Það er hins vegar nýtt fyrir mér að sjá níðið klætt í viðhafnarbúning fræðimannsins, eins og reynt er að gera í nýlegri bók eftir Björn Jón Bragason. Þar eru gróusögurnar bornar á borð með vísan í ónafngreinda heimildamenn (sjá skrá yfir heimildamenn aftast í bókinni). Með öðrum orðum: rógberarnir þora ekki að standa við orð sín undir nafni. Einstaklingar, sem þannig koma fram gagnvart öðrum, dæma sig sjálfir. Þeir eru ekki svaraverðir. Samt neyðist maður til að leiðrétta gróusögurnar, svo að saklaust fólk glepjist ekki til að trúa þeim.
Ræðan sem aldrei var haldin
Rógberinn heldur því fram, að sögn „fræðimannsins“, að í kveðjuhófi sínu sem sendiherra Íslands í Washington, hafi JBH borið á borð svo magnaðan óhróður um Bandaríkin, að einhverjum boðsgesta hafi ofboðið og strunsað á dyr í mótmælaskyni. Vegna nafnleyndarinnar er engin leið að vita, hver hefur logið þessu að höfundinum. Þess vegna hlýtur hann að liggja undir grun um að hafa búið þetta til sjálfur, þar sem fyrir þessu er ekki flugufótur. Enda gengur hann, að sögn, svo langt að segja þessa ræðu, sem aldrei var haldin, undirrót versnandi sambúðar Bandaríkjanna við Ísland eftir hrun – þ.e.a.s. mörgum árum eftir að við vorum á bak og burt frá Washington D.C. Fyrr má nú aldeilis fyrr vera!
Ástæðan fyrir því, að við héldum ekki kveðjuhóf haustið 2002, var sú, að kveðjuhófin, sem efnt var til af vinum okkar, voru orðin svo mörg, að dagskráin rúmaði ekki fleiri. Það var sumsé ekkert kveðjuhóf á vegum sendiráðsins. Af sjálfu leiðir, að JBH flutti enga slíka ræðu og þar af leiðir, að enginn gekk út í mótmælaskyni við ekki neitt.
Eitt eftirminnilegasta kveðjuhófið var í boði konu, sem þá var „diplomatic correspondent“ við vikurit, sem einkum lét sig varða sendiherraflóruna í þessari höfuðborg heimsins. Hún var reyndar höfundur að bók: Diplomatic Dance – The New Embassy Life in America. Í þessari bók birti hún m.a. kafla, þar sem hún bar þvílíkt lof á sendiherrahjónin íslensku, að meðfætt lítillæti bannar mér að hafa það eftir (sjá fylgisskjal: Þau fundu Ameríku 500 árum á undan Kolumbusi). Í þessu hófi voru að sönnu haldnar margar ræður. Sú eftirminnilegasta var í bundnu máli og flutt við gítarundirleik. Höfundur og flytjandi var Joe Glazier, þekktur meðal „kántrí“ söngvara sem „the trubador of labor“. Það kom í minn hlut að þakka fyrir okkur. Og það er mér eiður sær, að enginn gekk út undir þeirri ræðu.
Eldabuskan – sjálfboðaliði í þjónustu ríkisins
Ég sagði sögur af þeirri upplifun minni að vera sjálfboðaliði sem eldabuska í þjónustu íslenska ríkisins. Ég var varla fyrr komin til Washington, þegar síminn fór að hringja með beiðni um að fá að tala við ritara sendiherrafrúarinnar. Ég var fljót að bregða mér í viðkomandi gervi. Einn daginn þóttist ég vera ritari frúarinnar, næst var ég fjölmiðlafulltrúi, eða þá kokkur, yfirþjónn – jafnvel fjármálastjóri, ef þörf krafði. Þessi erindi voru öll á sömu lund: að biðja sendiherrafrúna að efna til boðs til styrktar góðum málefnum.
Það kom á daginn, að gestir voru reiðubúnir að borga fúlgur fjár til að komast á gestalistann. Og í hvað fóru peningarnir? Í Kennedy Center, Washington Ballet, Shakespeare Theatre, barnahjálpina, tækjakaup fyrir skólana, o.s.frv. o.s. Frv.. Fjáröflun af þessu tagi gegnir þýðingarmiklu hlutverki í Bandaríkjunum af þeirri ástæðu, að ekki er sjálfgefið, að menning og listir eða velferðarþjónusta sé kostuð af ríkinu – skattgreiðendum. Þessir aðilar þurfa því endalaust að leita til annarra um samskot. Meira að segja sjálf forsetafrúin, Hillary Rodham Clinton, varð að láta sig hafa það að efna til samskota meðal velviljaðra til að endurnýja borðbúnaðinn og rúmdýnurnar í Hvíta húsinu.
