Andreotti allur

Það eru aðeins örfáir dagar síðan visnar greinar trjánna voru enn að fálma skjálfandi út í grátt andrúmsloftið – en nú skyndilega er allt orðið iðagrænt og fagurt í Vilníus. Ég er komin úr lopapeysunni og klæðist hvítri silkiskyrtu, og er berfætt í skónum – en það er ég nú reyndar allt árið. Nema hvað, ég var að ganga niður Dídíargötu (Aðalstræti) á leið til blaðasjoppunnar á torginu framan við dómkirkjuna. Þar getur maður keypt erlend blöð og tímarit á „skiljanlegum“ tungumálum. Allt umhverfið svo notalegt og ljúft. Á bekkjum undir kirkjuveggnum haldast elskendur í hendur og á þakinu hjúfra sig turtildúfur hver upp að annarri, því að nú fer í hönd tími ástarinnar. Túristarnir eru þegar komnir á kreik og sestir í þægileg sæti á gangstéttinni með bjórkollu í fanginu. Góð byrjun á degi.

Þegar ég kem að blaðasölunni, blasir við gamalkunnugt andlit á forsíðunum. Giulio Andreotti! – Látinn er í hárri elli skuggabaldur ítölsku mafíunnar um áratugaskeið – þrisvar sinnum forsætisráðherra á tímabilinu 1972 – 89, (þegar Ítalir skiptu um ríkisstjórnir eins og nærföt – eða á ég a segja sokka?) Erki kaþólikki, trúnaðarvinur páfanna og hinn fámáli verndari mafíunnar bak við tjöldin. Mættur eldsnemma á hverjum morgni til messu, og þegar hann kom út, hópuðust betlararnir utan um hann. Á kirkutröppunum útbýtti Andreotti ölmusum til að friða samviskuna. Sannur kaþólikki.

Hvers vegna skyldi hann vera mér minnisstæður? Það er (smá)saga að segja frá því. Það var í desember 1988 – fyrir aldarfjórðungi – og utanríkisráðherrafundur NATO í Brüssel. Aldrei þessu vant fylgdi ég JBH til Brüssel, af því að í beinu framhaldi var opinber heimsókn til Póllands. Skyldan bauð, að maki ráðherra væri með í för. Sagan sú var reyndar sögulegri – en kemur ekki þessu máli við.

Þegar ráðherrafundum í NATO lauk, var efnt til mikillar veislu. Það var sérstakt tilefni, því að George Schultz, utanríkisráðherra Reagans, var að hætta. Bush eldri var að taka við eftir áramótin. NATO-ráðherrarnir höfðu skotið saman í kveðjugjöf handa Schultz – að hans eigin vali – eða réttara sagt, konunnar hans. Hún valdi rafknúna járnbrautarlest, leikfang handa stórum strákum. Þegar komið var í veislusalinn, þá varð maður eiginlega að ganga hringinn í kringum þetta lestarleikfang, sem hafði verið komið fyrir á gólfinu við annan borðsendann.

Ekki veit ég, hvaða siðareglur réðu því, að mér var valið sæti við þennan sama borðsenda, í grennd við afmælisbarnið. JBH var á hinum endanum með vinum sínum frá Noregi og Danmörku – og því hvergi nærri. Við enda borðsins sat Manfred Wörner, f.v. Þýskur orrustuflugmaður, þá framkvæmdastjóri NATO. Andspænis mér sátu afmælisbarnið Schultz, og við hlið hans sat utanríkisráðherra hennar hátignar Bretadrottningar, Sir Geoffrey Howe. Mín megin á hægri hönd var Dumas, franski utanríkisráðherrann. Ég hafði heyrt, að hann hefði á stúdentsárunum brunað á mótorhjóli alla leið til Svíþjóðar til að elta sænska ljósku, sem hafði litið við í Sorbonne. Ég vissi ekki þá, að löngu seinna mundi önnur norsk ljóska, Eva Jolie, koma honum bak við lás og slá fyrir spillingu. Þaðan af síður að hjákona hans mundi síðar gefa út æviminningar undir nafninu „Hóra lýðveldisins“. (En nú er ég komin fram úr sjálfri mér í tímanum, halda sér við söguna).

