-Hvernig var að koma heim?
Bryndís lítur af mér og horfir litla stund þögul á hann Jón sinn, kannski eins og hún sé að bíða eftir því að hann svari fyrst, en hann brosir bara út í annað og þegir. Kannski er þögnin merki til Bryndísar um að tala, samsæri þagnarinnar er óþarft núna. Þau eru ekki lengur sendiherrahjón með þagnarskyldu.
Bryndís hallar sér fram og krossleggur langa píanistafingur, stór hringur áberandi vottur um dýran smekk. Um háls hennar er eins konar skrautkeðja sem fer vel við dökkan kjólinn, andlitið eitt varlegt bros sem síðan hverfur vegna alvöruþunga orðanna. Hér talar fyrrverandi sendiherrafrú Íslands í Bandaríkjunum og Finnlandi.
“Það var mikið áfall að koma heim!”
Jón Baldvin brosir nú stríðnislega út í bæði munnvik og spyr lágt hvort hún hafi nokkuð þurft áfallahjálp.
Við hlæjum og Bryndís kannski mest þegar Jón heldur áfram og spyr hvort hún vilji ekki bara byrja aftur á svarinu!
Hún sendir honum auga sem er á skjön við ástina og byrjar að tala um kúltursjokk – og svo:
“Andrúmsloftið er breytt! Hvernig finnur maður þetta? Ég veit ekki, það er einhvern vegin meiri harka, tillitsleysi, frekja og eigingirni. Minnti mig svolítið óþægilega á Bandaríkin, því ég er búin að vera þrjú yndisleg róleg ár í Finnlandi, þar sem allt er svo stabílt, jafnvel veðrið, og fólkið haggast ekki. Það er svo traust.”
-Þú varst mörg ár húsmóðir á sendiherraheimili í Bandaríkjunum og Finnlandi, hvernig er að vera orðin húsmóðir í Mosfellsbæ?
“Í ritinu Samtíðarmönnum kalla ég mig ráðskonu við sendiráð Íslands í Washington frá 1998,” segir þessi fyrrverandi sendiherrafrú, með glæsilegan og margvíslegan starfsferil. Hún var dansari og leikari við Þjóðleikhúsið, dagskrárgerðarmaður hjá RÚV – sjónvarpi, ritstjóri hjá Frjálsu framtaki, framkvæmdastjóri kvikmyndasjóðs Íslands, gæslukona á Sólheimum, danskennari við Þjóðleikhúsið, blaðakona, kennari, leikkona og leikstjóri og jafnvel skólastjóri.
“Ég setti þetta svona af stríðni vegna þess að þegar þú heyrir orðið sendiherrafrú, hvað sérðu fyrir þér? Einhverja fína konu með póleraðar neglur, sígarettu í munni og shérrý-glas í hendi. Konu sem þarf aldrei að gera neitt nema klæða sig til að mæta í veislur!”
Bryndís hefur áköf hallað sér fram þegar hún talar en réttir nú úr sér og dæsir.
“Mig óraði ekki fyrir hvað þetta er hrikalegt djobb.”
Bryndísi finnst að Bandaríkin séu krefjandi land að því leyti að þar mæðir mikið á maka sendiherrans. Hún keypti sjálf inn fyrir sendiráðið.
“Þetta er þúsund fermetra hús á fjórum hæðum. Það þurfti auðvitað að halda því hreinu, með öll rúm uppábúin, þegar óvænta gesti bar að garði. Ég þurfti að gera fjárhagáætlun því peningar til sendiráðsins eru naumt skamtaðir og ég ætlaði sannarlega að gera eitthvað skemmtilegt þessi ár, nota tækifærið og kynna íslenska menningu, og peningarnir urðu að nægja. Þannig að ég fór og keypti sjálf inn og hafði aðstoðarmann með mér. Það var strákur frá Filipseyjum sem fylgdi húsinu þegar við komum og var ómetanlegur. Og við sáum um þetta allt sjálf, ég og Flaviano.”
-Heldurðu að aðrar sendiherrafrúr hafi gert það sama og þú?
“Ég hef ekki hugmynd um það. Þetta fer allt eftir stærð sendiráða og metnaði þeirra.
