DÝRSLEGT EÐA ÓMENNSKT? REFURINN

Eftir Dawn King í þýðingu Jóns Atla Jónassonar

Leikstjórn: Vignir Þór Valþórsson
Leikmynd og búningar: Systa Björnsdóttir
Lýsing: Garðar Borgþórsson/Björn Bergsteinn Guðmundsson
Tónlist: Frank Hall
Hljóðmynd: Baldvin Þór Magnússon
Leikgervi: Margrét Benediktsdóttir
Aðstoðarleikstjóri: Pétur Ármannsson

“Við vildum gleðja fólkið meira!” Þessi orð Eiðs Smára eftir jafnteflisleik Íslendinga við Króata á föstudagskvöldið komu mér í hug, þegar ég stóð upp að lokinni sýningu í Borgarleikhúsinu kvöldið eftir. Ég veit ekki alveg af hverju, en í báðum tilvikum var um ungt og hæfileikaríkt fólk að ræða, fólk,sem lifir og hrærist í sinni veröld, hvort sem það er listum eða íþróttum, og á þann draum heitastan að gleðja – gefa, miðla. Það er í rauninni ekki svo langt þarna á milli. Báðir hópar þurfa að leggja allt í sölurnar til að ná settu marki, temja sér aga, bæði til sálar og líkama. Bæði íþróttamennirnir á Laugardalsvellinum og listafólkið í Borgarleikhúsinu stóðu sig frábærlega. Allir voru glaðir og fögnuðu ákaft í lokin. En samt var eitthvað, sem vantaði upp á. Það vantaði mörkin á föstudagskvöldið. En hvað vantaði á laugardagskvöldið? Ég er ekki alveg með það á hreinu – kannski bara af því að mér var hálfgerður beygur í brjósti, þegar ég hélt aftur út í náttmyrkrið að sýningu lokinni. Hrollurinn sat eftir, án þess að ég áttaði mig á því samstundis, hvað var að. Fyrir hvað stóð refurinn?

Kjarnahugmynd Dawn King er nefnilega ekkert léttmeti. Hún er grafalvarlegt mál – tilhneiging valdsins til að stimpla tiltekinn hóp fólks sem sökudólga fyrir öllu því, sem aflaga fer í mannfélaginu. Þetta er hvorki meira né minna en leiðarstef ógæfunnar – harmleiksins – sem öld öfganna, tuttugasta öldin, snerist um.

Við erum að tala um gyðingaofsóknir nazista, við erum að tala um ofsóknir pyntingarmeistara Stalíns gegn Kúlökkum (sjálfseignarbændum ) og undir lokin öllum, sem hinn blóðþyrsti fjöldamorðingi, vildi útrýma í ótta sínum og æði. Við erum að tala um “Menningarbyltingu” Maós. – Fjöldagrafirnar (að meðtaldri hungursneyðinni) geyma tugi milljóna líka, sem voru husluð þar, ómerkt. Með Pol Pot (franskskóluðum menntamanni) nálgaðist æðið þjóðarmorð.

Sumir trúa því, að svona nokkuð geti aðeins gerst í alræðisríkjum fasista og kommúnista. Það stenst hins vegar ekki, þegar að er gáð. Hvað með sögu Bandaríkjanna, útrýmingu frumbyggja og þrælahaldið? Hvað með njósnir þeirra í nútímanum, jafnt um ætlaða óvini sem nánustu bandamenn? Enginn er óhultur.

Og Evrópumönnum væri hollt að líta í eigin barm. Evrópsku nýlenduveldin hafa skilið eftir sig blóði drifna slóð vítt og breitt um veröldina. Belgar voru sérfræðingar í að aflima þrælana, sem þeir þröngvuðu til námavinnslu í leit að demöntum – svo þeir gætu ekki flúið. Bretar eru fyrst núna að biðjast afsökunar á fjöldaaftökum án dóms og laga og pyntingum gegn uppreisnarmönnum í Keníu og víðar um Afríku. Ódæðisverk þeirra eru ekki gleymd, hvorki á Indlandi né í Kína. Spánverjar eru rétt að byrja að grafa upp fjöldagrafir Francos. Og spænsku nýlenduherrarnir í Mið- og Suður-Ameríku eiga að baki ljóta sögu um grimmd, ofbeldi og ódæðisverk gagnvart varnarlausum innbyggjum. Oft voru þessi ódæðisverk framin “með byssuna í annarri hendi en bíblíuna í hinni”.

