Stræti Nemendaleikhússins: Rafmagnað loftið

Nemendaleikhúsið frumsýnir: STRÆTI eftir Jim Cartwright

Leikstjóri: Stefán Baldursson
Leikmyndahönnun: Vytautas Narbutas
Búningahönnun: Filippía Elísdóttir
Ljósahönnun: Páll Ragnarsson og Björn Bergsteinn Guðmundsson
Búningavinnsla: Sólrún Ósk Jónsdóttir
Leikgervi: Sóley Björt Guðmundsdóttir

Leikendur: Anna Gunndís Guðmundsdóttir
Hilmar Guðjónsson
Hilmir Jensson
Lára Jóhanna Jónsdóttir
Svandís Dóra Einarsdóttir
Þórunn Arna Kristjánsdóttir
Ævar Þór Benediktsso


Listaháskóli Íslands

Það var rafmagnað loftið í gömlu smiðjunni við Sölvhólsgötu á laugardagskvöldið, þar sem Leiklistarskóli ríkisins nýtur skjóls við skemmtilega frumstæðan aðbúnað. Eitthvað svona bóhemskt og aðlaðandi. Leiksýningin var rétt að hefjast. Ungar fallegar stúlkur, allt nemendur úr skólanum væntanlega, afhentu miða og töldu í sætin. Leikritið Stræti – eftir breska rithöfundinn Jim Cartwright – prófstykkið sjálft – var að hefjast.

Ekkert virtist til sparað. Einum virtasta leikstjóra landsins og fyrrverandi Þjóðleikhússtjóra, Stefáni Baldurssyni, hafði verið trúað fyrir stjórn verksins. Vitautas Narbutas, listmálaranum ástríðufulla frá Lithaugalandi, sem hefur fært okkur nær straumum og stefnum gömlu Evrópu með innblæstri sínum á undanförnum árum, annaðist rammann um fólkið í strætinu í samvinnu við Filippíu Elísdóttur, fatakúnstner með ofurnæmt auga og frumlegan smekk.

Og efniviðurinn, grannarnir í götunni (fólkið “í strætinu”), þ.e.a.s. Leikendurnir, voru heldur ekki af verri endanum. Sjö strákar og stelpur, sem maður hefur fylgst með eflast við hverja raun og ættu nú að hafa öðlast næga reynslu til að takast á við verkefni í alvöruleikhúsum, hvar sem er í heiminum.

Og hað er svo um Stræti að segja – með allan þennan frábæra mannskap, leikstjóra, leikmyndahönnuði, leikara og margverðlaunað stykki, sem sló rækilega í gegn seint á níunda áratugnum í London og hefur farið sigurför um heiminn? Það átti ekkert að geta klikkað – en einhvern veginn gekk þetta ekki upp. Kannski var það of langt, of hæggengt eða laust í reipunum. Eða kannski var of lítið gert með hinn hápólitíska þráð verksins, alvöruna, angistina – sem varð til þess, að leikurinn missti marks – sýningin minnti meir á skrautsýningu eða létt geggjaðan söngleik, svona í ætt við Oliver (sem glorifiserar örbirgðina á átjándu öld).

Höfundur dregur upp svipmyndir úr lífi fólks, sem býr við ömurlegar aðstæður og á enga von. Eflaust fólk, sem hann þekkir af eigin raun og kemur til skila á skýran og skáldlegan hátt – því að Cartwright er skáld gott. En svo ekkert meir. Fólkið hverfur af sviðinu og snýr ekki aftur. Það er engin saga sögð. Bara leifturmyndir. Ég hafði áhuga á að vita, hvað varð um flókið samband mæðgnanna, sem birtust okkur í upphafi. Það var söguefni. Eða gamla hermanninn, sem lifði enn í minningum stríðsáranna, þegar allt var svo gott og svo fallegt! Já, og gömlu konuna, sem líka lifði í minningum, en átti ekki fyrir mjólk út í kaffið, þegar hér er komið sögu. Eða Búddistann, hermanninn og gleðikonurnar, sem komu og fóru, engilfagrar og eggjandi. Hver var þeirra saga?