Að vísu þurfti ég ekki að umgangast mikið aðrar sendiherrafrúr í Washington. Það eru Bandaríkjamenn sjálfir sem eiga við mann erindi. Maður er ekki fyrr komin til landsins en síminn byrjar að hringja frá leikhúsum, hljómsveitum og óperuhúsum og raddir segjast vera að safna fé fyrir viðkomandi svo að hægt sé að halda áfram að standa undir menningunni. Í Bandaríkjunum er allt rekið af áhugafólki. Ekki ríki eða borgum. Ótrúlegur fjöldi af alls konar nefndum eru að safna peningum og margar nýta sér sendiráðin. Ég var með stórt borðstofuborð þar sem fjórtán manns gátu setið í einu og svo er enn hringt og sníkjurödd sagði kannski: “Mikið værirðu væn frú, ef þú vildir hafa dinner í húsinu þínu fyrir okkur. Hver matargestur borgar þúsund dollara fyrir að fá að sitja til borðs hjá þér og við fáum peninginn í sjóðinn og getum haldið áfram að reka Kennedy Center, eða hvað það nú hét. Ég sá mér leik á borði, að þannig gæti ég kynnst peninga- og valdafólkinu svo að þetta gerði ég iðulega og var orðin ágætis gestgjafi með hótelstjórareynslu, þó ég segi sjálf frá; gæti tekið að mér að reka meðalstórt hótel, held ég bara.”
Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi sendiherra, hefur setið og þagað svo dæmalaust fallega, að það mætti halda að hann væri í transi þegar hann horfir látlaust á Bryndísi sína. Hann hrekkur upp þegar ég spyr hvernig honum fyndist pólitíska kortið á Íslandi líta út.
Hann þegir áfram smástund. Þegar ég læt mig ráma í myndir af honum í viðtölum finnst mér alltaf að hann léti eins og hann hefði nógan tíma áður en hann svaraði. Mættu svo sem fleiri gera.
Svo segir hann.
“Kannski er maðurinn sem fór ekki sá sami og kom og sér þetta dálítið með öðrum augum. Hér áður fyrr, meðan ég var í pólitík og í samstarfi við ýmsa menn, til dæmis annars staðar á Norðurlöndum, þá andmælti ég því alltaf sterklega að Íslendingar væru ameríkaníséraðir. Ég sagði Svíum að líta í eigin barm. Við Dani sagði ég að þeir kölluðu helgarblað Berlinske “Weekend Avisen”! Það gerðum við ekki. Við hefðum varðveitt okkar tungumál betur. Þrátt fyrir nábýlið við Bandaríkjamenn hefði íslensk menning aldrei verið í eins miklum blóma!
Þetta sagði ég þá. Nú verð ég að játa að mér finnst að sumt í okkar þjóðfélagi beri þess merki að við erum að verða meira amerikaníseruð en mér geðjast að. Þegar ég er á leið í bæinn þá keyra fram úr mér amerískir fóðurflutningatrukkar sem eru ætlaðir til flytja fóður á sléttum Ameríku en ausa yfir mig aur á þjóðveginum svo mér er farið að líða eins og ég búi í einhverju amerísku úthverfi. Þessi yndæli dalur, Reykjadalurinn, sem kallast nú Mosfellsbær, hefur í miðju sér Kentucky-Fried Chicken-stað, ameríska myndbandaleigu og eina bensínstöð. Þegar ég kveiki á sjónvarpinu er þar ekkert nema amerískt rusl á myndbandsspólum fyrir utan fréttir. Í Helsinki gátum við valið úr tugum kvikmynda víðsvegar að úr heiminum, ekki síst Evrópskum kvikmyndum. Ég var varla fyrr kominn til landsins þegar samtök atvinnulífsins voru með ráðstefnu, þetta eru dugnaðarstrákar og sagðir vera í stórri útrás en þeir voru með tillögu um að leggja niður íslenskuna, því hún hamlaði eitthvað útrásinni! Hvað þykjast þessi gæjar vera?
-Kitlar það þig að reyna að breyta þessu eitthvað?
Það er merkilegt hvað Jón Baldvin getur setið lengi kyrr, nánast eins og hann sé skorinn út í krossvið, augun svo dæma-laust róleg. Það er hreint ekki eins og hann sé að fara út að borða og síðan í leikhús og klukkan tifar sífellt! Svo dregur hann djúpt andann og svarar.
“Ég hef jafn mikinn áhuga á pólitík og ég hef alltaf haft. Ekki minni.”
Hann dregur ögn seiminn þegar hann heldur áfram.
