Kirkjan er ægifögur. Hún er svo stór, að líkneski postulanna tólf í fullri líkamsstærð rúmast öll inni við altarið. Ég er leidd inn kirkjugólfið og vísað til sætis á fremsta bekk, hægra megin. Þar sit ég alein. Annars er hver bekkur í kirkjunni setinn. Hægra megin þrófessorar í fullum skrúða, en vinstra megin venjulegir borgarar, þar á meðal sendiherrar Norðurlanda, og margra Evrópulanda – nema Íslands. Þegar ég leyfi mér að skyggnast yfir ganginn, kem ég auga á nokkra góða vini í hópnum. Ég brosi í laumi og veifa feimnislega. Með tímanum höfum við eignast hér marga vini, ekki bara úr pólitíkinni, heldur líka úr lista- og menningarlífi borgarinnar. Það er gott að vera meðal vina.
Þögnin í kirkjunni bergmálar í hvítmáluðum veggjum, sem hafa staðið af sér misþyrmingu liðinna alda – Stalín breytti kirkjunni í vopnabúr. Síðar, á tímum Bresnevs, þótti hún hentug til viðgerða á vörubílum. Eftir 1991 endurheimti hún sinn fyrri sess – fegurri en nokkru sinni fyrr.
Allt í einu er þögnin rofin. Söngur, sem ég þekki svo vel frá skóladögum, en hef ekki heyrt svo lengi, hljómar í eyrum mér: „Gaudeamus igitur, juvenes dum sumus“! Allir kirkjugestir rísa úr sætum og syngja fullum hálsi. Á svipstundu finnst mér ég vera komin heim, og ég tek ósjálfrátt undir. Þetta minnir mig á æskuárin, þegar enn var kennd latína í máladeild MR. Við sungum þó aldrei nema fyrstu tvö erindin, en hér kunna þeir öll sex – á latínu !
Prófessorar og rektorar, sem sitja uppi við altarið, minna óneitanlega svolítið á stráka og stelpur að leika í skólaleikriti. Þau kunna handritið utan bókar, en hafa líklega aldrei lært að leika – enda er þetta dauðans alvara. Á höfði bera þau „tákn viskunnar“, eins og segir í helgisiðabókinni, ábúðarmiklar húfur í svörtum lit. En það er ekki nóg með, að þau syngi á latínu, heldur mælir rektor eingöngu á latínu – þótt heiðursdoktorinn sé að vísu ávarpaður á alþjóðamáli okkar tíma – ensku.
Heiðursdoktorinn – Doctor Honoris Causa Universitates Vilnensis – er nú kominn í hóp manna eins og Ceslavs Milos, sem er frægastur fyrir bók sína „The Captive Minds“ og Vaclavs Havel, frelsihetjunnar úr Flauelsbyltingunni 1968. Frá upphafi háskólans hafa fimmtíu og þrír einstaklingar hlotið heiðursdoktorsnafnbót, en skólinn var stofnaður árið 1579. Hinn nýkrýndi í þeim hópi flytur stutta ræðu að lokinni athöfn, þakkar fyrir hönd þjóðar sinnar og sjálfs sín, fullur lítillætis og auðmýktar.
Síðan er öllum boðið til móttöku í hliðarsal háskólans, þar sem menn dreypa á víni, faðmast, hlæja eða gráta – fullir þakklætis og virðingar. Hann með fangið fullt af hvítum og rauðum rósum. Það fyrsta sem ég hugsa er „skyldu þær halda höfði all leið heim til Íslands?“ Ég elska rósir.
Ég man það, eins og það hefði gerst í gær. Þetta var um miðja nótt í janúar 1991. Niðamyrkur allt um kring. Og síminn var að hringja. Kunnugleg rödd sagði: „Jón Baldvin, nú er stundin runnin upp, þetta er neyðarkall frá Vilníus“. Þessa rödd átti Vytautas Landsbergis, forseti þjóðþingsins í Litáen. Honum var mikið niðri fyrir. Ég heyrði hvert orð, sem hann sagði. „Rússarnir hafa ákveðið að láta til skarar skríða“. Ég man, að það fór um mig hrollur við tilhugsunina – Rússarnir – til skarar skríða! „Jón Baldvin, ef þú meinar það, sem þú hefur verið að segja okkur til stuðnings, þá komdu strax – stattu með okkur. Nærvera utanríkisráðherra NATO skiptir máli“.
Sumarið áður en þetta gerðist, árið 1990, var haldin fjölþjóðleg ráðstefna (RÖSE – Öryggis- og samvinnustofnun Evrópu) um mannréttindamál í Kaupmannahöfn. Þar voru saman komnir utanríkisráðherrar Evrópuríkja, Bandaríkjanna og Kanada. Meðal gesta voru utanríkisráðherrar Eystrasaltsríkjanna, sem hafði verið boðið sérstaklega sem nýfrjálsum þjóðum. Þegar fulltrúar Sovétríkjanna sáu hvers kyns var, stóðu þeir upp og hótuðu að yfirgefa salinn nema að „þessum mönnum“ yrði vísað út. Þeirra lönd væru hluti af Sovétríkjunum og þess vegna ættu þeir ekkert erindi á þennan fund. Til þess að halda friðinn lúffuðu Danir, gestgjafarnir. Eystrasaltsþjóðum var vísað á dyr. Þar með var eiginlega botninn sleginn úr þessari ráðstefnu um mannréttindi í lok Kalda stríðins.
