Við leyfðum okkur þann munað um helgina að fara í leikhús – sjálft Þjóðleikhúsið. Þetta var frumsýning á „Vertu úlfur“, sem byggt er á sjálfsævisögu Héðins Unnsteinssonar. Húsið var upptendrað sem aldrei fyrr, og gestgjafar stóðu brosandi við dyrnar. Öllum var tekið fagnandi – Jafnvel okkur.
Hvað var okkur efst í huga að sýningu lokinni? Fyrst og fremst aðdáun yfir því, hve vel var að verki staðið. Málefnið er brýnt og varðar okkur öll. Héðinn Unnsteinsson á þakkir skyldar fyrir að þora – þora að opna okkur sýn inn í hugarheim hins geðsjúka, þora að rjúfa þögnina og þora að spyrja beinskeyttra spurninga, sem afhjúpa okkar eigin fordóma.
En það er ekki bara hann, sem kemur okkur á óvart. Unnur Ösp Stefánsdóttir, sem fram að þessu hefur birst okkur í gervi leikkonunnar á sviðinu, er að þessu sinni í hlutverki leikstjórans, sem henni ferst svo vel úr hendi, að undrun sætir – og aðdáun. Það var hún, sem átti frumkvæðið að því að leita í smiðju Héðins við að skapa þetta leikverk, sem nú situr eftir í huganum sem ógleymanlegt listaverk og lætur engan ósnortinn.
En þrátt fyrir frábæra og fjörlega leikstjórn hvílir verkið að lokum á trúverðugleik og atgervi eina leikarans, Björns Thors. Það er Björn, sem ber þetta uppi frá byrjun til enda, aleinn á sviðinu í tvo tíma, án hlés. Og á þessum tveimur tímum fer hann í gegnum allan skala mannlegra tilfinninga, ýmist upphafinn eða niðurbrotinn, vonglaður eða angistarfullur. Hvernig á að þýða „tour de force“? Er það ekki þessi kraftbirting, sem reynir til hins ýtrasta á þanþol mennskunnar? Og þakklátir gestir hússins fögnuðu innilega í lokin – sannkallaður stjörnuleikur.
Og utan um allt þetta spinnur Elín Hansdóttir leikmynd við hæfi og af ótrúlegu hugmyndaflugi og þori – hún notar jafnvel streymandi vatn sér til upplyftingar í andanum! Nýtir til fulls hið stóra rými í aðalsal leikhússins sem vettvang hamfaranna í hugarheimi hins sjúka.
Þetta er heimsklassasýning, hvorki meira né minna. Þrátt fyrir staðbundnar tilvísanir frá Reykjavík til Borgarness hefur sýningin alþjóðlega skírskotun og á erindi á svið úti í hinum stóra heimi.
Umhverfing hins gáfaða og efnilega unglings yfir í hamslausan varg – úlf geðhvarfanna – er miskunnarlaus. Það er vikið að þremur birtingarformum sjúkdómsins: þunglyndinu, sem dregur úr þér allan mátt og lífslöngun, maníunni, sem sviftir þig dómgreind raunsæisins og magnar oflætið upp í hæstu hæðir, og geðklofann, sem læsir þig inni í þinni eigin einkaveröld.
Oflætið fer hamförum á sviðinu, enda sýnilegast af þessum sjúkdómseinkennum. Hvað eftir annað er að því vikið, að oflætið heltekur ekki bara einstaklinginn. Heilu samfélögin geta orðið því að bráð. Okkar eigið samfélag í aðdraganda Hrunsins – hvað var það annað en þjóðfélag í hæstu hæðum maníunnar?
Hverjar eru lausninrnar? Er hægt að halda sjúkdómnum í skefjum fyrir töframátt lyfja, þannig að einstaklingurinn geti sinnt starfi sínu, nýtt hæfileika sína – sem einatt eru meira en í meðallagi – í eigin þágu og samfélagsins? Hvað með þær stofnanir, sem við höfum byggt upp til að hlynna að hinum sjúku og koma þeim undir líknandi læknishendur? Þær fá sinn skammt. Hvernig geta þær orðið sjúklingnum að liði, ef hann sjálfur þverneitar, að hann sé veikur og þurfi á nokkurri læknishjálp að halda?
Og hvernig getum við, aðstandendur hins sjúka, foreldrar, systkini, frændfólk, vinir og vandamenn, lagt fram hjálparhönd, svo að gagni megi koma? Höfundurinn leggur áherslu á heilunarmátt fyrirgefningarinnar. En það þarf tvo til. Undir lok sýningarinnar fer söguhetja sviðsins með lífsorðin fjórtán, sem hinn sjúki þarf að temja sér, og við hin þurfum að læra af. Hvort tveggja þarf til að brjóta niður Berlínarmúra hatursins, sem byggja á því að neita að viðurkenna sjúkdóminn. Eða á því að kenna öðrum um.
Það er nefnilega engum öðrum um að kenna. Sjúkdómurinn gerir ekki boð á undan sér. Hann fer ekki í manngreinarálit. Ekkert okkar er óhult fyrir honum.
Bryndís og Jón Baldvin