“Ég get ekkert að því gert að ef mér mislíkar eitthvað vil ég koma mínum skoðunum á framfæri og jafnvel reyna að bæta ástandið. Ég hef hins vegar ekki þann metnað sem ég hafði persónulega til þess að ná einhverjum frama í pólitík. Það er löngu liðið. Ég hef engan áhuga á að setjast á þing eða setjast í einhvern ráðherrastól, eða eins og Kanar segja:” I have been there and done that.” Þannig að það verður bara að koma í ljós.”
-Þú lætur þér nægja að Bryndís kitli þig!
Hann kímir.
“Það er ósköp notalegt.”
-En er ekki verið að hvísla að þér seiðandi orðum um að koma aftur og láta til þín taka?
“Jú, en það er nú ekki allt sem sýnist. Þó að ég hitti fólk á förnum vegi sem segir að mikið sé nú gott að sjá mig aftur og hvort ég ætli ekki í pólitíkina, tek ég það ekki alvarlega.”
-Var erfitt að ganga út úr Alþingishúsinu og gerast sendiherra?
“Ekki erfitt nei, en það var gerbreyting. Í mínu tilviki voru stjórnmál stríð. Það er ekki svo hjá öllum stjórnmálamönnum svo kölluðum. En það var stríð frá morgni til kvölds.”
-Átti það við þig?
Önnur augabrún Jóns Baldvins lyftist í fögnuði.
“Já, já, jájájá! Ég hafði gaman af stríðum.”
Bros.
“Það var tekist á um stór mál. Ég var mjög umdeildur stjórnmálamaður, ég man það. Það eru kanski ekki allir sem muna hvað ég var umdeildur. Að vera sendiherra er nú bara 9 til 5 djobb í samanburði við þau ósköp, þó að það fari talsvert af því starfi fram á kvöldin.”
-En af hverju fórstu í þetta?
“Ég hafði verið formaður í mínum flokki í tólf ár og verið ráðherra í ríkisstjórnum í átta ár. Ég hafði beitt mér fyrir stórum og umdeildum málum með mínum samstarfsmönnum og við komið miklu í verk. Við lögðum raunar grundvöllinn að því nýja Íslandi sem ég var að fárast yfir hérna rétt áðan. Jafnframt háttaði svo til og var raunverulega kominn tími til, að endurskipuleggja vinstrið í íslenskri pólitík. Gamall draumur sem hefur verið með mér alla tíð að jafnaðarmenn eigi að starfa saman í einum flokki.
Mitt pólitíska kapital var að sumu leyti upp urið. Ég sagði að ég hafi verið umdeildur stjórnmálamaður, það voru margir sem lögðu talsverða fæð á mig, ekki síst innan vinstra liðsins, margir sem báru einhver sár eftir viðskipti við mig. Mín niðurstaða var sú að ég gæti best greitt fyrir því sem þyrfti að gerast með því að draga mig í hlé.”
En hvað með draum þinn um stóra jafnaðarmannaflokkinn?
“Til þess að láta drauminn rætast þurfti ég að draga mig í hlé. Það lá ljóst fyrir að stór jafnaðarmannaflokkur mundi í frumbernsku vera nokkuð lengi í stjórnarandstöðu. Ríkisstjórnarsamsteypa Sjálfstæðisflokks og Framsóknar, sem setið hefur við völd frá 1995, var nánast óhjákvæmileg. Hún hefur svo sem ekki gert mikið en það hefur mikið gerst sem hún hefur ekki skipt sér af.”
-Bryndís, varstu sammála þessu, að Jón Baldvin hætti í pólitík og þið færuð út í hið ljúfa líf sendiherrans?
Hún lítur af mér og horfir rólegum augum á mann sinn sem hefur aftur sett sig í þagnarró.
“Það var áfall fyrir mig þegar hann ákvað að hætta sem formaður Alþýðuflokksins. Ég sá eftir Alþýðuflokknum, átti þar líka mína bestu vini. Við vorum eins og ein fjölskylda, þannig að það var eftirsjá í því. Hinsvegar, þegar þetta boð kom um að fara burtu af landinu, þá náttúrlega greip maður það. Mér fannst Halldór Ásgrímsson mjög örlátur maður að bjóða andstæðingi sínum í pólitík að gerast sendiherra í Washington, sem er náttúrlega borg borganna. Ég vissi það strax að ég mundi eiga mjög góða tíma framundan og held að mín bestu ár jafnvel hafi verið eftir að við fórum af landinu.
Ég áttaði mig ekki á því fyrr en ég var komin út hvað ég var undir miklum þrýstingi og pressu hér heima. Þetta var býsna mikið áreiti hér heima, stöðugar árásir og maður þorði varla að opna útvarp eða sjónvarp, maður vissi aldrei hvað kæmi næst.”
