HARMLEIKUR ALLRA TÍMA

Bryndís Schram skrifar um Medeu eftir gríska leikskáldið Evripídes í þýðingu Hrafnhildar Hagalín sem var frumsýnt í Borgarleikhúsinu þann 13. Janúar, 2018.

Listrænir stjórnendur:

Leikstjóri: Harpa Arnardóttir
Leikmynd og búningar: Filippía I. Elísdóttir
Dramaturg: Hrafnhildur Hagalín
Lýsing: Björn Bergsteiknn Guðmundsson
Tónlist: Valgeir Sigurðsson
Danshöfundur: Lovísa Ósk Gunnarsdóttir
Hljóð: Garðar Borgþórsson
Leikgervi: Filippía Borgþórsdóttir og Margrét Benediktsdóttir Sýningarstjórn: Christofer Astridge

Leikarar:

Kristín Þóra Haraldsdóttir
Hjörtur Jóhann Jónsson
Edda Björg Eyjólfsdóttir
Jóhann Sigurðsson
Arnar Dan Kristjánsson
Lovísa Ósk Gunnarsdóttir
Lydía Katrín Steinarsdóttir
Hilmar Máni Magnússon

Medea er einhver frægasta kvenpersóna grískra fornbókmennta. Leikritið var skrifað næstum fimm hundruð árum fyrir kristburð. Það fjallar um ást og afbrýði, kenndir sem enn þann dag í dag – meira en tvö þúsund árum síðar – eru örlagavaldar í lífi manna. Það fjallar um það, „hvernig funheitar ástríður geta snúist upp í kolsvart hatur“ – svo blint, að konan er reiðubúin að fórna börnum sínum til að ná fram hefndum“. „Þau öfl, sem hér eru að verki, þekkjum við öll. Lítum í eigin barm. Í innsta kjarnanum byltist dýrið, sem hún berst við“.

Medea og Jason, hinn svikuli eiginmaður, höfðu lent í valdaerjum í heimalandinu. Þau voru á flótta, áttu ekkert fast land undir fótum lengur. Kreon, konungur í Korinþu, hafði af örlæti sínu veitt þeim landvistarleyfi. En þau eru ekki fyrr búin að „taka upp úr töskunum“, en Jason svíkur Medeu og leggst með dóttur Kreons. Hyggst gera hana að eiginkonu sinni. Medea er svívirt, niðurlægð. Hatrið nær heljartökum á henni. Hennar fyrsta hugsun er hefnd.

„Mennskan er lögst í dvala“.

En Medea er svo sem ekki öll, þar sem hún er séð. Hún hefur þegar tvö mannslíf á samviskunni. Í baráttunni um völdin í heimalandinu hafði hún orðið bæði bróður sínum og föðurbróður að aldurtila. Hún hafði svikið ætt sína, fjölskyldu og föðurland – lagt allt í sölurnar fyrir frama eiginmannsins. Hún er bæði kaldrifjuð og valdasjúk. Og valdasýkin leiðir einatt til sjálfstortímingar. Og nú, þegar hún hefur sjálf verið svikin í tryggðum og niðurlægð, getur ekkert stöðvað hana. „Hættulega brúðarsæng. Þótt þú sért dásamleg á stundum, er fallið hátt, þegar skýjaborgir þínar hrynja, og þægindin breytast í þjáningu“.

Og Medea þjáist. Hún kvelst og engist. „Ertu núna fyrst að átta þig á, að menn elska sjálfa sig meira en náungann?“ er spurt. „Það er sárt að hugsa um þá ógæfu, sem blasir við börnunum, ég veit ég er að fara að vinna grimmdarverk, en heiftin tekur yfir skynsemina – og það er það hættulegasta af öllu“, svarar hún.

