Sem ég er að beygja burt undan sólinni og inn í eitt gljúfrið, stendur ekki groddalegur karlmaður, merktur Guardia Civil, við vegkantinn og gefur okkur merki um að nema staðar. – Satt að segja fæ ég alltaf smáhræðslukast, þegar spænska löggan er annars vegar. Og frá því var engin undantekning að þessu sinni, þó svo að ég væri bæði bláedrú, með beltið spennt og glænýtt ökustírteini í töskunni. Maðurinn var merktur Guardia Civil, nota bene – ekki Policia. Þeir eru komnir aftur – falangistarnir – hin sauðtryggu handbendi ógnarstjórnarinnar, sem voru þekkt fyrir algert miskunnarleysi í samskiptum við saklaust fólk.
Nema hvað, ég verð að hlýða, opna gluggann og afhendi lögreglumanninum ökuskírteinið. Hann snýr því á alla kanta, glaðhlakkalegur á svip. Mér stökk ekki bros, því að ég var enn svolítið hrædd – vissi ekki hvort það var bíllinn eða ég, sem þótti grunsamleg – þetta er reyndar bara smákríli, komið til ára sinna, rautt og krambúlerað. Hvað var svona grunsamlegt við ferðir okkar? – Þegar maðurinn er búinn að ganga aftur fyrir bílinn, réttir hann mér skírteinið á ný og gefur okkur leyfi til að halda áfram ferð okkar.
Ég verð allt í einu svo glöð og fyllist þakklæti yfir að sleppa úr greipum Guardia Civil. Set bílinn í gang og segi si svona í leiðinni við manninn, að hann hafi eiginlega næstum verið búinn að hræða úr mér líftóruna – og bæti við, að það sé eitthvað í fari spænsku löggunnar, sem valdi þessum ótta mínum. Og hverju haldið þið, að hann svari? „Hafið þér verið að lesa Garcia Lorca?“ „Nei, ekki nýlega, en ég er mikill aðdáandi Garcia Lorca“, svara ég í sakleysi mínu. „Einmitt, það er þess vegna sem þér eruð hræddar“, segir hann og horfir á mig sigri hrósandi. „Garcia Lorca var nefnilega drepinn, vegna þess að hann dirfðist að gagnrýna okkur í Guardia Civil, frú mín góð“. Ég gapti af undrun – þetta kom úr svo óvæntri átt. Er það þetta sem þeir læra í kvöldskóla Guardia Civil? Augu hans lýstu af óstjórnlegum hroka – eða var það kannski sektarkennd? Ég horfði á hönd hans, sem hélt um skeftið á skammbyssunni í hægri vasa. Eitt augnablik varð ég skelfingu lostin. Var aftur skollið á borgarastríð? Það fór um mig hrollur í geislum sólarinnar, sem var nú komin hátt á loft og lýsti ofan í gljúfrið.
Næsta vor verða einmitt liðin áttatíu ár frá því að Federico Garcia Lorca – eitt mesta skáld allra tíma – lét lífið fyrir atbeina Guardia Civil hér í nágrenninu – Granada. Hann var skotinn ofan í fjöldagröf að næturlagi á afviknum stað eins og hver annar flækingshundur. Lík hans hefur enn ekki fundist, og Spánverjar eru enn að reyna að fyrirgefa sjálfum sér þennan óafturkallanlega glæp – eða að reyna að réttlæta hann, eins og þessi lögga, sem nú sleppti höndinni af byssunni og bandaði okkur frá eins og flækingshundum.
N340 – er í bókum, sem fjalla um spænska borgarastríðið (1936-1939), nefndur „Vegur dauðans“, eða jafnvel „Hinn blóði drifni vegur“. Það var eftir þessum sama vegi, sem þúsundir manna, kvenna og barna, reyndu í örvæntingu að forða sér á flótta undan hatursaðgerðum Francos, minnug orða hans: „Sá sem ekki er með mér, er á móti mér – og því réttdræpur“. Bæði Hitler og Mussolini voru sömu skoðunar, eins og þið munið, og til að sýna velþóknun í verki sendu þeir fjölda herskipa inn á Miðjarðarhafið. Í ársbyrjun 1937, þegar flóttinn náði hámarki, var varpað akkerum hér rétt undan ströndinni og dúndrað sprengjum á mannfjöldann, sem stráféll eins og flugur á heitum vordegi. Reyndar var þetta í febrúar. En tugir þúsunda lágu í valnum, og árum saman var ekki hirt um að safna líkamsleifum hinna föllnu, sem rotnuðu utan vegar, vegfarendum til ama og angurs. Þess vegna þetta nafn „Vegur dauðans“.
En það sem er kannski hræðilegast við þetta allt saman er, að umheimurinn virðist ekki hafa haft hugmynd um, hvað var í gangi hér á suðurodda Evrópu – eða kannski vildi hann ekki vita það. Menn hugsuðu þá eins og nú, útlönd koma mér ekki við, mig ragar ekki um vandamál annarra þjóða. Alla vega var sáralítið gert til að verja spænsku þjóðina, sem stóð svo til varnarlaus gegn hinum volduga óvini.
Áttatíu ár eru liðin, það er ekki langur tími, tvær kynslóðir. Mamma var að vinna í Braunsverslun í Austurstræti á þessum árum. Þar sá pabbi hana fyrst. Svo fóru þau með togara til Þýskalands í brúðkaupsreisu. Hugsið ykkur! Engin vandamál, engar áhyggjur. – Jú, að vísu, tugir þúsunda hugsjónamanna víðs vegar að úr heiminum – þar á meðal nokkrir Íslendingar – gerðust sjálfboðaliðar í Brigadas Internationales til að verja lýðræðið á Spáni. En þeir máttu sín lítils gegn ofurvaldinu, sem voru fasistaríki Evrópu og eirðu engu. Venjulegt fólk, bændur og búalið, börn og gamalmenni, ráfuðu um vegi landsins í leit að skjóli gegn hungri, kulda og ofbeldi. Þjóðin lifði í stöðugum ótta og allsleysi árum saman. Og sá ótti er enn þarna undir niðri – svipaður og sá ótti, sem ég fann smjörþefinn af þennan morgun í gljúfrinu djúpa.
P.s.
Reyndar sá ég í blöðunum daginn eftir, að Guardia Civil hefði gert rassíu í Andalúsíu. Grunur lék á, að einhverjar spænskar konur hefðu þegið eitt þúsund evrur fyrir að giftast hælisleitendum á Spáni. Gat verið, að lögreglumaðurinn hafi haldið, að ég væri spænsk og JB hættulegur maður í leit að hæli?