Nú er eins og Jón Baldvin vakni og augu hans verða mild þegar hann segir:
“Hún er svo viðkvæm, þessi elska.”
-Segið mér ágætu hjón, þarf þetta að vera svona? Þarf konan að gjalda þess og börnin, að eiginmaðurinn er umdeildur í pólitík?
Bryndís segir ákveðið að annað hvort séu þau saman í þessu eða ekki.
“Maður hleður ekki vegg á milli sín og eiginmannsins.”
-En þú, Bryndís, þú varst af einhverjum ástæðum mun sýnilegri sem eiginkona stjórnmálamanns en nokkur önnur í þeirri stöðu. Sérðu eiginkonu Halldórs Ásgrímssonar einhvers staðar?
“Það var alls ekki meðvitað, nei, alls ekki. Kannski var það því að kenna að ég var þekkt úr sjónvarpinu. Getur verið það, sem vakti áhuga þeirra á mér og hvað ég væri að gera. Ég var auðvitað mjög virkur þátttakandi í þessu öllu með Jóni. Og eflaust hefur það skipt máli, að andstæðingarnir vissu að með því að ráðast á mig , fyndu þeir veikan blett á Jóni Baldvini. ”
-Þú lifðir samt sjálfstæðu lífi sem áberandi fjölmiðlakona.
“Ég get enga skýringu gefið á því af hverju fólk hefur áhuga á sumum en ekki öðrum. En kannski er það eitthvað í fari mínu, sem ögrar fólki. ”
-Aftur að sendiherrahjónunum. Þú skrifaðir pistil, Bryndís, þegar þið voruð að leggja af stað heim frá Finnlandi og nutuð ekki lengur þeirra sérréttinda sem sendiherrastarfinu fylgir. Skrifaðir að þið væruð orðin venjulegt fólk. Var einhver söknuður eftir forréttindunum í þessum skrifum?
“Nei, ég var einmitt fegin að vera laus við þau. Starfi sendiherra fylgir svo mikið form, prjál og umbúðir. Hún hefur oft gripið mig, þessi tilfinning að þetta sé úrelt form, til dæmis að vera með bíl og bílstjóra. Ég var mjög fegin að hafa minn eiginn bíl og geta farið mínar eigin leiðir og enginn væri að skipta sér af mér. Það var ákveðið frelsi að komast úr þessu kerfi. Þetta var kannski gaman svona allra fyrst, skilurðu, en ég er fljót að aðlagast nýjum aðstæðum og finnst yfirleitt allt svo forvitnilegt í kring um mig, sem gerir lífið spennandi.”
Jón Baldvin segir ekkert við þessu. Þegir á sinn talandi hátt.
-Hvað segir fyrrverandi utanríkisráðherra, sem var ráðandi sendiherra út um allt? Ertu sammála konu þinni að það sé úrelt kerfi að hafa sendiherra?
Það kemur falleg háðsbros út í annað.
“Nei, nei, og ég veit ekkert hvort hún meinar þetta sem hún segir um prjálið. Hún er nú prjállaus kona hún Bryndís. Um tíma hélt ég að hún væri tekin við þessu bílstjóradjobbi sjálf, því hún var farin ap keyra bílstjórann heim og aka sjálf.”
-Máttir þú tjá þig um þínar skoðanir án þess að tala við utanríkisráðherra?
“Nei, sendiherra hefur umboð stjórnvalda til að flytja þeirra mál. Sendimaðurinn flytur boð og stefnu stjórnvalda, svo koma túlkunaratriði, hvað má og hvað ekki. Má hann flytja erindi á vegum háskóla eða rannsóknastofnana á vegum svokallaðra hugveita eða heilaveita?
Eitt af því sem ég gerði mikið af í Washington DC var að taka þátt í slíku. Það er mikið af rannsóknarstofnunum í stjórnmálum, varnarmálum og öryggismálum. Það eru til stofnanir um alla skapaða hluti og sumar þeirra mjög hugmyndafræðilega bjagaðar. Nánast trúboðsstofnanir. Af einhverjum ástæðum var eftirspurn eftir því að fá sendiherra til að taka þátt í slíkum málfundum og flytja erindi. Einnig við háskóla og ég gerði það án athugasemda frá stjórnvöldum heima.
-Hvernig var fyrir þig, stjórnmálamann mjög til vinstri, að koma sendiherra til þessa mjög svo hægri sinnaða lands?
