Hænuungarnir
Hefur þú nokkurn tíma komið inn í útrýmingarbúðir kjúklinga – fiðurfjárgúlag? Ég lenti í því einu sinni vestur í Bandaríkjunum og það líður mér ekki úr minni. Af hverju minnti þetta mig svo sterklega á dauðafabríkkur Hitlers eða þrælabúðir Stalíns – meira þó Hitlers, því að þetta var allt svo vísindalegt. Allt sterilíserað í hólf og gólf, hvítir læknasloppar, plastsmokkar yfir skófatnaðinn og andlitsgrímur fyrir vitum.
Og svo var það kerfið sjálft. Endalaus færibönd, þar sem fórnarfóstrin liðu áfram frá klaki útungunarvélarinnar að sjálfvirkum stútum, sem þröngdu fóðrinu ofan í kokið – allt vísindalega útreiknað til að ná fram hámakrsholdgun á sem skemmstum tíma. Kerfið var skynsamlegt. Þeir töluðu um framleiðni og framlegð. Það var ekkert minnst á dýravernd. Þeir hefðu báðir verið í essinu sínu þarna, Hitler og Stalín. Ég sór þess dýran eið á sínum tíma, að aldrei skyldi óhroði af þessu tagi koma inn fyrir mínar varir eftirleiðis. Það er svo til marks karakerleysi mitt og mannskepnunnar, að þegar barnabörnin heimta Burger King, þá læt ég undan mótþróalaust – en skammast mín samt.
Hvað kemur þetta málinu við? Jú, sjáðu til: Hænsnabúið er mannfélagið í hnotskurn. Það stjórnast af sömu lögmálum um framleiðni og framlegð – eins og það heitir – og mannfélagið. Hversdagslegt argaþras Jóns og Gunnu, án upphafs og endis og út og suður, minnir á fátt annað fremur en gargið í hænsnfuglinum, sem verið er að leiða til slátrunar. Og mannfólkið er líka alið á sínu andlega ruslfæði í gegnum forheimskandi fjölmiðlafár frá vöggu til grafar. Hver og einn er innilokaður í sinni músarholu og sér fátt út fyrir hana. Icesave-ruglið sem hefur verið matað ofan í okkar afvegaleiddu þjóð, er dæmisaga úr veruleikanum um nákvæmlega þetta – smjörklípa handa lýðnum.
Hænuungar Braga Ólafssonar eru ísmeygileg dæmisaga úr samtímanum. Þetta er listilega samið leikhúsverk. Loksins kemur fram á sjónarsviðið höfundur, sem virðist kunna á sjálft leihúsið – sjálfan galdurinn. Söguefnið gæti ekki verið hversdagslegra. Grunur leikur á um, að kjúklingum (sem keyptir vorum með 40% afslætti) hafi verið stolið úr frystikistu í sameign í blokk. Það er haldinn húsfundur um málið. Á meðan blokkarbúar blaðra endalaust um meintan glæp, læðast þjófarnir inn og stela því, sem verðmætast er í eigu íbúanna – flatskjánum og tölvunni. Það kemur meira að segja á daginn, að plöturnar sem jassgeggjarinn keypti ásamt kunningjum sínum í Kolaportinu um daginn, voru stolnar. Lögreglan boðar komu sína til að sækja þýfið. Sigurhans reynir að stinga a.m.k. Einn þeirra – var það með Charlie Parker eða Þeófílíusi Monk – inn á sig. Little things mean a lot.
Þetta er allt og sumt. En úr þessum – á yfirborðinu lítilfjörlega efnivið – er búið til magnað leikhúsverk, þar sem höfundur og leikendur spila á tilfinningar leikhúsgesta, þannig að við tökum ýmist bakföll af hlátri, kumrum innra með okkur yfir tvíræðri fyndni samtalsins, eða nánast tárumst yfir afkáralegri heimsku sögupersónanna. Öllu þessu nær höfundurinn, Bragi Ólafsson, fram með kúnst samtalsins á sviðinu. Þar við bætist, að persónusköpunin er útsmogin og leikararnir, allir sem einn, glæða persónurnar lífi og lit á sviðinu.
Húsfundurinn er þjóðfélagið. Spurningin er: Hver stal kjúklingunum? Feðgarnir í næstu íbúð, sem lifa fyrir flatskjáinn, liggja undir grun. Samt er ýmislegt annað gefið í skyn. Í símtali sonarins við móður sína vakna grunsemdir um, að einmitt hann hafi stolið kjúklingunum til að fá fyrir dópí til að njóta með dræsunni uppi á lofti. Þarna er allt saman komið í einum punkti: Það sem leifarnar af íslensku þjóðfélagin hefur snúist um í meira en ár – og ætlar engan endi að taka. Munurinn er bara sá, að þessa kvöldstund í Þjóðleikhúsinu getum við hlegið okkur máttlaus yfir aumkunarverðri heimsku mannskepnunnar, umkomuleysi hennar og hjálparvana getuleysi frammi fyrir örlögum sínum. Rétt eins og tíðkast í hænsnahúsum.
Ég er ekki frá því, að samtöl blokkarbúa á húsfundinum sé kannski það besta sinnar tegundar, sem ég hef séð á íslensku leiksviði. Kerlingarálftin, hún Elín Ragnheiður Rosenthal (Krístbjörg Kjeld) ætlaði okkur lifandi að drepa með fáfengilegu blaðri sínu um Rússagrýlur og gamlar sálir – allt var það út úr kú – en gert með þvílíkum tilþrifum, að leitun er að betra absurd teater. Það eina sem snart mig ónotalega, hafandi búið í þrjú ár með Finnum – var að Vetrarstíðið – sem gerði Finnum kleift að lifa af – er heilagt í þeirra hug og hjarta, og má ekki hafa í flimtingum.
Leikstjórinn, Stefán Jónsson, vinnur hér listrænt afrek. Samstarfsfólk hans, Börkur Jónsson (leikmyndin), Ríkey Kristjánsdóttir (búningahönnuður) og Halldór Örn Óskarsson (ljósameistari) skila öll góðu verki, ekki síst Börkur, en leikmynd hans var afar trúverðug umgjörð um tilveru blokkarbúa – eða ætti ég að segja hellisibúa?
Var einhvern boðskap að finna í þessu öllu saman? Já, hann hljóðar svona úr munni Sigurhans jassfreaks: „Þjóð sem lætur völdin í hendurnar á þjófum og glæpamönnum, hlýtur að gera ráð fyrir, að einhverju verði stolið frá henni.” Einmitt.