Þessi fjáröflun hafði sína kosti. Sendiráðið var komið inn í hringiðu tilverunnar í höfuðborginni. Hjá okkur sátu til borðs áhrifamenn af öllum stigum samfélagsins: stjórnmálamenn, fjölmiðlafólk, fræðimenn, listamenn, auðkýfingar – og jafnvel embættismenn. Þetta reyndist vera skjótvirkasta leiðin til þess að koma Íslandi á framfæri og afla tengsla, sem oftar en ekki komu að góðu gagni, þegar á þurfti að halda síðar meir. Þessi tengsl dugðu t.d. til að kalla menntamálaráðherra Bandaríkjanna, Richard Riley, úr fundarleiðangri í Texas til að koma til fundar við Björn Bjarnason, menntamálaráðherra Íslands, sem var óvænt í heimsókn í Washington.
Smám saman fórum við að nýta þessi boð til að koma íslenskum listamönnum á framfæri. Tónleikahald og listsýningar var orðið fastur liður í starfsemi sendiráðsins. Til þess höfðum við að vísu engar fjárveitingar. Gestir okkar reyndust hins vegar meira en fúsir til að borga hóflegan aðgangseyri, svo að listamenn fengju eitthvað fyrir sinn snúð, fyrir utan frítt húsnæði og fæði hjá mér. Icelandair á þakkir skyldar fyrir að hafa boðið upp á frítt far milli landa fram og til baka.
Sumir halda, að sendiherrar ráði yfir risnu, sem dugi til að skapa nauðsynlegt tengslanet. Í okkar tilviki var þessi upphæð svo lítilfjörleg, að ég spurði eitt sinn fjármálastjóra utanríkisráðuneytisins, hvað ráðuneytið vildi gera við þessa smáaura. „Sem minnst“, var svarið.
Sendiráð stórþjóða vaða auðvitað í peningum og hafa á að skipa sérhæfðum starfskröftum á öllum sviðum. Fulltrúar smáþjóða verða einfaldlega að grípa til annarra ráða. Og það gerðum við.
Ég þori varla að segja það, en ég verð að játa, að það kom mér þægilega á óvart að lesa í glanstímariti, sem helgar sig málum á „Embassy Row“, að samkvæmt könnunum, sem árlega voru gerðar á vegum tímaritsins, hafi sendiráð Íslands á þessum árum verið meðal þeirra „sem þótti eftirsóknarverðast að þiggja boð hjá“. Hvers vegna? „Vegna mennningarlegrar dagskrár, upplýsandi samræðna og – þjóðlegs eldhúss í háum gæðaflokki!“ Þökk sé SH og Sjávarvörudeild SÍS sálugu, sem lögðu til sjávarfangið.
„Popular statesman“
Hvað gera annars sendiherrar? Er nema von, að fólk spyrji. Jú, þeir eru tengiliðir í samskiptum stjórnvalda beggja ríkja. Í tilviki Íslands snerist það þá mest um varnarsamstarfið og viðskipti. En sendiherrann þarf líka að þekkja vel til manna og málefna í stjórnmálum og atvinnulífi gistilandsins og skrifa um það skýrslur. Þetta gerði JBH af mikilli samviskusemi, svo að eftir var tekið. Í Washington D.C. er fjöldinn allur af „hugveitum“ (e. Think Tanks). Þetta eru í bland rannsóknar- og upplýsingastofnanir, en þegar verst gegnir, hreinar áróðursstofnanir. Brookings er gott dæmi um hið fyrrnefnda, Cato og Herritage um hið síðarnefnda. Jón Baldvin tamdi sér að vera virkur þátttakandi í umræðum á vegum þessara stofnana og innan háskólasamfélagsins. Hann var iðulega beðinn um að flytja fyrirlestra eða taka þátt í umræðuhópum um alþjóðamál, ekki síst mál tengd Evrópu.
Sem dæmi má nefna, að eitt sinn efndi George Town University til málþings um efnið: The Trans-Atlantic Relationship: Success, Strain, Prospects. Fyrsta erindið var um: „The European Social Model vs. The American Way – Are the Allies drifting Apart?“ Þótt Ísland væri ekki í Evrópusambandinu, var Jón Baldvin beðinn um að hafa þarna framsögu. Málþingið var fjölsótt og víða til þess vitnað. Daginn eftir fékk Jón Baldvin bréf frá franska sendiherranum, sem hældi honum í hástert og þakkaði frammistöðuna. Franski sendiherrann var náfrændi Valerie Giscard d´Estaing, fyrrverandi forseta Frakklands. Eftir á gantaðist Jón Baldvin með það, að þetta væri í fyrsta skipti, sem franskur aristókrat hefði tekið upp á því að lofsyngja norrænan sócialdemókrat.