“Við höfðum það á orði í gamla daga að þeir íslensku námsmenn sem fóru til Bandaríkjanna hafi orðið kommúnistar. Þeir sem fóru til Sovétríkjanna urðu öfgahægri menn, hægra megin við Solzhenitsyn. Þetta var í stórum dráttum rétt. Fimm ára dvöl okkar í Bandaríkjunum hafði áhrif af þessu tagi. Ég er ekki í nokkrum vafa um að kynnin af bandarísku þjóðfélagi hafa skerpt vinstri sjónarmið mín og dýpkað sannfæringu mína fyrir því að hið evrópska velferðarríki er mikið pólitískt afrek og eftirsóknarvert að viðhalda því.
-Var ekki stundum erfitt að vera kurteis sendiherra og nánast hlutlaus og segja ekki til vamms í veislum eða í einkasamtölum við stjórnmálamenn?
“Nei, það var það nú ekki. Formleg samskipti sendiherra við fulltrúa stjórnvalda í viðtökuríkinu er í Washington fyrst og fremst á sviði utanríkis- og varnarmála. Að nokkru leyti viðskiptamála og þá í samstarfi við viðskiptafulltrúa, sem reyndar situr í New York þó hann tilheyri sendiráðinu. Þriðji hluti starfsins er síðan kynning á landi, þjóð og menningu. Svo ég nefni þér dæmi þá var ég árið 2000, á tvö þúsund ara aldarafmæli Leifs heppna, viðstaddur 270 atburði í Bandaríkjunun, Kanada og Mexíkó.
Við fórum um nærri öll fylki Bandaríkjanna og mörg af fylkjum Kanada. Þetta var auðvitað samræmd tilraun af hálfu Norðurlandanna til að reisa sinn prófíl, draga upp sérstaka mynd af Norðurlöndum, og því sem væri framlag norrænna manna til þjóðardeiglunnar sem Bandaríki Norður-Ameríku er. Þetta tók auðvitað gríðarlegan tíma og atorku og kallaði fyrst og fremst á það að sendiherrann talaði endalaust á samkundum og í stofnunum og háskólum. Hann þurfti auðvitað að vera fær um að tala af einhverri þekkingu um land, þjóð og tungu. Hina heilögu þrenningu.”
Eftir þessa ræðu er eins og Jón Baldvin fari í framhaldstrans. Meðan hann talaði hafði hann setið nærri hreyfingarlaus og rólegur á svip. Honum leiddist samt ekki held ég – og vona.
Bryndís tekur nú við.
“Mér finnst einhver vegin að utanríkisþjónustan hafi ekki ákveðið til hvers sé verið að reka sendiráð. Húsnæði sendiherra eru yfirleitt glæsileg, þar er all til alls…….”
“Er það?”
Það er fyrrverandi sendiherra sem grípur frammí, en Bryndís, fyrrverandi sendiherrafrú, lætur ekki trufla sig. Hún hvíslar einhverri athugasemd að Jóni sem ég á ekki að heyra, enda heyrði ég ekki. Hún heldur svo áfram.
“Til þess að geta nýtt þessa aðstöðu þarf auðvitað peninga. Ég held að öllum sendiráðum sé skorinn svo þröngur stakkur að sendiherrar hafa ekki tök á því að vera stöðugt að kynna land og þjóð, sem manni finnst að hljóti að vera aðal hlutverk sendiráða Íslands um allan heim. Það, að hafa glæsilegt fólk sem hefur tök á að ná til lykilfólks með kynningum sínum á landi og þjóð. Það er ekki nóg af hafa glæsileg húsakynni, ef ekki er hægt að nýta þau. Það væri miklu praktiskara þá að setja sendiherrann í ódýrari íbúð í úthverfi og síðan gæti hann ekið sjálfum sér á vinnustað. Það er óþarfi að hafa svona dýrt húsnæði og óþarfa dekur, ef engir peningar eru til athafna.
Ég hafði matarboð fyrir áhrifamikla Bandaríkjamenn og gerði það að stefnumáli að fá listafólk að heiman til að skemmta gestunum. Ég sagði listafólkinu að ég gæti ekkert borgað því en reddaði ókeypis fari fyrir það og bauð því gistingu hjá okkur og það skemmi fyrir okkur í staðinn. Þetta var fastur liður í veislum okkar.”
-Varstu einskonar menningarfulltrúi Íslands í sendiráðinu?
