Svo fór hann að segja mér frá nýútkominni bók, sem hann hafði verið að lesa í Edinborg þetta haust. Hún hét „The Last Empire“ eftir Robert Conquest, og fjallaði um hrikaleg örlög þjóðanna við Eystrasalt í Seinni heimstyrjöldinni og á næstu áratugum. Fjöldamorðingjarnir, Hitler og Stalín, skiptu Austur-Evrópu á milli sín. Herir beggja, Rauði herinn og þýsku nasistarnir, óðu um löndin, rænandi, ruplandi og myrðandi. Í stríðslok voru Eystraltsþjóðirnar þrjár innlimaðar í Sovétríkin með hervaldi. Þá byrjaði martröð þessara þjóða fyrir alvöru, eins og áður er lýst.
Þessi frásögn snart mig djúpt. Samt var þetta einhvern veginn allt svo óraunverulegt, svo ótrúlegt, að hugur minn náði ekki að spanna þessar víddir grimmdarinnar og sársaukans. Ég grét ekki – það var ekki fyrr en löngu seinna, þegar ég lifði mig inn í frásagnir fólks af þessum atburðum úr eigin lífi.
En – nákvæmlega þrjátíu árum seinna er þessi sami drengur orðinn utanríkisráðherra á Íslandi. Og þegar ég lít til baka er engu líkara en að þessi þrjátíu ár hafi verið eins konar undirbúningur að því, sem koma skyldi. Hann hafði aðhyllst kommúnisma í æsku, já, en hann varð fljótlega afhuga þeim kreddum og snerist upp í harðan andkommúnista. Og áhugi hans á örlögum þjóða í Mið- og Austur-Evrópu í heljargreipum rússneska bjarnarins hélst óbreyttur. Það þarf ekki nema að líta á bókasafnið hans til að fá það staðfest.
Þessi forsaga skýrir betur en annað, hversvegna það var, að þegar sjálfstæðishreyfingar Eystrasaltsþjóðanna föluðust eftir stuðningi við endurreist sjálfstæði hjá stjórnmálaleiðtogum á Vesturlöndum, var að minnsta kosti einn, sem mætti þeim af meiri skilningi en aðrir – hann þekkti söguna. Af samtölum hans við menn eins og Meri og Landsbergis, hefði mátt ætla, að hann væri einn af þeim.
Þegar hann flaug af landi brott þann 16. Janúar, 1991, þá hvarflaði að mér, að hugsanlega mundi ég aldrei sjá hann aftur. Sovéski herinn, grár fyrir járnum, var í viðbragðstöðu við þinghúsið í Vilníus, þangað sem förinni var heitið. En ég var einhvern veginn reiðubúin að taka örlögunum. Hvað er fallegra en að deyja fyrir góðan málstað?
En af hverju er ég að segja frá þessu núna? (Who cares?, eins og einhver sagði). Af því að menn eru enn að spyrja: Af hverju? Af hverju gerðir þú þetta, Jón Baldvin? Getur þú skýrt þetta fyrir okkur? Og þetta er svarið við því.
Og núna hér í Vilnius, meira en tuttugu árum seinna, gengur fólk að okkur á götu, grípur um hendur Jóns Baldvins og hneigir sig – sumir kyssa hann og faðma að sér. Ég stend bara hjá með tárin í augunum. Bókin sem hann sagði mér frá endur fyrir löngu í fátæklegu hótelherbergi í París, leiddi hann á þennan stað í tilverunni.