Það voru mörg hundruð manns í salnum, fulltrúar 37 þjóða, smárra og stórra. Og nú átti að halda áfam, eins og ekkert hefði í skorist. En það fór á annan veg. Þegar kom að utanríkisráðherra Íslands í ræðustóli, lagði hann frá sér fyrirframsamda ræðu og talaði eins og hugurinn bauð – beint frá hjartanu. Hann tók upp vörn fyrir þessi forsmáðu smáríki og fór hörðum orðum um ófyrirgefanlega framkomu stórveldanna. Svokölluð mannréttindi væru greinilega bara orðin tóm og einskis metin, þegar á reyndi – og brotin á þeim, sem síst skyldi. (Upptaka af þessari ræðu er til í danska utanríkisráðuneytinu).
Enginn annar lagði honum lið, né tjáði sig um málið.
En enginn hinna viðstöddu – né þeirra brottreknu – gat heldur gleymt þessu augnabliki í sögunni. Þessi atburður í Kaupmannahöfn var eflaust það, sem Landsbergis hafði í huga, þegar hann sagði í símann við Jón Baldvin: Ef þú meinar eitthvað með því… komdu strax. Við væntum hjálpar frá NATO. En þeir koma ekki“.
Þremur dögum seinna vorum við Jón Baldvin enn komin á stjá um miðja nótt. Myrkrið grúfði yfir, og bílstjórinn beið í dyragættinni. Það hefur líklega verið vegna nærveru hans, sem ég kom mér ekki að því að kyssa manninn minn almennilega að skilnaði – heldur bara lauslega á kinnina, rétt eins og hann væri að fara í vinnuna á venjulegum morgni. En þetta var ekkert venjulegur morgunn. Og ég sá eftir þessum kossi – í marga daga.
Mundi ég fá tækifæri til að bæta honum þetta upp, þegar – og ef – hann kæmi aftur?
——————
Í ágúst þetta sama ár var gerð tilraun til stjórnarbyltingar í Moskvu. Allt fór upp í loft. Við munum eftir mynd af glaðhlakkalegum og gleiðfættum Boris Yeltsín uppi á skriðdreka með krepptan hnefa – „ Nú er það ég sem ræð“.
En var það svo? Hvort var það Gorbachev, Yeltsín eða gamla KGB-klíkan, sem fór með völdin þessa viku? Allt var í óvissu. Og nú var um að gera að nota tímann – nýta sér tómarúmið sem hafði skapast. NATO boðaði til skyndifundar í Brüssel. Niðurstaðan af þeim fundi varð sú að bíða og sjá, hverju fram yndi.
Utanríkisráðherra Íslands var ekki á sama máli – og lýsti því yfir í stuttri ræðu á fundinum.
Þegar ég lít til baka, finnst mér eins og ég hafi verið með honum þennan dag í Brüssel og sérstaklega þetta kvöld í Kaupmannahöfn á heimleiðinni. En auðvitað var ég það ekki – nema í huganum. En þetta hefur magnast svo upp í minningunni, að ég kann þetta allt utanbókar. Upplausnarástand í Kreml, pólitískt tómarúm. Nú væri lag – annað hvort að hrökkva eða stökkva.
Og NATO vildi bara sitja hjá – bíða átekta!
Það má eiginlega segja, að utanríkisráðherrann hafi hertekið sendiráð Íslands í Kaupmannahöfn þetta kvöld – og fram á nótt. Hann settist við símann. Sendiherrann vissi ekki, hvaðan á sig stóð veðrið og fór heim í háttinn. Það tók alla nóttina að ná sambandi við hinar hersetnu höfuðborgir, Tallinn, Riga og Vilníus. Þar biðu menn milli vonar og ótta eftir tíðindum frá Moskvu.
Enginn vissi, hver staðan yrði að morgni næsta dags – hver hefði völdin.
Undir morgun höfðu allir utanríkisráðherrar Eystrasaltsríkjanna þegið boð Íslands um að mæta til fundar í Reykjavík innan þriggja daga. Lyklinum var skilað til sendiherra með þakklæti fyrir lánið. Svo var stokkið upp í næstu flugvél og flogið heim.
Ég var heldur ekki viðstödd hina sögulegu athöfn í Höfða þann 25. ágúst – aðeins fjórum dögum eftir skyndifund NATO í Brüssel. Á þessum fundi var með formlegum hætti gengið frá viðurkenningu Íslands á endurreistu fullveldi Eystrasaltsríkjanna. Þegar ég lít til baka, finnst mér það eiginlega alveg óskiljanlegt. Það hvarflar að mér, að enginn hafi kannski áttað sig á mikilvægi þessa fundar – og hvað þessi fundur – eða athöfn – átti eftir að draga langan slóða á eftir sér, breyta miklu í lífi okkar og annarra. Líklegast er þó, að prótókoll ráðuneytisins hafi ráðið, hverjir voru viðstaddir, og að þeir hafi ekki séð ástæðu til að bjóða mér. Hefð er hefð, og álagið var mikið þessa daga.