Kannski hefði Stefán átt að stytta verkið, því að þrír tímar eru langir í leikhúsi. Mér finnst til dæmis, að hann hefði að ósekju mátt sleppa atriðinu um hungurstrækuna. Skilaboð þeirrar senu hafa á sínum tíma verið hápólitísk og áhrifamikil, en þó að íslenska þjóðin sé farin að kenna á atvinnuleysinu, þá eigum við langt í land með að skilja örvæntinguna að baki þeirri ákvörðun. Þó að Ævar Þór sé frábær leikari, sem er jafnvígur á grín og alvöru, og þó að einlægni Önnu Gunndísar hafi snortið hvert hjarta, þá var þetta þeim ofviða og eiginlega ósanngjarnt að leggja þetta á herðar svona ungu fólki.

Önnur atriði hefði líka mátt stytta og skerpa. Þó að lokaatriðið væri ótrúlega fallegt, einlægt og vonbjart í meðförum þeirra Hilmars, Ævars Þórs, Þórunnar Örnu og Láru Jóhönnu, þá var það óþarflega langdregið.

Hilmir Jensson er flott strákur, ísmeygilegur hæfileikamaður og hefur sannað það hvað eftir annað. Í hlutverki Scullerys er hann þó kannski of einum of glæsilegur til að vera sannfærandi örlagafyllibytta úr fátækrahverfi. Góður, en of léttvægur fundinn, því að Scullery er líka partur af pólitískri ádeilu höfundar.

Sömuleiðis vændiskonurnar, þær Anna Gunndís og Lára Jóhanna, en þær voru svo glæsilegar á sviðinu, að hver sá ritstjóri tískublaðs, sem hefði óvart villst inn í þetta ólukkans hverfi, hefði samstundis borgað þeim fúlgur fyrir að vera á forsíðu. En svokallaðar gleðikonur fátækrahverfanna eiga hins vegar ekki mikinn séns í lífinu.

Ekki má gleyma að geta dívunnar Svandísar Dóru. Atriðið með henni og Hilmari Guðjónssyni í hlutverki litla, sæta, fulla hermannsins var óborganlegt og líklega eitt besta atriði sýningarinnar.

Útskriftarnemendurnir eru sjö en hlutverkin í Stræti eru tuttugu og sjö – sem þeir skipta með sér. Flest eru hjá Hilmari en fæst hjá Hilmi – aðeins eitt, enda er Scullery, sá sem heldur í alla þræði og er stöðugt á sviðinu. Það hlýtur að vera mikill hamagangur í öskjunni baksviðs, því að skiptingar eru örar og gervin síbreytileg. Sóley Björt Guðmundsdóttir á hrós skilið fyrir sannfærandi gervi, sem draga fram ólíka karaktera hvers og eins. Búningarnir eru fjörlegir í anda Filippíu og falla vel að dramatískri og þungbúinni umgerð listamannsins frá Lithaugalandi, sem teygir sig út í hvern krók og kima rýmisins.

Útskriftarnemendur Listaháskóla Íslands standa á tímamótum. Æðisleg ár að baki, lærdómsár, þar sem þau hafa notið tilsagnar bestu manna og kvenna, þar sem þau hafa öll verið í aðalhlutverkum og hafa getað baðað sig í sviðsljósinu dag eftir dag. Lífið snerist bara um þau og leiksviðið. Nú eru þessir dagar að baki. Hvað tekur við? Sum eru kannski komin á samning, en önnur ganga út í óvissuna með bjartsýnina eina að vopni. Nú fá þau ekki lengur að ráða verkefnum sínum sjálf, heldur verða að taka hverju því, sem í boði er. Það er hlutskipti flestra leikara – eða kannski okkar allra í lífinu. Manni finnst þó einhvern veginn, að þessum krökkum hljóti að standa allar dyr opnar, slíkt er andlegt fjör þeirra og metnaður. Farvel.