Alein í heiminum, þekkjum engan, og enginn þekkir okkur – jú, reyndar er það ekki alveg rétt – allir þekkja manninn minn og heilsa honum með handabandi. Hann er hér að kenna, og ég er ritari del “professore”. Hér verðum við í tvo mánuði, líklega tvo köldustu mánuði ársins.
Íbúðin okkar er lítil en notaleg – og hiti á ofnunum. Þvílíkur munaður eftir Andalúsíu, þar sem við vorum bókstaflega að krókna úr kulda, urðum að safna eldiviði í arininn og sofa í náttfötum undir dúnsæng. Verst var að fara á fætur á morgnana og þurfa að stíga fram á ískalt steingólfið. Þá langaði mig mest til að fara upp í aftur og bíða vorsins undir heitri sænginni.
Þarna suður frá finnst mönnum það óþarfa lúxus að einangra húsin sín. Það er sumar næstum allt árið, hvort eð er, og það er hægt að klæða af sér kuldann. Enda heyrði ég þá aldrei kvarta. Farið bara út, ef ykkur er kalt, sögðu þeir. Og mikið rétt, úti var ekkert kalt – alla vega heitara en inni. Máttur sólarinnar víkur fyrir myrkrinu um þetta leyti árs, og það andar köldum raka um þunna veggi. Samt elska ég Andalúsíu.
Varla hefur sést til sólar hér í Tartu, frá því við komum – samt eru liðnar sex vikur. Skýin hanga yfir borginni lon og don, haggast ekki dag eftir dag. Sólin er þarna einhvers staðar, en okkur er sagt, að hún láti ekki sjá sig fyrr en í maí. Ég sit við voldugt skrifborð undir stórum glugga, og horfi yfir á ráðhúsið, sem er í hjarta borgarinnar og trónir efst á torginu. Það minnir óneitanlega á glæsta fortíð rússneska keisaraveldisins – byggt í nýklassiskum stíl, bleikt í grunninn.
Framan við ráðhúsið er skondin stytta, sem stingur í stúf við klassikina allt um kring. Eins konar afsteypa af ungu fólki að láta vel hvort að öðru – “The kissing students”. Við fyrstu sýn fannst mér þau vera lifandi – alvöru fólk. Þau standa undir regnhlíf – hún á háum hælum – úti í miðjum gosbrunninum og kyssast – eins og þau eigi allan heiminn og heimurinn sé bara til fyrir þau.
Ef þetta er ekki æðruleysi, hvað er það þá? Kannski kaldhæðni? En maður þarf líklega að vera bæði æðrulaus og kaldhæðinn til að lifa af tilraun til þjóðarmorðs. Slík tilraun var gerð á eistnesku þjóðinni – og það ekki fyrir svo mörgum árum (um það leyti sem ég var lítil stelpa í Reykjavík). Þúsundir manna, kvenna og barna, voru fluttir nauðungarflutningi til Síberíu. Þaðan áttu fáir afturkvæmt. Aðeins hinir hraustustu lifðu af.
Fólk er á þönum fram og til baka um torgið, lítur hvorki til hægri né vinstri, dúðað í skósíðar kápur, með húfur, trefla og vettlinga. Allir á leið í háskólann – geri ég ráð fyrir – staðráðnir í að lifa af, þrátt fyrir grimmúðlega fortíð, og hvað svo sem framtíðin kann að bera í skauti sér.
Um þriðjungur íbúa Eistlands eru Rússar. Þeir voru á sínum tíma fluttir inn í stað þeirra þúsunda, sem hurfu í gulagið. Ég heyrði einhvern tíma Lennart Meri, fyrrverandi forseta Eistlands, segja, að rússneski björnin hefði bara fengið sér blund – hann mundi von bráðar vakna aftur. Björninn skyldi þó ekki vera að skríða úr hýði sínu einmitt núna?
