda sig við texta skáldsins og afhjúpun hans á hræsni hins heittrúaða spænska umhverfis. Annar er sá að þrengja sviðið og láta verkið eingöngu snúast um undirokun konunnar af völdum feðraveldisins – karlmannsins. Þetta er sú leið sem leikstjórinn velur. Og reynir síðan að færa verkið nær samtímanum, með því að tefla fram femínískum baráttukonum gegn rétttrúnaði Múhameðs og rétttrúnaðarkirkju hinnar hefðbundnu rússnesku harðstjórnar.
Kristín gengur meira að segja svo langt að karlkenna húsfreyjuna sjálfa. Í sjónvarpinu í vikunni útskýrði hún þessa ákvörðun sína með því, „að engin íslensk leikkona gæti leikið hana; þær hefðu ekki í sér slíka illsku“. Mikil er trú þín, kona! Konur búa ekki yfir minni illsku en karlar, það leyfi ég mér að fullyrða. Þær kunna bara að fela hana, ljúfar á yfirborðinu en heiftræknar og lymskufullar undir niðri. Er ekki oft flagð undir fögru skinni? Þannig konu hefði ég séð fyrir mér í hlutverki Bernhörðu. Með því að karlgera Bernhörðu, breytir hún verkinu í eins konar últrafemíníska nornakviðu. Karlkynið er óvinurinn. Karlmaðurinn situr um virkið utan dyra og ógnar tilvist þess. Ekki beint það sem Lorca lá á hjarta.
Þversögnin felst líka í því, að í einangrun sinni innan virkismúra þrá allar þessar konur ekkert heitara en að verða umluknar karlmannsörmum! Áherslan er á kynsvelti og kynóra. Reðurtáknið birtist í upphafi leiks, graðfolinn hamast utan dyra, þannig að bylmingshögg hans vekja kvenfólkinu nístandi sæluhroll.
Ástsýki systranna sundrar samstöðu þeirra, kúgunin og kvalræðið gerir þær ljótar, vekja upp afbrýði og innbyrðis hatur – þrátt fyrir áminningar Símonu de Beauvoir um samstöðu kvenna. (Hún dettur óvænt inn í sýninguna nýkomin af Select á Montparnasse, hafði m.a.s.gleymt að slökkva á sígarettunni) „Stöndum saman, systur“, hrópar hún. (Það var rétt hjá vinnukonunni, maður hélt, að þarna væri lifandi komin Eva Peron. En hvernig átti líka vinnukonan að þekkja Símonu, ólæs og óskrifandi?).
„Stöndum saman, systur“! Já, erum við ekki að reyna það? En hvað er að gerast í hinum samhenta systrahópi í húsi Bernhörðu Alba? Innst inni elska systurnar kannski hver aðra, en illskan nær æ sterkari tökum á þeim, eftir því sem löngunin til að láta serða sig verður sterkari. Þær breytast í einstaklinga, sem hver hugsar um sig og ekkert annað kemst að. Og það brýst út stríð, systraþelið kulnar og samstaðan frýs. Kærleikur umhverfist í hatur. Þannig er það bara í lífinu. Við upplifum það í sjálfum okkur, ýmist sem fórnarlömb eða gerendur.
Systurnar eru í raun reiðubúnar að taka örlögum sínum, það er bara þessi ósýnilegi elskhugi elstu systurinnar sem kemur þeim úr jafnvægi – og vekur með þeim óræðar kenndir. Yngsta systirin, Adela (hinn frjálsi andi) er í rauninni sú eina, sem er reiðubúin að brjótast út úr hýðinu og óhlýðnast móður sinni. Og geldur þess grimmilega. Kannski sér Lorca sig í henni.
Pussy Riot
Pussy Riot, Guerilla girls og fórnarlömb talíbana í Afganistan og víðar í Arabaheiminum –jú, jú. Syrgjandi konur í búrkum (Vox feminae og Stúlknakór Reykjavíkur) vekja upp minningar um arabíska vorið, sem spratt út, en fölnaði og dó í hélu á haustdögum. Hvað varð um óvininn, hvað varð um samstöðuna?
Goðsögninni um mátt miðlanna (farsímans og bloggheima) til að virkja og samhæfa andófið gegn kúgunarvaldinu er lyft í hæðir undir lokin, þar sem hinn svartkuflaði kvennakór réttir upp blikkandi farsíma sem fyrirboða og tákn frelsisins.
Betra ef satt væri.
Sviðsmyndin er massív umgjörð um þessi innri átök og nýtir rýmið í botn. Grátt og kalt álið er eins og rammgerðir fangelsisveggir, sem varna hinum undirokuðu og innilokuðu útgöngu. Dyr opnast fyrir minnstu handahreyfingu valdsins, en skella í lás með þungum dynk, þegar þjáningarsysturnar freista útgöngu. Innan múranna ríkir þrúgandi andrúmsloft. Það vekur hinum ófullnægðu konum innilokunarkennd í ofurhita spænska sumarsins. Senan með tjaldið, sem birtist upphaflega sem spennitreyja til að halda aftur af brókarsótt ömmunnar, breytist síðan í vef, þar sem konurnar bródera örlög sín úr eigin hári. Í stað þess að spinna mönnum örlög, vefa þær sína eigin spennitreyju eða líkklæði.
Og spuninn heldur áfram í tónlistinni, bjartri og ljóðrænni, ógnvekjandi á köflum og lýsingunni, sem minnir okkur á, að án ljóss og skugga á réttum stöðum og augnablikum er leikverk eins og nakin kona í kulda og trekki. Búningarnir tímalausir, rétt eins og tónlistin og féllu vel að hugarheimi Krístínar. Söngurinn brást ekki, fagur og hreinn undir stjórn Margrétar Pálma.
Ég hef alltaf séð Kristínu fyrir mér sem skáldið í hópi kvikmyndagerðarfólks. Enginn er betur til þess fallinn að blása lífi í texta Garcia Lorca. Hún hefur næmt auga fyrir myndlist, fögrum litum og formi. Og þegar hún safnar um sig hópi ungra skapandi, listrænna og íðilfagurra listkvenda, þá hlýtur að koma eitthvað ægifagurt út úr því, sem veitir okkur gleði. Að öllu þessu sögðu má ráða, að Hús Bernhörðu Alba er magnað leikhúsverk, ólgandi af lífi og ljúfsárum skáldskap. Þetta er glæsileg sýning – afrek við fátæklegar aðstæður í lítlu leikhúsi.