Sjöundá Halaleikflokksins: Fyrir augliti Guðs?

Halaleikflokkurinn: Sjöundá byggð á Svartfugli eftir Gunnar Gunnarsson

Leikstjórn: Ágústa Skúladóttir
Leikgerð: Ágústa Skúladóttir, Þorgeir Tryggvason og leikhópurinn
Búningar: Kristín M. Bjarnadóttir
Förðun: Hanna Margrét Kristleifsdóttir
Leikmynd: Einar Andrésson

Leikendur:
Hekla Bjarnadóttir
Margrét Lilja Arnarsdóttir
Daníel Þórhallsson
Gunnar Gunnarsson
Leifur Leifsson
Árni Salomonsson
Björk Guðmundsdóttir
Kristinn Sveinn Axelsson
Gunnar Freyr Árnason
Hanna Margrét Kristleifsdóttir
Þröstur Jónsson
Sóley Björk Axelsdóttir
Guðríður Ólafsdóttir
Kristinn G. Guðmundsson
Einar Andrésson
Einar Melax


Sjöundá

Þegar ég átti heima á Ísafirði í gamla daga, starfaði ég töluvert með Litla leikklúbbnum þar á staðnum. Ég hafði aldrei kynnst áhugamannastarfi áður, en ég áttaði mig fljótlega á því, hvað svona starfsemi hafði mikið félagslegt gildi í bæjarlífinu. Eiginlega gekk það fyrir öllu og risti miklu dýpra en hin listrænu gildi. Fólk af öllum stigum samfélagsins var fúst til þess að rífa sig upp eftir langan vinnudag, í frystihúsinu eða á skrifstofunni, koma saman og rýna í texta um annars konar líf á framandi slóðum, setja sig í spor syndugra manna eða sælla kvenna, fá að hlæja og gráta, syrgja og gleðjast, fá að upplifa eitthvað nýtt og spennandi, kanna mannlegar tilfinningar, sem einhæft lífsmynstur í litlu þorpi bauð ekki upp á svona hvers dags. Þannig kom mér þetta fyrir sjónir. Það skipti ekki máli, hvaða verk var verið að fást við, heldur hvernig hópurinn náði saman og skemmti sér. Áhorfendur voru aukaatriði, eitthvað sem kom óvænt upp úr kassanum, eins og rúsína í pylsuendann.

Þetta rifjaðist upp fyrir mér, þegar ég sat í Sjálfsbjargarhúsinu í Hátúni í gærkvöldi og naut þess að fara í ferð með hugsandi fólki gegnum eitt af höfuðverkum íslenskra bókmennta – Svartfugl eftir Gunnar Gunnarsson. Sú bók er stundum sögð vera fyrsta íslenska glæpasagan. Halaleikflokkurinn hefur kosið að kalla verkið Sjöundá, þar sem Eyjólfi Kolbeinssyni, sögumanninum, er ýtt til hliðar og aðaláherslan er lögð á hið hryllilega morðmál, þar sem hamslaus ást milli karls og konu leiðir þau til glötunar. Að lokum standa karl og kona frammi fyrir sínum æðsta dómara “Guð veit og þú veist. Guð býr í hjarta þínu, þetta er ykkar í milli” , segir kapelláninn við Bjarna. Bjarni og Steinunn eiga engra kosta völ, þau geta ekki lifað með glæpnum – þau játa. Manni varð ósjálfrátt hugsað til okkar eigin tíma og dómsmálanna framundan.

Ágústa Skúladóttir, leikstjórinn, hefur kosið að halda sig við texta Gunnars, sem er vel, því að saga er ekki saga, nema hún sé vel sögð. Texti Gunnars er mergjaður á köflum – og eins og segir í prógramminu – safaríkur. Halaleikflokkur ræðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur, eins og áhugleikflokkum hættir til, heldur skelllir sér í ferð, sem er bæði áhættusöm og erfið. Eflaust hefðu þau aldrei komist klakklaust úr þessari ferð, nema vegna öruggrar og fagmannlegrar leiðsagnar Ágústu, sem hefur stjórnað eftirtektarverðum sýningum á undanförnum árum. Hún veit um áhættuna, en stýrir sínu liði fram hjá krók og keldu. Hún lætur leikendur flytja textann án þess að dramatísera hann um of. Enda er það of mikil áhætta fyrir ófaglært fólk. Gæti snúist upp í væmni. En flutningur er skýr og hnökralaus, hvert orð heyrist, jafnvel þótt fólk snúi baki í áhorfendur (sem er óhjákvæmilegt í þessu litla en langa rými í Sjálfsbjargarhúsinu). Það er greinilegt, að leikstjórinn hefur lagt mikla áherslu á góða framsögn og raddbeitingu, og það er þess vegna sem sýningin heppnast svona vel.

