Frá Borgarleikhúsinu
“Vei yður, fræðimenn og farísear, hræsnarar! Þér líkist
hvítum kölkuðum gröfum, sem sýnast fagrar utan, en
innan eru fullar af dauðra manna beinum og alls kyns
óþverra. Þannig eruð þér, sýnist hið ytra réttlátir í
ranglætis.”
( Matteus, 23, 27.)
Reyndu að bera þér í munn eftirfarandi klisjutrossu, án þess að anda á milli: „Hrun, Ísland, útrás, Icesave, einkavæðing, Sjálfstæðisflokkur, hlutafjáraukning, einkahlutafélag, skattaparadís, innherjaviðskipti, markaðsmisnotkun, skuldatryggingarálag, stýrivextir, skilanefndarmenn, arðgreiðslur, afskriftir, kúlulánþegar, þrotabú, kröfuhafar, krosseignatengsl, neysluvöruverðsvísitala, myntkörfulán, ástarbréf, sægreifi, sérstakur saksóknari, bankaleynd, aflandsgengi, jöklabréf, áhættufjárfestir, greiðsluaðlögun, gjaldþrot og skötuselsfrumvarp.“
Matthildur, saksósknarinn/fjallkonan í þessum blindingsleik – sem Sólveig Arnarsdóttir tekur föstum tökum strax í upphafi leiks, aðsópsmikil og skírmælt, sem fjallkonunni ber – lýsir fyrrnefnda klisjuromsu bannorð í þessu sviðsréttarhaldi, að viðlögðum innankvölum með raflosti. Þar með er “þjóðfélagsumræðunni”, eins og hún birtist okkur þessi misserin í blöðum, ljósvaka- og netmiðlum, úthýst. Enda þjóðin fyrir löngu búin að fá sig fullsadda af síbyljunni.
„Hver vill fara í leikhús til að upplifa aftur harmleik hversdagsins?“ spyr Andri Snær í leikskrá. Og svarið er: Við viljum grið frá klisjukenndri gerviumræðu, sem forðast að kafa undir yfirborð hlutanna – við viljum láta leiða í ljós sannleikann sem undir býr. Þess vegna er þetta sviðsverk í formi réttarhalds. Mælskubrögðin minna stundum á amerískan sjónvarpsþátt, þar sem ákærandinn brilljerar í yfirheyrslum og neyðir fórnarlambið til að hrekjast úr einu vígi í annað, um leið og hann (ákærandinn) afhjúpar falsvitnisburð, undanfærslur og lygaþvælu.
Að baki býr sú hugsun, að hugtök fjármálaheimsins og stjórnmálalífsins, sem hver endurtekur í vanahugsun eftir öðrum, séu fyrst og fremst til þess fallin að hylma yfir – fremur en að leiða í ljós – sannleikann. Hver og einn þátttakenda reynir að fegra sinn hlut. Verktakinn – Orri Huginn Ágústsson, sem sýnir á sér nýja og spennandi hlið í hverju verkinu á fætur öðru – bankastýran Sara Dögg Ásgeirsdóttir, sem kemur á óvart með ýkjulausum en hnitmiðuðum leikstíl, athafnamaðurinn – Atli Rafn Sigurðsson, flott týpa, og jafnvel björgunarsveitarmaðurinn og skátadrengurinn, Guðjón Þorsteinn Pálmarsson, sem reyndi undir drep að sannfæra Matthildi með einlægni og bláum augum um sakleysi sitt – fara með utanaðlærða rullu sína, þegar þau eru krafin sagna um gildismatið, sem ráði athöfnum þeirra og framkomu við annað fólk. Við könnumst við klisjurnar úr auglýsingasmiðju almannatengslanna: heiðarleiki, jákvæðni, frumkvæði, traust, ábyrgð – you name it, they´ve got it.
En hvernig getur þá heilt þjóðfélag hrunið til grunna, ef þau sem þar ráða húsum, eru þvílíkt fyrirmyndarfólk? Dæmið gengur ekki upp. Yfirheyrslurnar leiða í ljós, að veruleikinn, sem undir býr, er allur annar: Skátadrengurinn, sem gætir „dauðatjaldsins“ á útivistarhátíðinni, er áráttunauðgari. Bankastjóraskvísan, sem brosir breitt á flatskjá sýndarveruleikans, er í reynd hömlulaus glyðra og barnamorðingi. Stórverktakinn, sem byggði fimmtán þúsund manna úthverfi með forljótum húskumböldum , þar sem stofuglugginn snýr upp í urð og grjót og svalirnar breiða úr sér móti norðannæðingnum, já – verktakinn, sem lætur verkin tala, endurspeglar um leið sinn innri mann, óhrjálegan hugleysingja á flótta undan þeim, sem fjarstýra honum.
Loks tekur til máls hinn bísperrti og sjálfumglaði athafnamaður, sem er, að eigin áliti, hátt yfir alla hafinn. Þarna stendur á sviðinu þetta íslenska „übermensch“ – sem Atli Rafn leikur af ótrúlegum krafti og tilþrifum – og forseti lýðveldisins hóf til skýjanna í veisluræðum sínum með þotuliðinu innan lands og utan. Sagði hann ekki í einhverri lofræðunni, að það yrði að breyta námskránni við viðskiptaháskóla austan hafs og vestan til þess að skapa rými fyrir útrásarvíkinginn íslenska, til þess að hugdirfð hans, áhættusækni og skjótræði fengi sess við sitt hæfi?