Mér á vinstri hönd sat hinn dularfulli maður, Giulio Andreotti. Ég tók strax eftir því, að hann gestikúleraði ekkert með höndunum, eins og Ítala er siður, þegar þeir tala. Hann var afskaplega settlegur og milli rétta sat hann með hendurnar hnýttar framan á brjóstinu og talaði lágt. Nú kom sér vel að hafa verið samviskusamur nemandi í Lærða skólanum í Reykavík í gamla daga. Franskan á hægri hönd – Dumas. Latínan til vinstri. Talaði ég latínu við Andreotti? Nei, en ég hafði fylgt latínunni eftir með því að læra eitthvað í ítölsku, þegar ég var fararstjóri á sumrum í den fyrir Ingólf í Útsýn. Nema hvað, að það dugði til að blása lífi í sessunaut minn, sem talaði ekkert erlent tungumál.

En það er ekki allt búið enn. Eftir aðalréttinn stóð Wörner upp og tilkynnti, að járnbrautarlestin, sem brunaði hljóðlega í stóra hringi á gólfinu, væri gjöf til fráfarandi utanríkisráðherra Bandaríkjanna og fór um það mörgum orðum, að hún ætti að skírskota til verkfræðingsins í honum (Schultz hafði verið yfirmaður stærsta verktakafyrirtækis Ameríkana, Bechtel, sem seinna varð alræmt í Írakstríðinu).

Schultz þakkaði fyrir sig og samveruna og félagsskapinn og bætti við, að þeir hefðu ekki getað valið betri gjöf að skilnaði. Hann hlakkaði til að setja hana upp í Oval Office með vini sínum Ronny (forseta Bandaríkjanna), en þeir væru báðir „railway enthusiasts“. Ég segi ekki meira af þessum ræðuhöldum. En fyrr en varði voru framkvæmdastjóri NATO og Schultz, fyrrum forstjóri Bechtel, og utanríkisráðherra hennar hátignar komnir á fjóra fætur við að reyna að hemja lestina, sem vildi ekki láta að stjórn.

Við sem sátum mín megin við borðsendann, létum sem við tækjum ekki eftir þessu uppátæki stóru strákanna. Dumas var greinilega mikið upp á kvenhöndina, hafði fallegt bros og lipra tungu. Hann hafði líka verið ungur stúdent á Vinstri bakkanum í París og var sammála mér í því, að þeir tímar kæmu aldrei aftur. Þess á milli sneri ég mér að sessunaut mínum á vinstri hönd. Ég notaði tækifærið og sagði kaþólikkanum Andreotti söguna af víðförlustu konu heims – Guðríði Þorbjarnardóttur – sem hefði uppgötvað Ameríku hálfu árþúsundi á undan Kolumbusi, og gengið síðan píslargöngu til Rómar, fyrst kristinna kvenna á Norðurlöndum. Lærðir menn segðu mér – og nú horfði ég beint í augun á Andreotti – að kardínálar Vatikansins hefðu tekið nákvæmar skýrslur af Guðríði um landafundi hennar. Seinna hefði Kolumbus líklega komist í þau gögn. Og kannski hefði hann aldrei fundið Ameríku, ef Guðríðar hefði ekki notið við. – Andreotti var nægilega uppveðraður af sögu Guðríðar til að segja, að hann ætlaði að biðja vini sína í Vatikaninu að kanna það, hvort Kólumbus hefði fengið hugmyndina um hina nýju heimsálfu af frásögnum Guðríðar, sem nú rykféllu í hvelfingum Vatikansins.

Meira var það ekki.