Og á okkar dögum er það einatt trúarofstækið, sem kyndir undir eldum haturs og fordóma og elur af sér ofsóknir og kúgun. Goðsögnin um, að þetta “geti ekki gerst hér” – eða að “svona nokkuð gerist ekki í lýðræðisríkjum”, er einmitt – bara goðsögn. Það er að gerast fyrir augunum á okkur. Pólítískir skúrkar blása í glæður þjóðrembunnar og andúð á minnihlutahópum og innflytjendum. Í Evrópu, í Bandaríkjunum, meira að segja í Afríku. Og ekki alltaf að undirlagi valdsins. Oftar en ekki eru þessar ofsóknir stundaðar af öfgahópum í nafni trúarbragða eða kynþáttahyggju, (eins og t.d. í Grikklandi nú), en stjórnvöld reyna af veikum mætti að halda uppi lögum og rétti.

Stundum dugar illt umtal í fjölmiðlum til þess að skapa sambærilegt ástand. Gyðingaofsóknir í Þýskalandi byrjuðu með atvinnubanni (Berufsverbot), útilokun frá þátttöku í mannlegu samfélagi. Í Þýskalandi gengu háskólar ríkisins á undan öðrum í gyðingaofsóknum. Það þarf lítið út af að bera til þess að “dómstóll götunnar” fari sínu fram – eins og nýleg dæmi sanna.

Ef þessar sögulegu staðreyndir eru ekki undirliggjandi við hvert fótmál í framvindu verksins, missir það marks. Ógnin, lífsháskinn, kúgunin, sem vofir yfir okkur mönnunum, verður fyrir vikið að jaðarmáli, sem heyrir undir reglugerðarsetningu landbúnaðarráðuneytisins um smitsjúkdóma. Verkið missir jarðsamband við mannfélagið, þegar við förum að leita að sökudólgi í dýraríkinu. Það getur varla verið meining höfundar. Að vísu hefur komið upp slíkt fár (kúariða í Bretlandi er í fersku minni, þar sem nautgripir voru bornir á eldköstinn í þúsundatali) og minnti á nornaveiðar. En með því að fela glæpinn í dýraríkinu er dregið úr háskanum, sem ofsóknir í krafti fordóma búa mannkyninu. Það er þetta sem afvegaleiðir okkur í sýningunni.

Ég ætla að fara lofsamlegum orðum umgerð verksins – leikmyndina, tónlistina, lýsinguna og gervin. Þar var að verki ungt fólk, en engu að síður með ótrúlega mikla reynslu að baki (sem má lesa um í myndarlegri leikskrá verksins). Maður hefði eiginlega getað látið sér nægja að eyða kvöldinu á þessum gamla bóndabæ, sem hafði greinilega hýst margar kynslóðir og mátti muna sinn fífil fegri. Við gátum bæði farið niður í kjallara, gramsað í gömlu drasli, dáðst að verðlaunabikurum, sem einhver hafði unnið til einhvern tíma, en enginn þorað að henda (maður þekkir það), eða klifrað upp á háaloft og horft á sólarlagið út um örlitla þakglugga. Við gátum jafnvel skynjað, hvað hjónarúmið var ástlaust og kalt, járnrúm með harðan botn og gamlar sængur. Líflaus trén í bakgrunninum, ógnvekjandi í nálægð sinni – eins konar fyrirboði um skelfingu og eymd.

Það eru reyndar tónlistin og lýsingin líka – hvort tveggja magnar upp dulúðina í verkinu og gefur henni líf umfram það sem blasir við augum. Allt tvinnast þetta saman eins og víravirki, listilega gert, en hrollvekjandi. Leikmyndin teygir sig út yfir áhorfendasalinn, þannig að það er engin undankomuleið – við erum þátttakendur í lygavefnum, og erum öll í skotmáli.

Það er greinilegt, að leikendur þekkjast vel, treysta hver öðrum og eru allir af vilja gerðir að koma boðskap verksins til skila. Þeir leika af innlifun og þokka. Framsögn er skýr og áheyrileg, nema þegar þeir tala út í horn eða upp í vegg, sem kemur fyrir nokkrum sinnum. En það má laga. Leikstjóri á lof skilið fyrir gott rennsli, hraða og útsjónarsemi – aldrei dauður punktur. Það verður gaman að fylgjast með honum í framtíðinni.

Þegar leikarar komu fram í leikslok, búnir að varpa af sér gervum, brostu þeir fram í salinn með spurn í augum: tókst okkur að koma boðskapnum til skila? Spurningin ein og sér vekur upp efasemdir. Eða er það bara mér, sem finnst eitthvað vanta? Eiði Smára fannst þeir skulda eitt mark í það minnsta!