Athafnaskáldið, sem þarna birtist okkur á sviðinu, er eins konar krossblendingur af Jóni Ásgeiri, Björgólfi Thorsara og Hannesi „assetstrippara“ í einni og sömu persónunni. Ræða hans var lofsöngur um dirfsku, áræði, þor og kjark yfirburðamannsins, sem bönd meðalmennskunnar ná ekki að hefta. Ekkert fyrirlítur hann eins heitt og innilega og „Evrópureglugerðaniðurnjörvaðahommatittinn.“ Sjálfur er hann holdgervingur úrvals tegundanna, dáðadrengur af skóla Darwins. Kraftbirtingarhljómur hans er ómótstæðilegur. Atorka hans leysir úr læðingi hið ómótstæðilega afl – eins og þau segja, Gunnar í Krossinum og Jónína Ben – um sjálf sig í einhverju glassúrviðtalinu.
Þarna er loksins komin fram hugmyndafræðileg skýring á ógæfunni. Árásargirni mannsins, sem leyst hefur verið úr viðjum (reglugerða og eftirlits), sem auðvitað er ættað frá Evrópusambandinu. Það er sumsé testosterónið, karlmennskuhormónarnir, sem allt ætlar lifandi að drepa. Það er sennilega ekki tilviljun, að orðið „að ríða“ streymir oftar af vörum leikendanna en ég fæ tölu á komið. Það er sífellt verið að ríða og nauðga. Mannskepnan greinist bara í tvær tegundir: Böðla og fórnarlömb. Birtist okkur þarna hin feminiska lausn á vargöld hins hrunda karlveldis? Munu þær loksins koma okkur til bjargar, Magga Thatcher, Ímelda Marcos eða frú Bandaranaike, svo nefndar séu bara örfáar valkyrjur úr samtímanum? Að öllu gamni slepptu, er það reynar umhugsunarefni, að í þessu leikverki, sem samkvæmt leikskrá tekur eina klukkustund og tuttugu mínútur að sýna, örlar vart á húmor, sem gæti gefið til kynna margræði mannskepnunnar. Jú, að vísu einu sinni, þegar einn sakborninga taldi fótbolta fram til síns gildismats.
Á Finnlandsárum mínum kynntist ég rúmenskum flóttamanni, sem hafði mátt þola ofsóknir, pyndingar og harðræði af hendi leyniþjónustu Ceausescus á tímum ógnarstjórnar kommúnista þar í landi. Eftir fall einræðisherrans tók þessi maður höndum saman við önnur fórnarlömb ofbeldisins með kröfu um, að böðlar valdstjórnarinnar, sem höfðu ótal glæpi á samviskunni, yrðu dregnir fyrir rétt og látnir sæta ábyrgð fyrir ódæðisverk sín. En þegar þessum kröfum tók að vaxa fylgi meðal almennings voru gömlu kommúnistarnir aftur komnir til valda, bæði í stjórnmálum og viðskiptum. Bara í nýju gervi. Að lokum var sæst á það til málamynda, að skipuð yrði eins konar sáttanefnd (og vitnað í Suður- Afríku til hliðsjónar), sem átti að gefa mönnum kost á að koma fram og játa misgjörðir sínar, gegn sakaruppgjöf. Það segir svo allt sem segja þarf um framkvæmdina, að formaður sáttanefndarinnar hafði á seinustu dögum einræðisherrans verið aðstoðarframkvæmdastjóri leyniþjónustunnar. Þar með sá þessi vinur minn sína sæng út breidda og flúði land. Böðlarnir hafa aftur náð völdum í Rúmeníu. Þeir hafa ekki hingað til séð neina ástæðu til að játa glæpi sína (það er kallað að „ýfa sárin“). Þeir hafa bara skipt um grímur.
Vitringarnir þrír, sem eiga að segja íslensku þjóðinni sannleikann um það, hverjir báru ábyrgð á hruni þjóðfélagsins og þeim harmkvælum, sem einstaklingar og hópar hafa mátt þola af þeim sökum, eiga að skila af sér nokkrum dögum eftir páksahátíðina. Munu þeir segja sannleikann? Eða munu þeir láta nægja að birta okkur svokallaða stjórnsýsluúttekt, þar sem bannorðum fjármálaheimsins verður hagrætt í því skyni að hylma yfir það brogaða sálarlíf, sem að baki bjó? Þá reynir á, hvort þeir sem sýnast „hið ytra réttlátir í augum manna, en eru hið innra fullir hræsni og ranglætis“, – sleppa með skrekkinn. Verður allt eins og var, rétt eins og í Rúmeníu?
Í Silfri Egils í dag vakti sálfræðingur athygli á því, að nú er svo komið í þjóðfélögum á Vesturlöndum, „að börn eru alin upp af atvinnumönnum“. Þetta er nýtt í mannkynssögunni. Hingað til hafa foreldrar verið að bjástra við þetta uppeldishlutverk, með misjöfnum árangri, eins og sagan sýnir. En ekki hefur það batnað með atvinnumönnunum – eða hvað? Hvað segir það okkur um gildi kerfisuppeldis og langrar skólagöngu? Ef hinum siðblindu er lyft á stall til æðstu valda í svokölluðum lýðræðisþjóðfélögum samtímans, hvað segir það okkur um lýðinn? Og um lýðræðið? Ef veruleikinn er orðinn svo skrumskældur, að almenningur hefur glatað trúnni á mátt sannleikans til að gera okkur frjáls, hvert á hann þá að leita? „Hver vill fara í leikhús til að upplifa aftur harmleik hversdagsins?“ – spyr Andri Snær. Enginn, trúi ég. En til þess að sjá samtímann undanbragðalaust í spegli? Jú, hvert eigum við svo sem að leita annað en í leikhúsið, meðan við bíðum eftir vottorði vitringanna?