Medea þarf að beita öllum brögðum og sýnir mikla kænsku til að fullkomna grimmdarverkin. Hvernig hún afhjúpar heimsku, trúgirni og einfeldni viðsemjenda sinna, þeirra Kreons, Egeifs og Jasonar, og vefur þeim um fingur sér á ísmeygilegan hátt, sannar, að konur eru engir eftirbátar karla, þegar heift og hefnigirni eiga í hlut. „Reiðin fann sína leið“.

Reyndar er óhætt að kveða fastar að orði um Medeu. Hún er óhagganleg í sínum hefndarhug, svífst einskis og lætur sér hvergi bregða. Þótt karlarnir sýnist miklir á vellli, reynast þeir henni auðveld bráð, þegar á reynir, ístöðulausir og meðfærilegir. Sannast hér enn í hið fornkveðna, að smánuð kona getur orðið lífshættulegt óargadýr.
Uppgjörið milli hjóna í lok sýningar er átakanlegt og helsárt. Medea nær fram hefndum, en “allt er sokkið í hyldjúpt hafið, og framundan eilíft myrkur. Hverju erum við bættari? Hvert höldum við héðan? Hvert höldum við?“

Hin líkamlega nærvera

Ný þýðing Hrafnhildar Hagalín er í einu orði sagt frábær. Allt í senn, auðskiljanleg – jafnvel hversdagsleg – en einföld og hnitmiðuð. Þær Harpa Arnardóttir, sem er leikstjóri sýningarinnar, og hafði að eigin sögn „gengið lengi með þetta verk“ hafa augljóslega legið yfir textanum með það fyrir augum að auðvelda öllum aðgengi (ekki bara sumum) og að láta þýðinguna falla að þeim hugmyndum, sem Harpa hafði þegar fullmótað.

Harpa segist í viðtali leggja áherslu á „sjónræna útfærslu og sterka líkamlega nærveru“ í uppfærslu sinni. Það er einmitt þetta, sem gerir þessa sýningu svo ótrúlega fallega, nærgöngula – jafnvel lostafulla. Það er einhvern veginn eins og Harpa hafi ást á þessu viðfangsefni. Í hennar augum er hvert atriði gjörningur, þar sem alúð er lögð við hverja minnstu hreyfingu – engu má skeika.

Og talandi um gjörning, þá er ég ekki í vafa um, að Filippía Elísdóttir, sem er höfundur leikmyndar og búninga, eigi líka sinn þátt í því að gera þessa sýningu ógleymanlega. Hún hefur þetta listræna sjónarhorn, sem nær að lyfta hinu hversdagslega í æðra veldi. Hin líkamlega nærvera er yfirþyrmandi. Og Björn Bergsteinn, ljósameistarinn, toppar sýninguna með sjónhverfingu ljóss og skugga á réttum stað á réttum tíma.

Samtímaverk – á flótta

Um leið og þú gengur í salinn, opnast nýr heimur, veröld sem var. Ekki ólíkt hefðbundnu grísku leikhúsi, þar sem áhorfendur sitja beggja megin við sviðið, sem nær þvert yfir salinn. Óræðir tónar flögra um loftið. Fortíðin birtist í brotnum súlum og styttum. Kreon konungur situr í öndvegi og bíður örlaga sinna. Við hinn endann eru kirnur og kassar, hafurtask flóttamannanna, sem hefur rekið á framandlegar fjörur. Elskendurnir standa á miðju sviði og láta vel hvort að öðru – Jason og Medea, meðan allt lék í lyndi.

Meðal annarra orða: Undirtónn þessarar sýningar snertir örlög flóttafólks í framandi landi fyrir meira en tveimur árþúsundum. En þetta gerist á sömu slóðum og hælisleitendur samtímans leita ásjár okkar og týna lífi sínu þúsundum saman, nánast fyrir framan augun á okkur, á sjónvarpsskjánum. Annað slagið fær maður það á tilfinninguna, að við séum að upplifa samtímaverk.