“Sjálfskipaður,” svarar hún og Jón Baldvin bætir við hreykinn:
“Það er alveg rétt, hún var það. Það eru um 200 sendiráð í Washington og hvert og eitt með menningarfulltrúa eða heilar menningardeildir. Það er gefið út tímarit í borginni sem er nánast eingöngu helgað starfsemi sendiráðanna, enda mikil samkeppni um að koma þjóðunum á framfæri. Ár eftir ár þennan tíma sem við vorum þar var okkar sendiráð meðal þeirra átta sendiráða sem samkvæmt þeirra skoðanakönnunum þótti eftirsóknarverðast að koma í samkvæmi hjá. Það var fyrst og fremst Bryndísi að þakka. En hún hafði ekki mikla peninga til þess.”
Bryndís bætir við að það hefði verið öðruvísi í Finnlandi þar sem borgir og ríki reka alla menningu,
“Þar var því engin eftirspurn eftir fólki eins og mér. Það er erfiðara að komast inn í finnskt samfélag en bandarískt, enda eru Finnar ólíkir Bandaríkjamönnum. Maður kynntist þess vegna kollegum frá öðrum sendiráðum mun meira. Nokkuð sem gerðist ekki í Bandaríkjunum.”
-Jón Baldvin, aðeins að öðru. Hvernig hefðir þú sem utanríkisráðherra, tekið á þeirri ákvörðun Bandaríkjamanna að loka herstöðinni á Keflavíkurflugvelli?
Fyrrum utanríkisráðherra Íslands svara án umhugsunar.
“Ég hef sagt það áður og get endurtekið það við þig alveg hreint og klárt; ég hefði fylgt stefnu Davíðs Oddsonar í því máli. Þegar við héldum upp á 50 ára afmæli varnarsamstarfsins við Bandaríkin árið 2001, var efnt til málþings í Þjóðmenningarhúsi og af því tilefni var ítarlegt viðtal við Davíð Oddsson, forsætisráðherra. Hann sagði eitthvað á þessa leið, – ég man þetta ekki orðrétt: Varnarsamningurinn er grundvöllur þessa samstarfs og kveður á um gagnkvæm réttindi og skuldbindingar. Varnirnar eru ekki bara í þágu Bandaríkjanna heldur líka í þágu Íslands og grannþjóða okkar. Ef Bandaríkjamenn taka einhliða ákvörðun um að hverfa frá skuldbindingum sínum um trúverðugar varnir Íslands að okkar mati og án samráðs við okkur, þá geta þeir bara hypað sig!”
Nú er kominn skemmtilegur svipur á Jón Baldvin og ég er hreint ekki viss um hvort það er gamall ráðherrasvipur. Svo heldur hann áfram:
“Ef Bandaríkjamenn hefðu tilkynnt mér sem forsætisráðherra með símtali frá einhverri undirtyllu að nú væri þessu lokið þá hefði ég sagt það sama og Davíð Oddson: Það er brot á varnarsamningnum. Þetta er einhliða ákvörðun ykkar. Þið hafið sniðgengið samráð við okkur og skuluð bara pakka saman!”
-Hvað viltu segja við núverandi ríkisstjórn sem hefur verið nánast vælandi við þröskuld Bandaríkjaforseta?
“Í guðanna bænum, standið í lappirnar. Hvað eruð þið að biðja um? Þessu er lokið. Þetta voru allt saman sýndarviðræður!
Kjarni málsins er þessi: Það er engin hernaðarleg ógn sem steðjar að Íslandi. Hér var kalt stríð áratugum saman og Sovétríkin skilgreind sem óvinurinn. Og voru það löngum. Þetta var kalt stríð milli Sovétríkjanna og bandamanna þeirra annars vegar og hins vegar lýðræðisríkja á vesturlöndum. NATO var kjarninn í því og við vorum aðilar að NATO. Þessu tímabili er lokið.
Sovétríkin liðu undir lok í árslok 1991. Það var óvissutímabil nokkur ár þar á eftir. Meðal annars þess vegna var það árið 1994, á næst síðasta ári mínu sem utanríkisráðherra, að eftir ítarlegar viðræður við bandarísk stjórnvöld undirrituðum við með vara varnarmálaráðherra Bandaríkjanna sérstaka bókun um framkvæmd varnarsamningsins sem gilti aðeins í tvö ár og forsendan var sú að nú væri óvissuástand. Lýðræðisþróunin í Rússlandi var mjög skammt á veg komin og margir hræddir um að Rússar mundu hverfa aftur til fyrri stjórnarhátta. Þeirri óvissu er löngu löngu lokið og Sovétríkin eru núna náinn bandamaður Bandaríkjanna í því sem þeir skilgreina sem heimsstríð gegn hryðjuverkum.