Tartu lætur ekki mikið yfir sér, en hún leynir á sér – rétt eins og konurnar, dúðaðar í skósíðar kápur með húfur og vettlinga. Það er ekki fyrr en þú ferð út á götu, kíkir fyrir horn eða oní djúpa, hvelfda kjallara, að borgin fær líf og lit, verður spennandi.
Og það er alveg eins með konurnar. Þær leyna á sér. Nú eru þær sestar við borð með rauðum dúk á vinalegu kaffihúsi. Undan vetrarhúfunni fellur síður haddur, ýmist dökkur eða ljós, eftir því hvort konan er af rússneskum eða eistneskum ættum. Undir þykkri kápunni leynist grannvaxinn líkami, sem er ekki endilega á valdi hinnar alþjóðavæddu tískulínu, sem æðir um heiminn, heldur hefur sinn eigin stíl og fer eftir efnum og aðstæðum. Konur hér minna mjög á finnskar systur sínar, látlausar og aðlaðandi. Ég hef það á tilfinningunni, að þær hafi ráð undir rifi hverju og láti ekki stjórnast svo glatt.
Búðir hafa lagst af í miðbænum (rétt eins og í Reykjavík, allar horfnar í Kaupamaja – Kringluna). Í staðinn eru komnar bjórstofur, jassklúbbar, vínkjallarar og veitingahús. Mér finnst einhvern veginn, að við þurfum að koma við á öllum þessum stöðum – að við megum ekki missa af neinu – en tíminn styttist óðum. Einn er minimaliskur, annar klassiskur, þriðji kitsch og enn einn býður manni að reykja vatnspípu og fara í sauna á eftir. – Nudd fylgir, ef maður er mjög aðframkominn.
Hér í bakgarðinum í húsinu okkar er samt besti staðurinn. Ég veit ekki, hvernig ég á að lýsa honum – kolsvartur með hvítt loft. Á veggjum hanga lostafull málverk í anda Goya. Tónlistin er tælandi, sófarnir munúðarfullir, sessurnar mjúkar og maturinn bráðnar á tungunni eins og hunang og smjer. Það vantar bara, að einhver standi upp og lesi upp úr Ljóðaljóðunum fyrir gestina, sem eru aðallega ástfangnir stúdentar – og svo einn og einn “professor” á vafasömum aldri – eins og við!
Það er erfitt að standa upp úr mjúkum sætum og ganga út í næturkulið. En við erum heppin, þurfum bara að ganga upp stigann, og þá erum við komin heim.
Ég nefndi alla þessa bjórkjallara, sem leynast djúpt í jörðu við hverja götu. Þeir bjóða göngumóðum brjóstbirtu við kertaljós, sem lýsa upp náttmyrkrið. Um daginn rákum við augun í skilti, sem á stóð: “Schram Keller”. Og undir nafninu var mynd af svipsterkum herramanni – svei mér, ef ásýndin minnti ekki á föðurfrændur mína! Staðarhaldarinn staðfesti, að Herr Schram hefði stofnað krána árið 1815 (upp úr Napoleonstríðunum, muniði?) Forfaðir minn kom til Íslands frá Schlesvig-Holstein um þetta sama leyti. Þeir skyldu þá ekki hafa verið náfrændur – þó svo annar héldi í norður en hinn í austur?
Alla vega reyndist staðurinn hafa sín tengsl við Ísland. Hann bauð upp á fimm tegundir af Íslandsbruggi. Þar á meðal flösku, sem á stóð “Einstök – Icelandic White Ale, sérframleiddur á Akureyri”. (Hvers vegna hann er hins vegar fluttur inn af “Pacific Palisades, California, USA”), er mér hulin ráðgáta.
En áður en ég lýk þessu, ætla ég að draga orð mín til baka um suddaveður hér í Tartu. Sólinni tókst að ryðja burt skýjunum, og nú skín hún sem aldrei fyrr. Ég ætla að ganga niður að ánni, setjast þar á bekk og fylgjst með krákunum og dúfunum, sem nú eru í óða önn að para sig fyrir vorið.