Commedia dell Arte

Bryndís Schram fjallar um Sýninguna sem klikkarsem var frumsýnd í Borgarleikhúsinu þann 24. mars s.l.
Höfundar: Henry Lewis, Jonathan Sayer og Henry Shields
Þýðandi: Karl Ágúst Úlfsson
Leikstjóri: Halldóra Geirharðsdóttir
Leikmynd og búningar: Helga I.Stefánsdóttir
Lýsing: Páll Ragnarsson
Hljóð: Garðar Borgþórsson
Leikgervi: Helga I. Stefánsdóttir og Margrét Benediktsdóttir
Leikendur:
Bergur Þór Ingólfsson
Davíð Þór Katrínarson
Hilmar Guðjónsson
Kristín Þóra Haraldsdóttir
Birna Rún Eiríksdóttir
Hjörtur Jóhann Jónsson
Katrín Halldóra Sigurðardóttir

Ef þú ert einn af þeim, sem eru stöðugt að velta sér upp úr vandamálum heimsins, eru þungt haldnir af svokölluðum Weltschmerz og kvíða hverjum degi, þá er kannski kominn tími á það að fara í leikhús – ekki í þetta skipti til að harma örlög mannsins, heldur til að hlæja að óförum hans.

Manstu, hvað okkur þótti fyndið, þegar einhver steig á bananahýði og rann á rassinn með skelfilegum afleiðingum? – Hét það ekki Þórðargleði í gamla daga? (Hver var annars þessi Þórður? Það skilur það orð enginn nú til dags, en þetta snerist um að hlakka yfir óförum annarra!) – Eða manstu, hvað okkur þótti Charlie Chaplin fyndinn í þöglu myndunum? Ég tala nú ekki um Buster Keaton, Gög og Gokke eða Marxbræður! Allt voru þetta ódauðlegir snillingar, sem tókst að gera aulafyndni að tærri list – turn low humour into high art!

En til þess að gera aulafyndni að tærri list, þarftu að vera þúsundþjalasmiður. Það er ekki nóg að geta flutt textann, svo allir skilji og meðtaki. Þú þarft að vera hinn fullkomni trúður – buffoon – hafa fyrst og fremst skopskyn, en vera jafnframt allt í senn – fimleikamaður, liðtækur dansari, jafnvel akrobat, búktalari, töframaður, helst hafa unnið í sirkus – og vera með „timing“ fullkomlega á valdi þínu. Ekkert má klikka, annars fer allt í handaskolum. Þá getur þú bara gleymt leiklistinni – farið að vinna á skattstofunni! Þetta heitir Commedia dell Arte – réttnefni – og á sér langa sögu. Aðeins þeir bestu komust að og áunnu sér hylli lýðsins.

Og nú ríður Borgarleikhúsið á vaðið með „Sýningu sem klikkar“, ævintýralegan farsa þriggja leiklistarnemenda frá Edinborg, sem átti í upphafi að að vera stofukrimmi – í anda Agöthu Christie – en endaði sem geggjaður spuni, sem varð lengri og lengri, eftir því sem sýningum fjölgaði og vinsældir jukust. Nú eru þeir félagar á stöðugum þeytingi um allar trissur, ýmist í Ástralíu, Ameríku eða gömlu Evrópu, hirða öll hugsanleg verðlaun, og enginn er jafn hissa og þeir sjálfir, sem fyrir nokkrum árum voru bara atvinnulausir leikarar og áttu ekki bót fyrir rassinn á sér.

Það var laukrétt ákvörðun hjá leikhússtjóra að fela Halldóru Geirharðsdóttur – stjórn á uppfærslu verksins. Hún er ein allra fjölhæfasta gamanleikkona okkar um þessar mundir. Auk þess er hún háðfugl, sem kann vel að meta spott og spé – og hefur sýnt það í verki. (Muniði eftir Ormstungu?)

Hún skilur það, að hér er ekki um að ræða „leikhús fáránleikans“ – théatre absurde – alls ekki, þótt fáranlegt sé. Leikhús fáránleikans er lágvært, ísmeygilegt og undirfurðulegt, læðist með veggjum og kemur manni á óvart. Leikrit þeirra félaga frá Edinborg er þvert á móti djöfulgangur, ærsl og læti. Það er á jaðri sirkusins, líkamslæti – physical comedy.

„Sýningin sem klikkar“ er yfirmáta flókin uppfærsla, sem krefst samstarfs margra aðila – í fyrsta lagi þeirra handverksmanna og snillinga, sem standa kófsveittir baksviðs í myrkrinu, og svo leikendanna í sviðsljósinu, sem treysta þeim fullkomlega í einu og öllu – eiga ekki annarra kosta völ. Ekkert má klikka, þá er voðinn vís. „Timing“ – tímasetning – skiptir höfuðmáli.

Og það samspil tekst fullkomlega – klikkar hvergi – þó svo að það sé klikkað í sjálfu sér!

Það er erfitt að gera upp á milli leikenda, sem eru sjö talsins, fjórir karlmenn og þrjár konur. Öll eru þau komin með töluverða reynslu í leikhúsheiminum þekkt andlit, sem eru komin til að vera – Davíð Þór, að vísu alla leið frá L.A., óþekktur á Íslandi, en lofar góðu. En ég efast um, að nokkurt þeirra hafi nokkru sinni fengið tækifæri til að sýna, hvers þau eru megnug, fyrr en núna í „sýningunni sem klikkar“. Og þau er svo fjári góð, öll með tölu, að það er engu líkara en, að þau hafi verið alin upp í sirkus og kunni allt sem kunna þarf – eru með þetta í blóðinu – hinir fullkomnu trúðar, töframeistarar, grínarar, akróbatar. Öll í kös og hvert öðru fyndnara. „Perfect timing,“ eins og sagt er.

Allt ætlar af göflunum að ganga. Lætin eru svo mikil, að orðin – því miður – eiga það til að týnast í hamaganginum. Veggir hrynja, arinhillur og myndastyttur eru á ferð og flugi, og þakið – gólfið á næstu hæð – er að hruni komið. Leikararnir eru sjálfir reyndar í lífshættu við hvert fótmál í þessari morðgátu. Það er því kannski til of mikils mælst, að þeir vandi framsögnina og komi textanum til skila til áhorfenda, eins og allt sé með felldu.

Var þetta gaman? Já, svo sannarlega, og ég sá ekki betur en, að áhorfendur héldu um magann af hlátri. En það komu samt þau augnablik, að það var eins og fáránleikinnn gengi fram af þeim – að þeim væri ofboðið og hættu að hlæja – en bara í bili.

Ég hló og hló, alla vega – eins og vitlaus manneskja. Gleymdi stað og stund. Gleymdi sút og sorg. Gleymdi öllum vandamálum heimsins.
Og hvað það er gott að geta hlegið. Létt á sér, fundið aftur barnið í sjálfum sér.