Ætli ég hafi ekki bara gleymst!
Nema hvað, þegar ég skoða myndir frá athöfninni í Höfða, þá má alveg lesa það úr svip gestanna þriggja – og gestgjafans – að þeir voru mjög hamingjusamir þennan dag. Þeir brostu í gegnum tárin. Langþráðum áfanga var náð. Fangelsismúrarnir voru að hrynja. „Seinni heimsstyrjöldinni var loksins lokið“, eins og Lennart Meri sagði sjálfur að undirskrift lokinni. Seinna varð hann einn okkar allra besti vinur. Þótt Meri væri fámáll og ögn stirðmáll – þessi elska – hafði hann geislandi bros.
Og bros hans er eins og opinberun á þessum myndum.
Oft er ég að því spurð, þegar ég dvelst með Eystrasaltsþjóðum, af hverju Ísland hafi staðið svona þétt að baki þeim á þessum örlagaríku tímum, þegar þær voru að berjast fyrir endurheimtu sjálfstæði sínu í lok Kalda stríðsins. Og ég er líka spurð að því, hvort íslenska þjóðin hafi virkilega stutt utanríkisráðherrann í baráttu sinni fyrir endurheimt sjálfstæðis Eystrasaltsríkja?
Það eru bara örfáir, sem vita, að maðurinn minn á ættir að rekja til Eystrasaltsins. Forfeður hans, sem fóru í víking frá Noregi snemma á tíundu öld, kusu að setjast að í Kúrlandi – en það er landsvæði, sem liggur að hafi á landamærum Lettlands og Litáen – og er ekki til lengur undir sama nafni. Þar bjuggu þeir á æviskeiði 3ja kynslóða, efnuðust og efldust að völdum. Þetta er vitað, eftir að ættfræðistofnun Mormónakirkjunnar færði JBH að gjöf ættartöflu, sem náði einar 34 kynslóðir aftur í tímann. Og ekki ljúga þeir!
Ætli honum hafi ekki bara runnið blóðið til skyldunnar, segi ég!
Það var alla vega eitthvað, sem rak hann áfram. Kannski var það vegna þess, að á unglingsárum taldi hann sig vera marxista og hafði brennandi áhuga á öllu, sem varðaði Sovétríkin og Austur-Evrópu. Hann komst að vísu snemma að raun um, að draumurinn um framtíðarlandið hafði snúist upp í martröð, og örlög Eystrasaltsþjóðanna voru grimmilegri en allra annarra. Ég heyrði hann einhvern tíma segja, að hann hefði verið betur upplýstur um nauðungarvistun þeirra í þjóðafangelsi Stalíns heldur en CIA – og kannski var heilmikið til í því. Og ekki sakaði, að elsti bróðir hans, Arnór, hafði stundað nám, bæði í Moskvu og Varsjá og hafði haldið tengslum við andófsmenn í Sovétríkjunum, Póllandi og víðar.
En hvað með íslensku þjóðina? Fylgdist hún í ofvæni með lífsháska þessara smáþjóða við Eystrasalt árið 1991? Gerðu fjölmiðlar lesendum sínum grein fyrir, hvað var að gerast í þessum nágrannaríkjum okkar? Birtu þeir fréttaskýringar um þau átök, sem áttu sér stað á bak við tjöldin? Upplýstu þeir lesendur sína um, að leiðtogar Vesturveldanna – Bush Sr., Kohl, Mitterand og járnlafðin Thatcher – virtust vera reiðubúin að snúa baki við þessum smáþjóðum – af ótta við, að það kynni að spilla sambúðinni við Sovétríkin?
Þessa örlagaríku daga í janúar 1991, þegar farsímar og tölvur voru enn óþekkt fyrirbæri, heyrði ég ekkert frá manni mínum, frá því hann kvaddi mig með kossi á kinnina um niðdimma nótt og þar til hann sneri til baka – heill á húfi – sjö dögum seinna. Ég vissi, að einhverjir fréttamenn voru í för með honum. Strax fyrsta kvöldið var aðalfréttin í sjónvarpinu sú, að Jón Baldvin hefði tapað skjalatöskunni sinni á leiðinni! Í einum slúðurdálkinum var gefið í skyn, að sennilega hefði JBH „dottið íða“ og þess vegna týnt töskunni sinni. Seinna var sú skýring fundin upp, að líklega hefði KGB stolið þessari umræddu tösku. Hvort tveggja staðleysustafir – tóm vitleysa. Alla vega er taskan enn á sínum stað.
Og svona eftir á að hyggja – var þetta það sem þótti fréttnæmast við þessa örlagaríku ferð?