,,Ég vona að hún hlífi engum’’ sagði vitur kona þegar hún heyrði af nýjustu bókinni hennar Bryndísar Schram ,,sannleikurinn leitar alltaf upp á yfirborðið – skilar sér þangað á endanum – sama hvað’’.
Ég verð að viðurkenna að ég var sjálf kvíðin fyrir lestrinum, margt í lífi þeirra Bryndísar og Jóns er sveipað ævintýraljóma en þau hafa ekki alltaf notið sannmælis og hin síðari ár hefur keyrt um þverbak; flestir þekkja til hvers er vísað enda hafa fjölmiðlar og aðrir velt sér uppúr flestu sem þessu góða fólki viðkemur. Ég kýs að nefna ekki þau mál sem verið hafa til umræðu undanfarin misseri enda hef ég engar forsendur til að dæma neitt af því sem þar hefur verið rætt. Hins vegar sé ég ekki betur en að almannrómur hafi brugðist við þessum málum með ómanneskjulegum hætti svo sárt er að fylgjast með. Við teljum okkur búa í siðuðu samfélagi en stendur það undir væntingum hvað þessi mál varðar?
Mín fyrsta hugsun hefur alltaf verið sú að allir eigi rétt á því að njóta sannmælis, allir eigi rétt á því að bera hönd fyrir höfuð sér. Ég er búin að þekkja Jón og Bryndísi frá því ég var barn, ég þekki þau ekki af neinu nema góðu og þykir afskaplega vænt um þau bæði sem manneskjur, sem kennara og fyrirmyndir. Það sama á við um fólkið sem ég umgengst og hefur þekkt þau jafn lengi og ég.
Bók Bryndísar kemur víða við en er fyrst og fremst skrifuð í viðleitni til að segja þeirra hlið á málum. Stíllinn er lipur og fræðandi, hún skrifar eins og hún talar, tjáir sig frjálslega, spyr spurninga, efast, hlífir engum og allra síst sjálfri sér. Það er erfitt að átta sig á því hvort lágkúran í pólitísku samfélagi hefur komið af stað meiðandi sögum um þau hjón eins og Bryndís nefnir, eða hvort það er smáborgaraleg öfund í samfélaginu sem þolir ekki þá sem hafa kjark til að fara sínar eigin leiðir. Smáborgarasamfélagið vill beygja allt undir sig svo meðalmennskan þeirra fái ráðið ferðinni. Bryndís og Jón verða ekki hamin af þess konar öflum, en skæruhernaði er erfitt að verjast. Vonandi verður bókin hennar Bryndísar til þess að einhverjir hugsi sig um áður en þeir taka þátt í þeim ljóta hernaði með tilheyrandi dómum og fordómun.