Ufsagrýlur í Hafnarfjarðarleikhúsinu: Orða vant

Hafnarfjarðarleikhúsið: Ufsagrýlur

Leikstjóri: Rúnar Guðbrandsson
Leikmynd: Móeiður Helgadóttir
Búningar: Myrra Leifsdóttir
Leikgervi: Ásta Hafþórsdóttir
Lýsing: Garðar Borgþórsson
Tónlist/hljóð: Stilluppsteyp


Ufsagrýlur

Hver er þessi Móeiður Helgadóttir? Ég bara spyr. Hún hefur verið að skjóta upp kollinum hér og þar í leikhúsheiminum, en nú ræðst hún ótrauð til atlögu við sjálft skáldið Sjón. Hugrökk ung kona, því að leikritið – þetta fyrsta leikrit, sem Sjón semur í fullri lengd – Ufsagrýlur (fáránlegt heiti) hefur ekki verið árennilegt við fyrsta lestur – hann heimtar heilt geðsjúkrahús á sviðið eða fangelsi í Guantanamo stíl, risastórt gámaskip, óveður á hafi úti, þyrlu sem nálgast með fullfermi. Hefði mátt virðast ógerlegt við ófullkomnar aðstæður í óræðu rými suður í Hafnarfirði.

En þetta leysir hún allt léttilega – og sem meira er, þetta virkar. Í upphafi erum við stödd á geðspítala, þar sem fyrrverandi bankadríslar húka í læstum búrum og eru í endurhæfingu hjá læknavísindunum. Á hæðinni fyrir ofan röflar vitiskertur og útvatnaður bankastjóri – og þegar ég segi röflar, þá meina ég það, eintal hans er í slitrum og óskiljanlegt áhorfendum. En svo erum við allt í einu – án þess að hróflað sé við nokkrum hlut – komin um borð í stórt skip, sem bíður sendingar frá landi – frá Íslandi. Þegar þyrlan nálgast og losar sig við farminn á dekkið, eru hljóð hennar svo sannfærandi, að maður sér hana fyrir sér þarna handan við hornið. Móeiður ber að vísu enga áyrgð á hljóðeffektum, Það gera þeir félagar Helgi Þórsson og Sigtryggur Berg Sigmarsson (Stilluppsteypa) og fara á flug. Rammir tónar í upphafi leiks og vindgnauð á opnu hafi gefur ýmislegt í skyn en uppljóstrar engu. Að ég nú ekki tali um búninga og gervi, sem eru þaulhugsuð og draga fram fáránleikann og vitfirringuna í lífi þjóðar. Myrra Leifsdóttir og Ásta Hafþórsdóttir hafa vandað mjög til verka og mega vera ánægðar með sitt framlag til sýningarinnar. Vil ég sérstaklega nefna gervi Móru yfirlæknis. Af hverju skyldi hún annars tala með þýskum hreim? Er það til að undirstrika skyldleikann við útrýmingarbúðir nasista, sem líka voru undir stjórn læknavísindanna?)Lýsingin með hugviti Garðars Borgþórssonar, er tpæld og gaf myndinni fyllingu.

En hvað er þá um verkið sjálft að segja – þetta fyrsta leikrit eftir Sjón í fullri lengd? Ég ímyndaði mér, að Sjón, sem er maður orðsins, mundi leggja fyrir okkur djúpt hugsaðan texta, og að við þyrftum að fara að pæla, brjóta heilann, vera vakandi fyrir óræðum merkingum orða. En, ó, nei, Sjón hendir textanum og lætur verkin tala. Kannski er veruleikinn svo viti firrtur, að orðin duga ekki lengur til að lýsa honum eða koma til skila neinni merkingu. Raunveruleikinn er oftast ótrúlegri og fáránlegri en nokkur orð geta lýst.

Í hvers konar samfélagi hrærumst við? Erum við ekki komin út á ystu mörk mannlegrar hegðunar? Hvað getur mannskepnan lagst lágt í græðgi og subbuskap? Auðvitað er Sjón – eins og við öll hin – bullandi reiður, fullur af ógeði, fyrirlitningu og vonbrigðum. Og hann finnur engin orð lengur. Í stað þess dregur hann upp óskammfeilnar myndir, sem segja allt sem segja þarf – myndir af drullusokkum og skíthælum, glæpahyski, morðingjum, þjófum og þjófsnautum. Hann gengur af ásettu ráði fram af áhorfendum með viðbjóði og fúlmennsku. Við göngum út með ógleði í maganum – en samt er allt satt, sem hann sýnir okkur á sviðinu. Hann er ekki að ljúga neinu að okkur.

Endanlega snýst allt um gullið. Hvar er gullið að finna? Það er ekki á Tortólu, heldur í iðrum þeirra, sem fyrir löngu eru orðnir af aurum apar. Það leynist í skítnum. Þeir þurfa hægðalyf og stólpípu til að finna aftur hina földu fjársjóði. Þegar gullið hefur gengið niður af þeim, fljótandi innan um skítinn, þá er fundið fé til að hefja endurreisnina. Þá verður allt aftur eins og það var. Ekkert breytist. Er nema von, að höfundinum verði orða vant?

Það er svo mikið úrval góðra leikara á Íslandi, að það sætir furðu. Maður fer í atvinnuleikhúsin, og þar eru allir vel skólaðir – bara með mismunandi sterka áru – og síðan í litlu jaðarleikhúsin, þar sem leikgleðin bætir oft upp það sem á vantar í fagmennsku. En ég gat ekki betur séð – að vísu erfitt undir ufsagrýlugervum – en að þarna væru líka atvinnuleikarar með margra ára reynslu að baki. Nefni ég þar gamla kunningja eins og Árna Pétur, Hjálmar Hjálmarsson og Erling Jóhannesson. Hinn ungi Orri Huginn svíkur engan. Hann hefur alla vega frábæra fysík – datt í gólfið hvað eftir annað og niður stiga án þess að brjóta sig. Stelpunum, þeim Birnu Hafstein og Aðalbjörgu Þóru Árnadóttur, tókst báðum að draga upp skýra mynd af persónum sínum, hinum kvenlega sadista í hlutverki yfirlæknis á endurhæfingarhælinu og hinni aðþrengdu eiginkonu bankastjórans.

Þetta er sem sagt leikrit um kreppuna á Íslandi og heimatilbúnar orsakir hennar. Það er óþol í andrúmsloftinu, það kreppir að á heimilum, í skólum og á vinnustöðum. En – það kreppir ekki að í leikhúsum borgarinnar. Líkt og í Weimar forðum daga hefur kreppan kveikt í fólki, vakið það af værum blundi og sköpunarkrafturinn flæðir í undirdjúpunum sem aldrei fyrr. Rúnar Guðbrandsson, sem hefur haldið Hafnarfjarðarleikhúsinu gangandi árum saman af mikilli bjartsýni og þrautseigju, er ekkert á því að gefast upp. Ufsagrýlur er ekkert stofudrama, það er gróteska og hryllingsbúð, svo sem hæfir efninu. Mér finnst Rúnar hafa sýnt kjark að leggja til atlögu við þetta verk, því að sannleikanum verður hver sárreiðastur og miskunnarlaus – jafnvel brútöl afhjúpun á veruleikanum á upp á pallborðið hjá fáum. Ætli eðlislæg viðbrögð flestra sé ekki að stinga höfðinu í sandinn. Þetta er hins vegar leikhús fyrir þá, sem kjósa fremur að ganga uppréttir.

Ekki láta deigan síga, Rúnar.