Það er engin hernaðarleg ógn sem stafar frá neinu þjóðríki gagnvart Íslandi og ekki á okkar svæði í heiminum. Sú ógn sem að okkur steðjar tengist hugsanlegum hryðjuverkum. Hún tengist alþjóðlegri glæpastarfsemi sem stundum er samtvinnuð. Hún snýst um borgarlegar varnir. Fullvalda ríki hlýtur að tryggja öryggi borgaranna. Það er eitt af frumskyldum þess.
Verkefni okkar núna er einfaldlega þetta: Að hve miklu leyti getum við gert það sjálf?
Moldrík þjóð, sjötta ríkasta þjóð í heimi!
Að hve miklu leyti er eðlilegt að óska eftir samstarfi grannþjóða innan Atlantshafsbandalagsins og reyndar Evrópusambandsins?
Við eigum að fara í viðræður við aðrar þjóðir um þetta.
Eystrasaltsríkin hafa verið nefnd sem hliðstæða, en þar þekki ég vel til eftir að hafa verið þar sendiherra síðastliðin þrjú ár. Ég eyddi verulegum hluta af mínum starfstíma þar. Þau hafa ekki eigin flugher. Atlantshafsbandalagið hefur ábyrgst þeim trúverðugar sýnilegar loftvarnir og að þar skipta önnur ríki með sér verkum. Um þetta þarf auðvitað að semja.
En kjarni málsins er þessi: Tvíhliða varnarsamstarfi við Bandaríkin er lokið.”
-Hvernig var fyrir ykkur að fá að kíkja bak við þetta leiksvið sem Bandaríkin hafa fyrir heiminn, en sýna reyndar alltaf sama leikritið sem gæti heitið “Við erum frábært land og hér eru allir jafnir og elska friðinn.” Eru Bandarríkjamenn friðarboðar heimsins?
Bryndís hefur setið með hönd undir kinn og hlustað á hann Jón sinn. Hún setur nú í brýrnar.
“Það er ekki mín tilfinning eftir að hafa verið þar í fimm ár. Það urðu algjör umskipti í öllum viðhorfum þegar Bush tók við af Clinton. Mér hugnaðist það ekki. Bandaríska þjóðin er svo fjölmenn, 300 miljónir manna, og þar er til er allt það besta og allt það versta.”
-Heldurðu að þeir séu hættulegir heimsfriðinum?
Bryndís verður alvarlega á svip
“Í dag held ég að þeir séu það. Í mínum huga eru Bandaríkin mjög harkalegt og eigingjarnt samfélag. Mér verður hugsað til barnanna sem fæðast þar inn í ömurleikann og komast aldrei út úr honum. Því lengur sem ég var í Bandaríkjunum varð ég æ hamingjusamari að tilheyra þó okkar hluta veraldar hérna megin Atlantshafsins. Ég hafði aldrei búist við því að í Bandaríkjunum og Evrópu væri svo mikill munur á viðhorfum fólks til lífsins.”
-Þegar þú varst sendur til Finnlands, Jón, var pískrað um að það væri verið að lækka þig í tign með því að flytja þig frá Bandaríkjunum til Finnlands. Hvað viltu segja um það?
Það klukkar sannfærandi hlátur í Jóni Baldvini.
“Ég kom nokkuð við sögu í sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltsþjóðanna þriggja vegna þess að ég var fyrsti utanríkisráðherra erlendrar þjóðar til að viðurkenna sjálfstæði þeirra formlega. Tvö, þrjú árin þar á undan var ég einn af örfáum mönnum sem var talsmaður sjónarmiða þeirra á alþjóðlegum vettvangi. Ég leit á það sem sérstakan heiður að vera gerður að sendiherra hjá þessum þjóðum og ég var greinilega látinn finna það að þeim þætti það heldur ekki miður.
Sendiráðið hefur aðsetur í Helsinki í Finnlandi, sem er sú Norðurlandaþjóð, að öðrum ólöstuðum, sem ég hef mestar mætur á, svo ég hafði ekki yfir neinu að kvarta. En má ég bæta við það sem hún Bryndís var að segja um Bandaríkin?
Washington DC er höfuðborg heimsins. Hún er 85 prósent svört. Þegar Martin Luther King, leiðtogi jafnréttindabaráttu og frelsishreyfingar blökkumanna í Bandaríkjunum, var myrtur árið 1968 urðu fjöldauppþot í borginni og stór hverfi voru lögð í rúst. Þau eru enn í rúst!