Frábær leikur
Einhvern veginn get ég ekki gert upp á milli leikenda í sýningunni. Ég geri ráð fyrir, að Harpa hafi fyrir löngu verið búin að velja, að hún hafi gert það, á meðan hún pældi í verkinu og sá það allt fyrir sér. Valinn maður í hverju rúmi. Það verður varla betur gert. Þrjár konur og þrír karlmenn – og ekki má gleyma börnunum.

Mestu skiptir auðvitað, að Medea rísi undir sínu ofurmennska hlutskipti – sterk og voldug. Og það gerir hún svo sannarlega í meðförum Kristínar Þóru, sem fær þarna frábært tækifæri til að sanna sig á sviðinu sem meiri háttar leikkona. Hún sýnir bæði hörku og mýkt á trúverðugan hátt, sem snertir alla. Það má líka segja um Eddu Björgu í hlutverki hinnar vitru fóstru, sem leysir þar að auki af hólmi hinn sígilda kór grísku tragedíunnar. Edda Björg hefur mjög aðlaðandi nærveru og getur tekist á við hvað sem er.

Þriðja konan, Lovísa Ósk Gunnarsdóttir, segir aldrei orð, en hún bætir það upp með seiðandi dansi og fisléttum líkama, sem hægt er að vöðla saman í ekki neitt og síðan hefja til flugs, svo beri við himin. Bæði hún og Arnar Dan Kristjánsson fullkomnuðu þá hugmynd Hörpu, leikstjórans, að leggja áherslu á hið sjónræna í sýningunni. Þau voru bæði tvö ómissandi hluti af gjörningnum, lyftu honum á æðra svið með útgeislun og fagmennsku.

Þá á ég bara eftir að geta karlanna tveggja, þeirra Kreons og Jasonar. Þegar upp er staðið, þá eru það þeir tveir, sem eru niðurlægðir – ekki Medea. Hún er hin slóttuga kona, sem leggur fyrir þá snörur sínar og hefur allt þeirra ráð í hendi sér. Þeir bíta á agnið, báðir tveir. Og falla loks á eigin bragði.

Jóhann Sigurðsson er margreyndur og á sér langa sögu í leikhúsinu. Kreon er líka konungur til margra ára og telur sig hafa efni á að vera gestrisinn við flóttafólkið. Hann sér þó sæng sína útbreidda, þegar Medea gengur of langt og flækir hann í net sín. Þetta komst allt vel til skila hjá Jóhanni, meira að segja í svipbrigðum andlitsins, án þess hann hreyfði hönd eða fót. Það var næstum eins og hann glotti yfir eigin örlögum. Svo syngur Jóhann svo vel. Annarleg tónlist Valgeirs naut sín vel í meðförum hans.

Að hlaupa í skarðið

En hvað með Hjört Jóhann, sem hljóp í skarðið með svo stuttum fyrirvara? Einhver sagði, að hann hefði lært hlutverkið á einni helgi. En það var ekki að sjá, að hann hefði haft stuttan æfingatíma. Hann leikur sér að Jason, gefur honum óvænt líf. Þessum sjálfsánægða ónytjungi, sem reynist vera bæði sjálfhverfur og eigingjarn úr hófi fram. „…menn elska sjálfa sig meira en náungann“. Jason fangar ekki samúð okkar, en engu að síður hrífst maður að trúverðugum leik Hjartar Jóhanns. Við dáumst að honum, en um leið aumkvumst við yfir hann. Hjörtur Jóhann spannar þetta allt í leik sínum.

Og ekki má gleyma börnum Jasonar og Medeu, þeim Lydíu Katrínu og Hilmari Mána, sem voru á sviðinu allan tímann án þess að detta nokkru sinni út úr rullum sínum. Og það í sviðsverki, sem væntanlega ætti að vera bannað börnum.

Medea fær fullt hús stiga.

P.s. Það er til þess tekið, hve dagskrár Borgarleikhússins eru glæsilegar og vel úr garði gerðar. Þar er ekkert til sparað, viðtöl við aðstandendur sýninga eru verðmætar heimildir, og ljósmyndirnar gefa fyrirheit um ánægjulega kvöldstund.