Bryndís Schram hefur sent frá sér bókina Brosað gegnum tárin þar sem hún segir frá lífi sínu, gleði og sorgum. Áður hafa komið út tvær bækur um líf Bryndísar, Ólína Þorvarðardóttir skrifaði þá fyrstu 1998 en fyrir 12 árum kom út bókin Í sól og skugga sem Bryndís skrifaði sjálf. En ef einhver heldur að hér sé borið í bakkafullan læk skal strax tekið fram að svo er ekki, enda hefur hún lifað langa og viðburðaríka ævi sem verður að sjálfsögðu ekki gerð full skil á nokkrum blaðsíðum.
Bryndís brosir gegnum tárin og hefur gaman af ferðalögum og lestri góðra bóka eins og klisjan um fegurðardrottninguna býður. En Bryndís er engin klisja, engin innantóm fegurðardís – ef slík er þá til. Bryndís er stórvel gefin kona, hæfileikarík á ótal sviðum og hefur lifað óvenjulegu og merkilegu lífi, gegnt margs konar störfum, gjarnan í kastljósi fjölmiðla, búið í mörgum ólíkum löndum, ferðast um allan heim og kynnst mörgu af valdamesta fólki veraldar.
Bókin er að ýmsu leyti óvenjuleg minningabók, meðal annars vegna þess að í henni eru engar ljósmyndir sem gjarnan eru uppistaðan í endurminningabókum. Hins vegar dregur Bryndís upp svo ljóslifandi myndir með lipurlega skrifuðum texta að lesandinn hefur einskis að sakna í þeim efnum, heldur sér fyrir sér ótrúlega litríkar og lifandi persónur og sögusviðið sem nær yfir hálfan heiminn í öllum sínum fjölbreytileika. Það var ánægjulegt að geta í þessu Covid-ferðabanni nánast farið í heimsreisu með Bryndísi enda er hún vanur leiðsögumaður, skarpskyggn og athugul. Forvitni Bryndísar og áhugi á fólki og mannlífi er sem rauður þráður í leiðsögninni, hún þekkir sögu og menningu staðanna sem hún heimsækir, veltir fyrir sér kjörum og aðstæðum fólksins sem býr þar, reynir að skilja það og fjallar um það af samúð og virðingu. Sérstaklega eru henni kjör kvenna hugleikin, bæði fyrr og síðar.
Bókin er sett upp í línulegri röð, þannig að í fyrsta hluta hennar rekur Bryndís uppvaxtarár sín og minnist foreldra sinna og samferðamanna allra með mikilli ástúð og væntumþykju. Augljóst er að hún hefur verið lánsöm og heppin með vöggugjafir og aðbúnað í æsku. Næsti kafli fjallar um árin við Menntaskólann á Ísafirði og síðan tekur við pólitískur ferill Jóns Baldvins og sendiráðsárin. Þótt skipulag bókarinnar sé þannig fylgir hún ekki neinni beinni línu, hún fer úr einu í annað og kemur víða við, fjallar um allt mögulegt, rifjar upp ýmis atvik og veltir vöngum yfir sínum margvíslegu hugðarefnum og áhugamálum. Ég verð að viðurkenna að ég hafði sérstaklega gaman af vangaveltum hennar um tungumál heimsins og hjartað í þessu málfræðinördi hreinlega hoppaði af kæti þegar hún talaði um hina fordæmdu og útskúfuðu námsgrein, málfræðina. Viva la gramatica, Bryndís!
Bryndísi liggur mikið á hjarta og stundum skrifar hún fullhratt. Hún hefur trúlega ekki haft neinn ritstjóra og jafnvel engan prófarkalesara. En Bryndís er flinkur penni, henni er mikið niðri fyrir og þessir örfáu hnökrar gefa bókinni eiginlega enn meiri sjarma, þetta er eins og að hlusta á lifandi tónlistarflutning, hér er ekki búið að fága allt og dauðhreinsa. Brosin ylja björt og geislandi og tárin eru sölt svo undan svíður.
Að sendiráðsárunum loknum er ljóst að Bryndís hefur horft með nokkurri tilhlökkun til eftirlaunaáranna í frelsi og friði. En það er ekki beinlínis frelsi og friður sem hefur einkennt líf hennar síðustu árin og um það fjallar síðasti hluti bókarinnar: Fjölskylduharmleikur. Enginn sem ekki hefur hjarta úr steini gæti lesið þann hluta ósnortinn, enda rekur hvert skelfilega áfallið annað, veikindi, átök og sorg. Sagt er að engin móðir geti verið hamingjusamari en óhamingjusamasta barnið hennar og víst er að erfiðleikar í lífi dætranna hafa lagst þungt á þau hjónin. Ég held að það sársaukafyllsta sem hægt er að lenda í á lífsleiðinni sé að missa barnið sitt en Jón og Bryndís hafa í raun misst tvær dætur sínar, hvora með sínum hætti. Ofan á þá nístandi sorg verða þau fyrir miskunnarlausum árásum og eru bókstaflega svipt ærunni rétt um það bil þegar þau töldu sig mega líta stolt og sátt yfir 80 ára líf sitt og starf. Og Bryndís spyr, eðlilega: Hvaðan kom allt þetta hatur?
Hvort sem fólk telur sig vita svarið við þeirri spurningu eða ekki, hvet ég alla til að lesa þessa bók, hún er lengst af mikill yndislestur og rúmar allan tilfinningaskalann sem lífið hefur upp á að bjóða, allt frá himinsælu til dýpstu sorgar.