Þess vegna fannst okkur vel til fundið að þiggja boð um að mæta á frumsýningu á Fanny og Alexander eftir meistara Bergmann á Litla sviðinu í Borgarleikhúsinu í Tartu, sem var í göngufæri frá íbúðinni okkar.
Í Tartu er reyndar allt í göngufæri, háskólinn, fræðasetur og rannsóknarstofnanir. Og ég tala nú ekki um tónlistarháskólann, sem er í næstu götu og ómþýðan jassklúbb, þaðan steinsnar frá. Við sátum á öðrum bekk fyrir miðju, og ég var fegin, að ég skyldi hafa haft vit á því að klæðast mjúka gráa silkikjólnum, sem ég lét eftir mér að kaupa í Vilnius í fyrra. Rétt eins og heima á Íslandi voru allir í sínu fínasta pússi, en mjög í hófi þó – hvorki glimmer né glamúr. Þannig eru Eistar einhvern veginn, hófstilltir í öllu, berast ekki á.
Leikhúsið var byggt árið sem Fyrri heimstyrjöldin braust út. Nú man enginn lengur, út af hverju það stríð var. Vítt og breitt um Evrópu er verið að minnast þess, að nú eru hundrað ár liðin frá þessari sláturtíð. Það hvarflaði áreiðanlega ekki að þeim, sem vígðu þetta snotra leikhús í eins konar jugendstíl, að fáeinum vikum seinna yrði gervöll Evrópa heltekin af hamslausri sjálfseyðingarhvöt. Fréttirnar frá Úkraínu, sem dynja á eyrum okkar daglega, boða heldur ekki gott. Lærum við aldrei neitt af reynslunni?
Ég hafði einhvern tíma lesið Fanny og Alexander, séð sjónvarpsseríuna og uppfærslu í leikhúsum Reykjavíkur. Söguþráðurinn var því kunnuglegur. Svipmynd af Svíþjóð á fyrri hluta seinustu aldar í barnsminni Ingmars Bergmann. Sagan gerist á sænsku sveitarsetri (herragaard). Yfirstéttin er áhyggjulaus, skemmtanafýkin og býr við allsnægtir. Það er mikið daðrað og drukkið og duflað. Veisluborð svigna undan krásum, og þjónustufólk á þönum að þóknast yfirboðurum sínum. Börnin – Fanny og Alexander – úti um allt, undir borðum og inni á gafli, með ærslum og látum. Þau eru agalaus dekurbörn – frjáls borin.
Smám saman kemur á daginn, að það er ekki allt sem sýnist á herrasetrinu, eins og húsráðendur vilja vera láta. Húsbóndinn hafði komið sér út úr húsi í leikhúsinu og mátti muna sinn fífil fegri. Einn bróðirinn býr við sitt heimilisböl í gervi þýskrar eiginkonu. Hinn, sá yngri – sífull blaðurskjóða og ólátabelgur – læðist til að ríða vinnukonunni uppi á hanabjálka í veislulok. – Hann er reyndar á eftir hverju pilsi, að því er virðist við dágóðar undirtektir. – Þetta eru skrautlegir karakterar, sem njóta gleðinnar, meðan hún endist, en drekkja sorgum sínum bak við birgðar dyr.
Svo knýr dauðinn dyra. Við útförina fær sjálfur biskupinn – vammlaus við fyrstu sýn og strangtrúaður – augastað á ekkjunni. Ekkjan lætur til leiðast og flyst með börnum sínum – Fanny og Alexander – á prestssetrið. Það reynist vera typtunarhús trúarofstækis og siðavendni, þar sem hinn frjálsborni Alexander er kaghýddur til hlýðni við rétttrúnað hræsninnar.
Þarna í Borgarleikhúsi Tartuborgar sá ég allt í einu þetta meistaraverk Bergmanns í alveg nýju ljósi. Leikstjórar falla oftast í þá freistni að gleyma sér í veisluglaumnum og partígleðinni, sem er svo trufluð um stund með óskiljanlegum og óþarfa leiðindum siðapostulanna. Kjarni verksins fer því alveg forgörðum. Sjálfur guðsmaðurinn er bæði grimmur og hatursfullur í eðli sínu og skilur ekki samhengi orða sinna og gjörða. Drengurinn, Alexander, er skynsemisvera og neitar að taka bókstafinn trúanlegan, gagnrýnislaust. Fyrir það ber að refsa honum. En hann neitar að beygja sig. Neitar að hlýða.
