Á hraðbrautum lífsins

Við vorum á hraðbrautinni á ca. 130 og stefndum á Antwerpen – eða öllu heldur á Gent, sem er á milli Brügge og Antwerpen. Þrjár akreinar. Ég var á miðjunni, þandi litla krýlið – Peugot 206, árgerð 1999 – fram úr trukkum, húsbílum og barnafjölskyldum með attaníhoss. Vinstra megin við mig geystust þýsku bensarnir á 180 til 200. Þeir sáust varla, en hvinurinn af oflætinu hljómaði eins og loftárás. Það var allt á fullu!

Hringir ekki síminn. Nei, Binni frændi – hæ! – Binni frændi býr rétt hjá Ostende í Belgíu. Hann er einn af þeim, sem hafa græna fingur – getur gert við hvað sem er, allt frá saumavélum upp í flugvélar, og hefur haldið heilum flugflotum á lofti vítt og breitt um Evrópu, Ameríku og Afríku.

Hvar eruð þið stödd í tilverunni, elskan? spyr hann.

Á hraðbrautum Evrópu, svara ég – á leið til Hirtshals og heim með Norrænu.

– Jæja, svo að þið eruð bara á heimleið. Það er hitabylgja í Evrópu, Bryndís mín, eins og þú veist – fólk er að deyja úr hita í fréttunum. Ég vona, að þið séuð með góða loftkælingu í bílnum? segir hann í spurnartón.

– Ha, loftkælingu, svara ég, nei, nei, bara með opna glugga – þá gustar svo vel. Það er engin loftkæling í bílnum okkar, Binni minn. Hún er löngu óvirk. –

– Ja hérna, og þið eruð að koma alla leið frá Andalúsíu, ekki satt? Það er engin smá vegalengd! Eru þetta ekki mörg þúsund kílómetrar?

– Æ, ég bara veit það ekki, Binni minn, hraðamælirinn er bilaður. Ég veit eiginlega hvorki, hversu hratt ég fer, né hversu langt ég er búin að aka. Ég reyni bara að halda í við hina.

– Ja hérna , Bryndís mín, ég vona þó, að þú hafir a.m.k. gott leiðsögukerfi í bílnum? –

Leiðsögukerfi, hvað er nú það? Ég er með Jón Baldvin hérna við hliðina á mér. Hann situr með vegakort af Evrópu á hnjánum – gallinn er bara sá, að kortið er síðan 2005. Hann var víst eitthvað að reyna að keyra milli Brüssel og Parísar i den. – Sumir segja, að Evrópa sé úrelt. Ég tek ekki alveg undir það – en vegakortið hans Jón Baldvins er áreiðanlega úrelt. Það hafa orðið svo miklar framfarir síðan 2005. Nýjar hraðbrautir út um allt. –

Þá segir Binni: Æ, Bryndís mín, hvernig ferðu þá að því að rata?

Ég læt bara mitt kvenlega innsæi ráða för. Það hefur gengið ágætlega hingað til! Og vegaskiltin – þau hjálpa. –
————————-

En, Binni minn, ertu þarna enn? Af því þú ert nú flugvélavirki, þá er hérna smávandamál, sem þú gætir kannski reddað. Það er þetta með kælinguna. Þú sagðir rétt áðan, að það væri hitabylgja. Já, já, það eru 36 gráður núna. Og merkilegt nokk, þá er hitamælirnn í bílnum í lagi! Hann er við það að sprengja skalann, sé ég. Við komum við á bensínstöð áðan. Opnuðum húddið, og gufustrókarnir stóðu upp úr vélinni í allar áttir. Við kölluðum á hjálp. Þetta var reyndar í Frakklandi. Bensínafgreiðslumaðurinn var líklega atvinnulaus laganemi frá Sorbonne. Allavega sýndist okkur, að hann hefði aldrei fyrr séð undir húdd á bíl. Jón Baldvin reyndi að útskýra á frönsku þetta með kælikerfið. Við vildum fá kælivökva í hitabylgjunni. JBH sagði laganemanum, að á Íslandi væri alltaf settur frostlögur á vélina fyrir veturinn. Nú þyrfti hins vegar kælilög.

En þá var laganeminn allur á bak og burt og hvergi sjáanlegur.

Hvernig er þetta , Binni minn, af því þú veist nú allt um svona? Eigum við þá bara að hella vatni úr krananum í tankinn? Og meðal annarra orða, hvar á að hella vatninu? Það eru a.m.k. þrír kranastútar undir húddinu, og þetta er allt brennheitt og sjóðandi. Það þorir enginn að koma nálægt þessu. –

Það var djúp þögn á hinum endanum. Það seinasta sem ég heyrði frá Binna frænda var þetta:

guð minn almáttugur, passið þið bara, að það kvikni ekki í bílnum. Og bætti síðan við; ef þið hefðuð nú staðsetningartæki , þá gætuð þið hugsanlega haft upp á mér hér í Ostende, og þá gæti ég áreiðanlega reddað ykkur, áður en allt er orðið um seinan.

Þar með rofnaði sambandið.

Mér leið eins og fjúkandi laufi í ofsavindi, Áður en ég vissi af, vorum við komin á fjögurra akreina hraðbraut á leiðinni til Hamborgar. Þaðan var engin leið að snúa við til að hitta Binna frænda. Við ákváðum því að halda sem leið liggur alla leið til Lübeck, sem er fæðingarstaður forfeðra minna. Þar gerum við okkur vonir um að hitta bifvélavirkja, sem veit eitthvað um kælikerfið.

Bryndís og bíllinn knái

Ég sé það auðvitað núna – 3000 km seinna – að það var óðs manns æði að voga sér út á hinar geðveikislegu hraðbrautir Evrópu á litla krýlinu okkar. – Samt verð nú ég að viðurkenna, að litli Peogot gaf þessum nýju blikkdósum ekkert eftir, þegar á reyndi – þótt enginn væri hraðamælirinn, ekkert kælikerfi og ekkert staðsetningartæki í bílnum – bara JB með úrelt Evrópukort.

P.s. Við lifðum þetta af og erum komin um borð í Norrænu með forngripinn. Við bíðum eftir blásandi byr. Stóð ekki einhvers staðar í Íslendingasögunum, að landnámsmenn hefðu meikað það til Íslands á þremur dægrum? Norræna lofar tveimur sólarhringum.