Fjalla-Eyvindur: Blómstrandi plastverksmiðja

Leikhópurinn Aldrei óstelandi sýnir í Norðurpólnum FJALLA-EYVIND

Leikstjóri: Marta Nordal
Lýsing: Björn Elvar Sigmarsson
Tónlist: Stefán Már Magnússon
Hljóðmynd: Elísabet Indra Ragnarsdóttir
Aðstoð við leikynd og lýsingu: Rebekka A. Ingimundardóttir
Aðstoð við hreyfingar: Steinunn Ketilsdóttir

Persónur og leikendur:
Halla: Edda Björg Eyjólfsdóttir
Kári: Guðmundur Ingi Þorvaldsson
Björn: Valdimar Örn Flygenring
Arnes: Bjartur Guðmundsson


Úr Fjalla-Eyvindi

Þetta er svona eins konar rip-off – ef ég má komast svo að orði – svona svipað og maður upplifði með Hreyfiþróunarsamsteypunni um daginn, þar sem hópurinn leiddi okkur í allan sannleikann um Shakespeare – en án orða.

Að þessu sinni er því öfugt farið. Hér eru það orðin ein sem gilda.. Það er búið að rífa (rip)umbúðirnar utan af orðunum og skilja þau eftir hangandi í loftinu eins og litlar stjörnur, sem vísa okkur leið inn að kviku mannssálarinnar og afhjúpa sannleikann um fólk eins og okkur – ástir og sorgir. Engin leikmynd setur okkur í tilætlaðar stellingar, engir sauðskinnsskór minna á örlög forfeðranna, hvað þá tóbaksklútar eða trésleifar – það er bara myrkrið sem umvefur okkur. Hófasláttur æsir upp ímyndunaraflið og við ríðum berbakt um öræfi Íslands í fylgd ástarinnar.

Það er annars merkilegt að hugsa til þess, að hvað eftir annað setjum við fjárhag ríkis og borgar í hættu til þess að byggja glerhallir utan um listina. En það er eins og vitur vinur sagði einu sinni: skóli er ekki hús – dýrt og fallegt leikhús skilar ekki endilega góðri leiklist.

Og það sannast á glænýrri sýningu á Fjalla Eyvindi Jóhanns Sigurjónssonar í gamalli plastverksmiðju vestast á Seltjarnarnesinu. Þarna er eiginlega ekkert sem minnir á leikhús. Það syngur í blautri mölinni, þegar maður stígur út úr bílnum og grámuskulegir veggir minna okkur enn á fyrra líf þessarar lágreistu byggingar. Gott, ef það er ekki plastlykt í loftinu. Maður gengur úr einum salnum í annan, og smám saman færist líf og litir í umhverfið. Slitin gólfteppi og gamlir sófar bjóða manni til sætis ásamt glasi af hvítu víni og fallegu brosi. Ungt fólk hefur haslað sér völl í þessu gímaldi og leiklistin blómstrar sem aldrei fyrr. Umgerðin skiptir engu máli, þegar sköpunarþörfin er annars vegar. Og þetta varð ógleymanlegt kvöld – í aflagðri plastverksmiðju!

Því er haldið fram í gamalli bók, að danska heitið (upprunalega, eða hvað?) á Fjalla Eyvindi sé miklu sanngjarnara en hið íslenska. Bjærg-Ejvind og hans hustru bendir til þess, að báðar aðalpersónurnar séu jafnmikilvægar. Sem þær eru svo sannarlega – Halla í styrkleika sínum og Kári í veikleikum sínum. Og eins og leikstjórinn að sýningunni, Marta Nordal, leggur þetta upp, þá hefði kannski verið við hæfi að kenna verkið við þau bæði, Eyvind og Höllu, því að Marta gerist svo djörf að henda út öllum aukapersónum og einbeita sér bara að einu – ást manns og konu, í meðlæti og mótlæti. Þetta er stúdía um ástina.

Leikritið segir frá því, hvernig hin stóra ást fjarar út, þegar hversdagslífið er orðið óbærileg byrði. Eftir áralanga einveru og tilbreytingarleysi öræfanna, stöðugt hungur og kvíða fyrir framtíðinni, Arnes farinn og Björn að leita þeirra, þá er eins og eitthvað bresti. Halla hafði þar að auki gripið til þess örþrifaráðs að kasta dóttur sinni, þriggja ára, í fossinn til þess að forða henni frá því að lenda í höndum óvinanna og verða sveitarómagi til framtíðar. Hvers á ástin að gjalda? Hún snýst upp í hatur og fyrirlitningu.

Uppgjör Kára og Höllu í lokin er magnað, í einu orði sagt. Textinn er svo fallegur, heiðarlegur og einlægur frá höfundarins hendi, að það er eins og hann sé sjálfur að tala frá sínu eigin hjarta. Jóhann hafði reyndar upplifað ást í meinum og því mjög líklegt, að hann hafi notfært sér þá reynslu. Samtalið lýsir baráttu karls og konu um að gera ást sína að veruleika. Það snertir streng í brjóstum allra viðstaddra og er eins konar opinberun.
Hvað skiptir máli í lífinu? Fyrir hvað lifum við? Hvað sagði ekki Halla? “Hætti ég að elska hann, þá dey ég”.

Nú, en sýningin var ekki bara mögnuð, af því að t extinn er svo góður. Það þarf líka að gera hann trúverðugan og sannfærandi. Og þegar leikmyndin eru bara svartir veggir og skrifborðslampar frá Ikeu með 40 kerta perum, þá reynir ennþá meira að túlkendur – en þeir eru þrír bráðmyndarlegir karlar að berjast um hylli einnar og sömu konunnar.

Ég verð að viðurkenna, að ég hef aldrei séð þau Eddu Björgu Eyjólfsdóttur, Guðmund Inga Þorvaldsson og Bjart Guðmundsson á sviði áður. Ég hef hins vegar lengi verið aðdáandi Valdimars Arnar Flygenrings, sem er mátulega karlmannlegur til að geta leyft sér að gefa Höllu undir fótinn – alla vega samboðinn henni í útliti – en ekki innræti, eins og kom á daginn.

Sagnamaðurinn Arnes er óvenju bjartur yfirlitum, besta skinn en ögn klaufskur í mannlegum samskiptum. Bjartur dregur upp mynd af ljúfum og auðsveipum manni, sem tekst að vekja samúð þrátt fyrir mislukkaða ástleitni sína. Glæsilegt útlit keppinauta Kára skapar óvænta spennu í þessum fjögurra manna hóp, sem ég minnist ekki að hafa upplifað á fyrri sýningum á Fjalla Eyvindi.

Edda Björg og Guðmundur Ingi leika svo áreynslulaust, að maður stendur á öndinni, vill ekki missa af neinu.Ástarleikur þeirra toppar flest annað í sýningunni. Og þó – því að í lokin fara þau fram úr öllum væntingum. Örþreytt, úrvinda, vonlaus og ástlaus, hjúpuð óræðu myrkri við harðan klett verðum við vitni að því, hvernig ástin getur tortímt sjálfri sér og snúist upp í hatur, ef jarðvegurinn er þurr og ófrjór.
Látum þetta okkur að kenningu verða.

Það er ástæða til að óska leikstjóranum og öðrum aðstandendum sýningarinnar til hamingju. Endurskoðun sögunnar, endurskoðun bókmenntaverkanna gerir okkur öllum gott, hreinsar til í hugarfylgsnunum.