Blaðið Washington Times, sem var afar hægrisinnað í sinni pólitík, hélt úti reglulegum dálki um starfsemi sendiráða undir heitinu: „Embassy Row“. Þar segir James Morrison 6. okt. 1999, tæpum tveimur árum eftir komu okkar til Washington, undir fyrirsögninni „Popular Statesman“: „Iceland´s ambassador, Jón Baldvin Hannibalsson, a man of wit and intelligence, has become a popular diplomat on Embassy Row“.
Það gerðist ekki af sjálfu sér. Árið 2000 efndu Norðurlöndin sameiginlega til mikils landkynningarátaks í Bandaríkjunum til að minnast 1000 ára afmælis landafunda norrænna manna í Nýja heiminum. Sendiráðin höfðu náið samstarf sín í milli og við ýmsar stofnanir í Bandaríkjunum. Viðamesta verkefnið var samstarf við Smithsonian safnið um farandsýningu um landkönnun norrænna manna á meginlandi N-Ameríku. Sendiherra Íslands var valinn til þess, f.h. sendiherra Norðurlandaþjóðanna, að flytja erindi um efnið í Cosmos Club. Þetta er víðfrægur félagsskapur vísinda- og fræðimanna, sem taldi þá meðal félaga meira en 80 Nóbelsverðlaunahafa. Alls fór íslenski sendiherrann til fyrirlestrahalds við háskóla og á samkomur fólks af norrænum uppruna í 35 fylkjum Bandaríkjanna á afmælisárinu (sjá fylgisskjal: Skýrsla sendiherrans).
Árið 2000 var haldin sérstök ljósmyndasýning í sögusafni Washingtonborgar, þar sem m.a. voru birtar myndir af þeim einstaklingum, sem hefðu sett svip sinn á borgarlífið í tilefni af árþúsundinu. Meðal þeirra var að finna fjóra sendiherra erlendra ríkja – þ.á.m. sendiherra Íslands.
Er það mjög trúlegt, að sendiherra, sem lætur að sér kveða við að kynna heimaland sitt með þessum hætti, sé talinn vera vargur í véum í samskiptum bandalagsþjóða – mörgum árum síðar?
Óvildarmenn?
Áttum við okkur einhverja sérstaka óvildarmenn í Washington, svo vitað væri? Jú, reyndar, svona eftir á að hyggja. Það fór ekki fram hjá okkur, að það andaði köldu til okkar, þegar á leið, frá nágranna í Kalorama Road. Þessi kona var um skeið sendiherrafrú Bandaríkjanna við Laufásveg í Reykjavík. Það duldist engum, að hún var afar hægri sinnuð í stjórnmálum, svo mjög að hún lagði fæð á fyrrverandi sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, Marshall Brement, sem hún gagnrýndi fyrir að hafa átt of náið samneyti við vinstrimenn.
Reyndar var ekki frítt við, að þessi ágæta kona teldi, að Hvíta húsið í höndum Bills og Hillary Clinton væri nánast í óvinahöndum. Á henni mátti skilja, að demókrötum væri ekki treystandi til að gæta hagsmuna Bandaríkjanna gagnvart kommúnistum.
Hún fann hjá sér ástæðu til að fetta fingur út í gestalista sendiráðsins – taldi að þar væri allt of margt um manninn af óáreiðanlegum vinstrimönnum, listamönnum og fjölmiðla- og fræðimönnum með vafasamar skoðanir.
Skyldi ekkjan við Kalorama Road vera „deep throat“ að baki gróusögum hins óvandaða fræðimanns? Svarið við því fæst ekki, nema sagnfræðingurinn aflétti nafnleyndinni og heimildarmaðurinn – ef hann er einhver – þori að standa við róginn.
Árin okkar í forsvari fyrir sendiráði Íslands í Washinton D.C. voru lærdómsrík. Það er bjart yfir minningum okkar Jóns Baldvins frá þeim tíma. Það er margt aðdáunarvert í fari þeirra Bandaríkjamanna, sem við kynntumst, og við kunnum vel að meta. Hreinskilni, velvild, hispursleysi (sérstaklega að vera laus við snobb og tildur) og það að fara ekki í manngreinarálit, hvort sem við var að eiga fulltrúa smáþjóðar eða stórveldis. Jafnræði með mönnum, án tillits til stéttar eða stöðu, er ríkulegur partur af arfleifð landnemasamfélagsins. Reyndar er ameríski draumurinn fyrst og fremst um það. Mikið vildum við gefa til, að draumurinn geti ræst í verunni – en reynist ekki tálsýn.