Mér fannst samtal Eyjólfs kapelláns við hin grunuðu, áður en dómur fellur, besti kafli sýningarinnar, enda rís frásagnargleði og trúarhiti höfundar hæst, þegar þar er komið sögu. Og Daníel Þórhallsson fer með textann af svo mikilli einlægni og sannfæringu, að við lá að ég endurheimti barnatrúna.

Annars standa allir sig með prýði. Það mæðir auðvitað mest á Bjarna ((Þresti Jónssyni) og Steinunni (Sóleyju Björku Axelsdóttur). Það var augljóslega ást við fyrstu sýn. Bjarni horfir inni í himinblá augu Steinunnar, hún lítur ekki undan augnaráði hans. Á augabragði skynjar maður hversu heltekin þau eru af ást – girnd. Eftir þetta verður ekki aftur snúið. Textinn segir allt sem segja þarf og maður skynjar hina lamandi fátækt, sem setur mark sitt á líf alls þessa fólks, öfundina, lítilmennskuna – og óttann, sem voldugar ástríður karls og konu vekja í umhverfinu.

Sýslumaður leikur stórt hlutverk, ekki síður en prestlingurinn – hið veraldlega vald og hið geistlega vald. Gunnar Gunnarsson gerir sér góðan mat úr dæmigerðu yfirvaldi sem allir óttast. Ýkir mátulega, svo að sýsli verður ein eftirminnilegasta persóna verksins. Ég verð líka að nefna Guðríði Ólafsdóttur sem á sterka innkomu í gervi Málfríðar vinnukonu, Hönnu Margréti Kristleifsdóttur, sem leikur sér að því með raddbeitingu og smá trixi að smeygja sér úr einu gervi í annað og svo síðast en ekki síst blómarósirnar ungu, sem segja okkur söguna um Bjarna og Steinunni á Sjöundá. Þær leiða okkur í gegnum verkið látlausar og hógværar. Horfa á atburðina gerast, hafa samúð með Bjarna og Steinunni – eins og við hin – en skilja í lokin að þau verða að gjalda fyrir með lífi sínu.

Mikil vinna er lögð í umgerðina alla, þar með talda lýsingu og klæðnað leikenda. Sem þau Ása Hildur Guðjónsdóttir, Frederike Andrea Hesselmann og Sigvaldi Heiðarsson eru höfundar að. Vinnulúinn og mátulega þæfður vekur fatnaður leikenda athygli og aðdáun. Og ekki má gleyma því, hvað tónlistin gegnir veigamiklu hlutverki í sýningunni. Hún var undirtónninn, fyrirboði þess, sem í vændum var og magnaði spennuna. Gaman að mega njóta á ný hæfileika Einars Melax og félaga hans, Einars Andréssonar.

Hér býr hnípin þjóð í vanda, nýsloppin frá hrunadansi í kringum gullkálfinn, þar sem lífið snerist allt um eftirsókn eftir vindi. Þetta er þjóð í tilfinningalegu uppnámi, hún horfir í forundran á stofnanir þjóðfélagsins, sem hún hefur hingað til tekið sem góðar og gildar, jafnvel borið traust til, en skynjar nú, að þær voru feisknar og fúnar, risu ekki undir nafni. Fólk sem svona er komið fyrir, er spurult og leitandi. Hvað er satt og hvað er logið, hvað eru fölsk verðmæti – hvað er það sem gefur lífinu raunverulegt gildi? Hvert á að leita svara? Hjá stjórnmálaflokkunum? Varla. – Kirkjunni? Varla heldur. – Sértrúarsöfnuðum,( jóga, búdda, tao-che)? Hver veit?

Sem ég geng út af þessari sýningu Halaleikhópsins rifjast upp fyrir mér, að á undanförnum mánuðum hafa leikhúsin hér í bæ boðið upp á verk eftir ekki minni höfunda en Goethe, Gogol, Dante, Strindberg , Max Frisch, Dickens, Laxnes og nú síðast Gunnar Gunnarsson. Það er óvíða hægt að finna betri sálufélaga á viðsjárverðum tímum. Kannski er það eftir allt saman í leikhúsinu, sem við leitum að svörum við sálarháska og tilvistarvanda hins breyska manns.