Þú gætir haldið að þú værir staddur í þriðja heims borg. Skólakerfið í Washington er í rúst af því að borgin sjálf hefur engar tekjur, það er massívt atvinnuleysi, hrikaleg eiturlyfjavandamál og eitthvað á milli sjö og áttahundruð morð eru framin þar hverju á ári.
Ævilíkur svarts karlmanns, sem er fæddur þarna og uppalinn, er um þrjátíu ár. Barnafátækt er gríðarleg og þú lærir að þú ert staddur í þjóðfélagi sem er rammstéttskipt. Þarna er undirstétt kynslóð fram af kynslóð sem er ofurseld ofbeldisfullu örbyrgðarþjóðfélagi þar sem skólar eru hreinlega af því taginu að þeir búa þig ekki undir nein störf. Þú ert lokaður inn í vítahring fátæktargildru.
Skólar eru fjármagnaðir af sveitafélögunum. Í úthverfunum eru sum af ríkustu sveitafélögum í Bandaríkjunum og þar geta verið fínir skólar. En þetta er allt stéttskipt þannig að hugmyndir Bandaríkjamanna um sjálfa sig, um land tækifæranna og um það að þetta sé ekki stéttskipt þjóðfélag eru því miður óskaplegar ranghugmyndir. Og það er þarna sem munurinn á Evrópu og Bandaríkjunum er skírastur, nefnilega að það er fínt að vera ríkur í Bandaríkjunum en það er skelfilegt hlutskipti að vera fátækur þar.”
Bryndís hefur öðru hverju kinnkað kolli undir tali Jóns Baldvins og þegar hann þagnar segir hún hraðmælt:
“Það hvarflaði aldrei að mér að við værum eitthvað sett niður, þegar við vorum send til Finnlands. Það var nefnilega stórkostlegt að fara þangað frá Bandaríkjunum til að geta borið saman gerólíka og andstæða þjóðfélagsgerð. Finnar eru ekki líkir okkur og vita lítið um Ísland, en þeim þykir vænt um okkur. Þjóðirnar vita bara ekki nóg hvor um aðra, því miður.”
-Ágætu hjón, hvað nú, þegar þið eruð komin heim. Gætir þú, Bryndís, hugsað þér að fara aftur í sjónvarpið?
“Ég væri alveg til í það, já.
-Jón, Baldvin, reynsla þín er of dýrmæt til að þú látir hana fúlna í endurgerðu heilsárshúsi í Mosó. Þó þið sýnilega elskið hvort annað verður varla nóg fyrir ykkur að sitja og horfa hvort á annað og tala um hvað þetta er búið að vera gott!
“Ég var einhvern tíma spurður að því hvað það væri sem mér þætti mest um vert að gera í lífinu og ég vitnaði í Jóhann Hannesson skólameistara á Laugarvatni sem sagði þýðingarmest að kenna og skrifa. Ég hef verið kennari og við bæði reyndar. Ég skrifa mikið og á eftir að skrifa meira því ég hef ástríðu til þess. Nýlega voru mér boðin tvö djobb við háskóla hérna. Ég er að hugsa. Að vera í samskiptum við ungt fólk eru forréttindi og þannig lærirðu mest um nýjar hugmyndir og breytilegt hugarfar.
Ég kvíði því ekki að við tvö fáum ekki nóg að gera. Spurningin er hvernig við komumst hjá því að gera of mikið.”
Svo hlær Jón dável og Bryndís segir við mig og brosir:
“Gerðu ekki of lítið úr húsinu okkar í Reykjadal. Það er orðið yndislegt og hvergi gefst betra tækifæri til að hugsa og skrifa en einmitt þar, í þessu fallega umhverfi.
Samtali er lokið.
Þegar hjónin ganga á brott stend ég kyrr og horfi um stund á eftir þeim. Glæsilegir fulltrúar þess besta í íslensku samfélagi, tímalaus í aldri, reynsluboltar sem munu án efa láta meira í sér heyra og vonandi hrista upp í okkur hinum, sem höldum að við séum salt jarðar, einstök meðal þjóða, en erum soddan smásálir að við þurfum að kalla alla fræga útlendinga Íslandsvini ef þeir slysast til að stoppa hér yfir helgi og detta í það á einhverjum Reykjavíkurbarnum.
Hvenær ætlum við eiginlega að losna við hugsunarhátt smáborgara?