Afinn: Siggi á betra skilið

Borgarleikhúsið frumsýnir AFANN eftir Bjarna Hauk Þórsson

Leikstjóri: Bjarni Haukur Þórsson
Leikmynd og búningar: Finnur Arnar Arnarsson
Lýsing: Kári Gíslason
Tónlist: Pálmi Sigurhjartarson

Leikari: Sigurður Sigurjónsso


Siggi á betra skilið

Mér finnst einhvern veginn, að þeir Sigurður Sigurjónsson og Bjarni Haukur Þórsson, hefðu átt aðgera það upp við sig, áður en þeir lögðu upp í þessa ferð, hvort þeir ætluðu að búa til leikrit eða “uppstand” (stand-up show). Það er ekki nokkur leið að hræra þessu tvennu saman, svo að vel fari. Leikrit lúta ákveðnum lögmálum, fyrst fer fram kynning, síðan spinnst flækja, svo verða hvörf og að lokum birtist lausnin.

Uppstand er hins vegar bara svo yfirborðslegt hjal, fimm aura brandarar, sem ganga á þorrablótum Lionsmanna – eða jafnvel hjá Frímúrurum – oftast stolnir og þýddir úr bandarískum grínþáttum, og halda sjaldnast athygli lengur en hálftíma í senn. Já, já, Bill Cosby er snillingur,hann nýtir sér þetta form betur en flestir aðrir. Það gengur kannski í ameríkanann. En við erum varla orðin svo ameríkaníseruð, eða hvað?

Mér fannst þeir strákarnir, Siggi og Bjarni Haukur, ekki alveg vera með þetta á hreinu, og því voru það stílbrot á uppstandinu, þegar Siggi gerðist öðru hverju melodramatískur og fór að rifja upp sögur af pabba sínum, rétt eins og hann hefði skroppið í viðtal hjá Jónasi Jónassyni á síðkvöldi. Þetta snerist upp í að vera sentimentalskt á köflum og dró úr skemmtanagildi verksins.

Mér fannst Siggi ná sér best upp, þegar hann fór að segja sögur (og hann hlýtur að eiga margar sögur í fórum sínum). T.d. Var heimsóknin til Grindavíkur alveg bráðfyndin, og maður sá hann fyrir sér með viagrapokann í viðtali við barnaskólanemendur! (En hvernig er það, er nokkuð apótek í Grindavík?). En á hinn bóginn er búið að gantast svo mikið með þetta viagra í gegnum árin, að við kunnum alla brandarana utan bókar. Mér fannst líka, að Siggi hefði ekki átt að fara að fílósófera undir lokin. Það klæðir ekki gamanleikarann – alla vega ekki í svona skemmtiprógrami.

Bjarni Haukur er skráður höfundur leikþáttarins, þó að ég geri ráð fyrir, að Siggi eigi bróðurpartinn, því að hann reitir af sér brandara um konuna, börnin og tengdabörnin (Skyldi ekki Sökkvi Snær hafa gefist upp á tengdapabba fyrir löngu?) Hann er óhræddur við að gera grín að sjálfum sem hjálparvana gamalmenni (hvernig er það, er Siggi ekki bara á sextugsaldri?), bæði hjá lækninum og jafnvel uppi í rúmi hjá elsku konunni sinni.

Bjarni Haukur virðist vera vandaður leikstjóri. Hann lætur ekkert fram hjá sér fara og sinnir smáatriðunum, sem skipta oft svo miklu máli. Og í samvinnu við Finn Arnar (leikmynd), Kára Gísla (lýsing)og Pálma Sigurhjartarson (tónlist) tekst honum að skapa einfalda en mátulega táknræna umgerð um þau ár, sem leikarinn veltir sér upp úr.

Það virðist þó vera segin saga í þessum bransa, að ef höfundur er jafnframt leikstjóri, þá bregst það ekki, að sýningin verður of löng og missir flugið. Höfundur tímir ekki að henda á burt gullmolunum! Það þarf því miskunnarlausan klippara við hlið stjórnanda í slíkum tilfellum. Sýningin hans Sigga og Bjarna Hauks fengi miklu meira skemmtanagildi og næði meir vinsældum, ef þeir styttu verkið, slepptu jafnvel hléinu. Það mundi ydda sýninguna, gera hana hnitmiðaðri og eflaust ánægjulegri.

Sigurður Sigurjónsson er einn af allra vinsælustu og fjölhæfustu leikurum þjóðarinnar. Hann á langan feril að baki og hefur skapað margar ódauðlegar persónur á sviðinu, sem lifa í minningunni, þó að allt annað gleymist. Ég man enn eftir honum sem Amadeus í Mozart, Árna í Stundarfriði, Ragga á Bílaverkstæði Badda, o. Fl., o.fl. Svo má ekki gleyma þeim fjölda persóna, sem hann hefur túlkað í vinsælasta sjónvarpsþætti RÚV allra tíma – Spaugstofunni. Hann er löngu orðinn eign þjóðarinnar og getur ekki um frjálst höfuð strokið, jafnvel þótt hann reyni að flýja aðdáendur sína alla leið til Kanaríeyja.

Hann er elskaður og dáður, og það fann maður svo vel í leikhúsinu. Fullt hús af gestum, sem voru komnir til að fagna með honum á tímamótum. En einhvern veginn var ég ekki sátt, hvernig hann spann úr lífsþræði sínum. Mér fannst satt að segja, að Siggi ætti að gera meiri kröfur, það væri fyrir neðan virðingu hans á þessum tímamótum og við þessar aðstæður að taka þátt í uppstandi af þessu tagi. Grínið var of yfirborðslegt, það vantaði undirtóninn, dýptina í verkið, jafnvel sársaukann. Siggi á betra skilið.