Rétt eins og á Vinstri bakkanum

Árið 2009 fagnaði Vilnius þúsund ára afmæli sínu og er, að sögn, ein af elstu heillegu borgum Mið-Evrópu. Hér má ekki hrófla við neinu, því að UNESCO hefur tekið gamla bæinn undir sín vökulu augu og forbýður, að heildarsvipnum sé raskað. Borgin er ýmist nefnd Aþena norðursins, eða Baroque borgin norðan Alpafjalla. Hér mætast austrið og vestrið. Þannig hefur það verið alveg frá því að Litháar voru stórveldi og lögðu undir sig löndin í austri, allt suður til Svarta hafsins, þar til landið lenti undir hrammi tveggja stórvelda sitt til hvorrar handar, Rússa og Pólverja. Öllu slær saman í eina órofa harmóníu lita og lögunar. Borgin hefur róandi áhrif með sínum lágreistu húsum og mildu litum. Mér er sagt, að það séu fimmtíu og þrjár kirkjur í Vilníus. Það er sama, hvar maður tyllir niður fæti á gönguferð um borgina, alls staðar blasa við hinar fegurstu byggingar, ýmist orthodox, kaþólskar, lútherstrúar eða sínagógur – hver með sínu lagi. Þetta bendir til þess, að Litháar hafi verið menntaðir og frjálslyndir.

Húsið, sem við búum í, stendur í húsagarði við Didzioji Gatvu (Aðalstræti) sem er eins og okkar Aðalstræti, elsta gata borgarinnar. Það er hljótt í garðinum, oftast fáir á ferli, nema dugnaðarlegar konur að skjótast á milli húsa með skúringafötur. En úti á götunni er ys og þys. Það er engu líkara en, að maður detti beint inn í fjörlega leiksýningu, sem er reyndar löngu hafin. Efst á sviðinu trónir ráðhúsið, tíguleg bygging með sex nýklassiskum súlum í forgrunni. Kaffihús og barir hafa breitt úr sér um allt torgið, rauðköflóttir dúkar blakta í vorgolunni, borð við borð. Samt er ekkert sæti laust. Þjónar eru á hlaupum með bakka og glös, allir hlæjandi og mas-andi. Sólin er enn heit, þótt dagur sé að kveldi kominn. Og engum liggur á.

Allt í einu finnst mér ég vera komin til Andalúsíu. Þar klæða konur sig upp á eftir siestuna og fara í bæinn til að sýna sig og sjá aðra – lágar í loftinu, með svört augu og uppsett hár. Þær eru jafnvel með blævæng í hönd og gefa mönnum gaum í laumi. Kvenlegar á sinn hátt, í nærskornum blússum og síðum pilsum, sem sveiflast í takt við göngulagið.

Hér fara konur líka í bæinn síðdegis til að sýna sig og sjá aðra. En þær bera sig öðruvísi að. Eru ofur kvenlegar, það vantar ekki, en á allt annan hátt, meira undir rós, ef svo má segja. Litháiskar konur eru norrænar, ljósar yfirlitum, háar og grann-vaxnar. – Þær gætu flestar verið í körfuboltaliðinu. Hver og ein er þátttakandi í þessu götuleikhúsi og nýtir kvenleikann til að styrkja yfirburðastöðu gagnvart veikara kyninu. Þær klæðast kjólum, hugsið ykkur. – Hvar annars staðar sér maður það norðan Alpafjalla? – síðum kjólum í öllum regnbogans litum, heimasaumuðum, sýnist mér. Og þegar þær ganga fram hjá með berar axlir og flaxandi hárið, finnst manni svo augljóst, að það eru þær, sem hafa töglin og hagldirnar í þessu þjóðfélagi.

Það er gaman að láta sig týnast – eða týna sjálfum sér – í þröngum götum gamla hverfisins. Húsagarðarnir að baki eru leyndardómsfullir. Stundum leynast þar litlir veitingastaðir, spennandi bókabúðir eða fataverslanir, sem bjóða gömul föt til sölu á spottprís. Ég stenst aldrei slíkar sjoppur.

Að sumu leyti minnir Vilníus á Vinstri bakka Parísarborgar á hinni öldinni. Þá fór ég í fyrsta skipti að heiman í alvöru og var að reyna að einbeita mér að námi í Sorbonne. Samt man ég best eftir kaffihúsunum og löngum setum þar, ýmist með café-au-lait eða – hugsanlega – rauðvínsglas. Það passaði einhvern veginn betur við glaðværa stemninguna og dró úr ógninni af stórborgarlífinu.

Ég hafði aldrei upplifað kaffihús áður – ekki í alvöru. En þetta var líka í fyrsta sinn, sem ég var alein í stórborg. Ég sótti mér félagsskap á kaffihúsin án þess að yrða á nokkra manneskju – bara með því að sitja í mannhafinu og horfa á andlit, sem runnu hjá. Hvert og eitt hafði sögu að segja. Og af lestri bóka tískuhöfundanna, Si-mone de Beauvoir og elskhuga hennar, Jean Paul Sartre, var ég sannfærð um, að allar umræður, sem snertu kjarna mannlífsins, færu fram á kaffihúsum á Vinstri bakkanum.

Og nú sit ég aftur á kaffihúsi í gamalli borg – nú drekk ég að vísu hvítvín – og gef ímyndunaraflinu lausan tauminn – alveg eins og í París forðum daga. Ég er enn að læra, enn forvitin. Og leiksýningin verður æ fjörlegri eftir því sem líður á kvöldið, konurnar skrautlegri og karlarnir háværari. Það er ekki fyrr en á miðnætti, sem ljósin eru slökkt og tjaldið er dregið fyrir. Allt fellur í dúnalogn – alveg eins og í leikhúsinu – en skömmu seinna birtist skúringaliðið til að gera allt klárt fyrir næstu sýningu.