Það er hins vegar nýtt fyrir mér að sjá níðið klætt í viðhafnarbúning fræðimannsins, eins og reynt er að gera í nýlegri bók eftir Björn Jón Bragason. Þar eru gróusögurnar bornar á borð með vísan í ónafngreinda heimildamenn (sjá skrá yfir heimildamenn aftast í bókinni). Með öðrum orðum: rógberarnir þora ekki að standa við orð sín undir nafni. Einstaklingar, sem þannig koma fram gagnvart öðrum, dæma sig sjálfir. Þeir eru ekki svaraverðir. Samt neyðist maður til að leiðrétta gróusögurnar, svo að saklaust fólk glepjist ekki til að trúa þeim.
Árin okkar í Ameríku – fáein vel valin orð af gefnu tilefni.
Æran
félagi Orðrómur
félagi Orðrómur
margur hefur það heyrt
sem hefur verið fleygt að…
(Þröstur J. Karlsson í ljóðabókinni: Einn apaköttur sagði þá, afskaplega er gaman)
Í áranna rás höfum við Jón Baldvin vanist því að lesa um okkur – annað hvort eða bæði – allra handa óhróður, oftast nær nafnlaust. Mest af þessu flokkast undir pólitískt skítkast og fylgir starfslýsingu stjórnmálamannsins. Menn læra smám saman að taka því eins og hverju öðru hundsbiti. Stundum er þetta runnið undan rifjum fólks, sem á af einhverjum ástæðum bágt og finnur hjá sér þörf að kenna öðrum um eigin ófarir.