Brosað gegnum tárin – heitir þessi bók sem nú er nýkomin út, eftir Bryndísi Schram. Ég las hana í einni lotu. Las hana svo aftur. Ég grét.
„Ung var ég gefin Njáli“ sagði Bergþóra áður en hún gekk með manni sínum inn í eldinn. Þau orð komu mér í hug þegar ég leit fyrstu blaðsíðuna, því Bryndís tileinkar bókina ástinni í lífi sínu, Jóni Baldvin. Líf þeirra tveggja hefur verið einn samþættur strengur í blíð og stríð sextíu ár.
Hér lítur Bryndís yfir leiksvið lífs síns. Minningarnar grípur hún líkt og perlur upp úr litríkum sjóði, og raðar þeim á bandið sem lesandinn hefur fyrir augum í bókarlok. Sumar vekja gleði, aðrar sorg. Sumar glitra og lýsa frá sér. Aðrar eru eins og hyldjúpt myrkur. Bryndís ávarpar nefnilega sorgina ekki síður en gleðina í þessari bók.
Bryndís hefur áður gefið út æviminningar. Sjálf skrifaði ég með henni bókina Bryndís, þegar hún var fimmtug, árið 1988. Það er svolítið fyndið að hugsa um það núna að sú bók skyldi hafa undirtitilinn „Lífssaga Bryndísar Schram“ í ljósi þess hver margt hefur á daga konunnar drifið síðan þá. Fyrir tólf árum kom svo út endurminningabók hennar Í sól og skugga. Báðar urðu þessar bækur metsölubækur.
Þessi bók Brosað gegnum tárin er í rauninni hlaðborð. Hér er mikil gleði og lífsþorsti í bland við trega og tár. Eins og við mátti búast er hér eitt og annað sem drepið hefur verið á í fyrri bókum – en nú er aðeins annar blær á endurminningunum. Bernskan er einhvernveginn kærari, viðkvæmari, blandin þakklæti og trega. Bryndís dregur upp svipmyndir af atvikum og samferðafólki sem nú er …
„ … að hverfa á braut hvert á fætur öðru – ganga út af leiksviði lífsins – gamlir vinir, sem voru í blóma lífsins á seinni hluta liðinnar aldar. Í daglegu lífi minntu þau á persónur úr skáldsögum, sem ekki fundu sér stað innan ramma hversdagsleikans – höfnuðu enda hversdagsleikanum. Í þeirra augum var lífið – með öllu sínu sorgum og allri sinni gleði – óendanlegt yrkisefni sem þau spunnu sinn þráð úr“ eins og segir á einum stað (s. 35).
Bryndísi er mjög vel lagði að skrifa góðan texta og gæða frásagnir sínar lífi. Sagan er nokkurskonar ferðalag – æviskeið – leið sem liggur úr sólarljósi yfir í skugga. Í fyrri hluta bókarinnar fáum við að sjá glaðlegar myndir af áhyggjuleysi og lífsgleði á meðan allt lék í lyndi:
„Vesturgatan, í tilhugalífi okkar Jóns Baldvins, var einskonar nafli alheimsins í okkar augum. Gatan var heimur út af fyrir sig, umgjörð um litríka og skapandi karaktera /…/ Stundum, þegar sólin skein, settumst við öll undir reynitréð í garðinum á bak við húsið /…/ Allur heimurim rúmaðist í garðinum við Vesturgötuna“ (s. 41).
Svo tóku vindar að næða. Eftir því sem á líður frásögnina verður Bryndís hispurslausari – afdráttarlausari. Hún gerir upp sakir. Opnar sig um atvik og persónur sem hafa markað spor ekki aðeins á feril hennar og Jóns Baldvins heldur líka tilfinningalífið. Hún segir frá andstreymi, öfund og illmælgi sem þau hjónin fengu fljótlega að finna fyrir á sínum yngri árum og jókst eftir því sem á leið ævi. Hún sýnir okkur atvik sem urðu – leyfir lesandanum sjálfum að skynja áhrifin af orðum og gjörðum.
Í sögulok dregur ský fyrir sólu. „Fjölskylduharmleikur“ heitir sá hluti bókarinnar og varpar dimmum skugga á sviðið. Hann er erfið lesning. Fjallar um samband (og sambandsleysi) foreldra og barns, Aldísar, sem líklega hefur komið of snemma inn í líf foreldra sinna – alin upp að mestu hjá ömmu og afa, og náði kannski aldrei að mynda eðlileg tengsl við móður sína. Tilfinningarofið sem af því hefur hlotist (og þetta er mín ályktun) verður með tímanum að lífsharmi þeirra allra. Ofan á þann harm bætist ótímabært fráfall dótturinnar Snæfríðar sem varð bráðkvödd í blóma lífsins.
Enginn er þess umkominn að tjá sig um slík örlög í lífi fólks – hvað þá að fella dóma, jafnvel ekki ritdóma. Eitt er þó víst að það þarf mikið hugrekki til að opna sig um svo viðkvæma hluti, leggja tilfinningar sínar á borðið og gera það af heiðarleika. Það hugrekki sýnir Bryndís – og það segir mikið um hana.
Þessa bók leggur enginn frá sér fyrr en að lestri loknum. Hún er mikil synfónía tilfinninga og reynslu. Og þrátt fyrir skugga og hret, er þetta óður til lífs og listar og gleði. Bros gegnum tárin.