Þetta er uppgjör Bergmanns við sína eigin fortíð. Því að ef siðapostulanum hefði tekist að kúga hann til hlýðni, hver hefðu hans örlög orðið í samfélagi, þar sem trúarofstækið og helgislepjan draup af hvers manns vörum? Þá værum við hin fátækari fyrir vikið og hefðum aldrei eignast kvikmyndir á borð við Sjöunda innsiglið, Tystnaden og önnur snilldarverk Bergmanns.
Með frábærum leik allra sem hlut áttu að máli – þar með talið barnanna – var þetta ómennska tukthús hræsninnar afhjúpað á miskunnarlausan og óhugnanlegan hátt. Þetta var eftirminnileg stund – ógleymanlegt teater – sem situr lengi eftir í minningunni.
Gyðingakaupmaðurinn – aldavinar frúarinnar á hefðarsetrinu – sem frelsaði börnin úr prísund hræsninnar, skilaði þessu litla hlutverki með þvílíkum tilþrifum, að betur verður naumast gert. Enda einn af þekktustu leikurum Eista. Sama máli gegndi um frammistöðu allra hinna, hvort heldur þeir voru í aðalhlutverkum, eða í minni hlutverkum, eins og til dæmis sú, sem lék vinnukonuna viðmótsþýðu og skilaði nýju barni í fallvalta veröld aðalssetursins.
Og nú þegar ég er löngu búin að kveðja Tartu og komin á allt annan stað í tilverunni, þá er eins og þetta verk Bergmanns haldi áfram að sækja á mig – eða öllu heldur þessi uppfærsla í borgarleikhúsinu í Tartu. Í fjórar langar klukkustundir sat ég og grét og hló og klappaði saman lófunum í takt við heimamenn, sem allir skildu það sem sagt var á sviðinu. Við skildum ekki orð, en það kom ekki að sök, því að leikararnir notuðu ekki bara orðin til að tjá sig, heldur allan líkamann. Augun, hendurnar, jafnvel fæturna, hver hreyfing talaði til okkar út í salinn, og lýsti ýmist angist, reiði, hatri, ást eða eftirgjöf.
Þetta var eitthvað sem ég hafði aldrei upplifað áður í leikhúsum okkar tíma í Evrópu, en hafði lesið um, þegar ég var leiklistarnemandi við Þjóðleikhúsið forðum daga. Hann hét Kostantín Stanislavski, og var Rússi, auðvitað. Leikhússtjóri við eitt helsta leikhús Moskvu (Moscow Art Theater) á millistríðsárunum og hafði gífurleg áhrif, ekki bara í eigin landi, heldur um allan heim. Í leikhúsinu gilda engin látalæti, sagði hann. Annað hvort gefur þú þig allan í verkefnið, eða ferð heim og kemur aldrei aftur. Þú setur þig í spor þeirrar persónu, sem þú ert að túlka á sviðinu, hugsar eins og hún, ERT hún – eða finnur þér annað starf.
Og þetta kvöld í leikhúsinu í Tartu verður mér ógleymanlegt, vegna þess að ég fann fyrir Stanislavski á eigin skinni. Nú skildi ég betur en nokkru sinni, hvað hann var að fara á sínum tíma. Hann átti að hafa sagt, að hvert kvöld á leiksviðinu væri eins og fyrsta kvöldið: ný upplifun, allsendis ólík upplifun gærdagsins. Vá…, þetta var erfitt, því að maður hafði tilhneiginu til að láta túlkun frumsýningar nægja – endurtaka hana, fela sig á bak við hana, án þess að leggja sig allan fram – byrja upp á nýtt á hverju kvöldi. Stanislavski hefði auðvitað gert slíkan „leikara“ brottrækan. Sjálft orðið kemur upp um hugsunarvillu – þú átt ekki að leika, þú átt að VERA.
Það var gaman að virða fyrir sér frumsýningargesti. Þarna var samankomin menningarelíta háskólabæjarins, í bland við nýríka bisnessmenn og sænska peningamógúla, sem eiga og reka bankakerfið í Eistlandi. Það mátti ekki minna vera en að þeir sponsoreruðu Bergmann, þennan risa í sænsku menningarlífi. Betri fjárfesting er áreiðanlega vandfundin.