Gerpla: Sjálfsmynd þjóðar – í spéspegli

GERPLA í leikgerð Baltasars Kormáks og Ólafs Egils Egilssonar eftir skáldsögu Halldórs Laxness

Leikstjórn: Baltasar Kormákur
Leikmynd Grétar Reynisson
Búningar: Helga I Stefánsdóttir
Lýsing: Lárus Björnsson
Tónlistarstjórn og hljóðmynd: Gísli Galdur Þorgeirsso


Gerpla

Ég man alveg hvar ég var, þegar ég las Gerplu í fyrsta sinn. Það var á sólarströnd í Suður-Frakklandi eitt sumar endur fyrir löngu. Ég var nemandi í Menntaskólanum í Reykjavík, en hafði óvænt fengið styrk til frönskunáms í fríinu. Kennslan fór fram á morgnana en síðdegis fann ég mér stað á ströndinni með Gerplu í hönd. Kennarinn í MR hafði skipað okkur að vera búin að lesa hana fyrir haustið.

Efni bókarinnar féll ekki beint að léttúðugu og daðursfullu lífi á strönd við Miðjarðarhafið. Mér gekk ekki vel að einbeita mér, þráðurinn slitnaði, og þegar á bókina leið, var ég eiginlega orðin hundleið á þessum drambsömu oflátungum, Þorgeiri vígamanni og Þormóði skáldi. Samt verð ég að viðurkenna, að ég hafði samúð með skáldinu, sem var eins og á milli steins og sleggju og gat ekki gert upp hug sinn. Hvort var vænlegra að fara í víking og höggva mann og annan – eða hokra að konum? Er ekki sagt, að margur heimspekingurinn deyi með öðru barni? Býr ekki svipuð hugsun að baki? Og hver er ég að takast á við þetta höfuðverk Halldórs Laxness hálfri öld seinna? Mér hraus satt að segja hugur við því í gær – fyrir frumsýninguna.

Um hvað er annars Gerpla? Háð og spott um Íslendingasögur? Varla. Ádeila á kjarnorkuvá kalda stríðsins, þar sem vestrið og austrið mættust, grá fyrir járnum í nafni hugsjóna, sem áttu að réttlæta útrýmingu alls sem er? Kannski. Vissulega er Gerpla um stríð og frið. Hún er um ýkta karlmennskuímynd – sem er tortímingarafl – í samanburði við lofsungin kvenleg gildi – tákn búsældar, friðar og hamingju.

En er hún ekki líka bara um skáldið sjálft? Partur af uppgjöri hans við sjálfan sig? Þá er Þormóður skáldið sjálft, en Ólafur hinn helgi (hinn digri) er Jósep Stalín. Skáldið gekk hugsjóninni á hönd og orti sitt konungskvæði – Gerska ævintýrið – og þáði gerska úlfapelsa að skáldalaunum, en mátti um síðir játa, að hugsjónin (kommúnisminn) hafði snúist upp í andhverfu sína, hreina martröð.

Samskipti hirðskáldsins, Þórmóðs, við Ólaf digra – hinn helga í augum aðdáenda – í þesssari leikgerð eru mögnuð. Ræðan sem Ólafur Darri flytur af karlmannlegri raust er ægisterk herhvöt – afhjúpun á fánýti hugsjónarinnar. Og þar með svíkur minnið skáldið – það man ekki lengur – eða vill ekki muna – lofkvæðið, sem það hafði látið sig dreyma um að flytja herkonunginum. Hann grætur eins og barn í örvilnan og eftirsjá.

Svo er eitt enn: kannski er þetta um samskipti skáldsins við þjóð sína og þjóðararfinn. Þá talar Þormóður enn fyrir munn skáldsins, HKL, en Þorgeir , garpurinn, er þjóðin – þjóðararfurinn, þjóðarkarakterinn. Eða öllu heldur sú mynd sem Íslendingar hafa kosið að búa til af sjálfum sér með upphafningu víkingaaldar, þótt veruleiki mörlandans í þúsund ár hafi reynst vera allur annar. Veruleikinn snerist um tilveru kotbænda sem hokruðu að sauðfé og reru til fiskjar í örbirgð og einangrun við ysta haf. Þeir reyndu að bæta sér upp fábreytni hversdagstilverunnar með grobbsögum um afrek forfeðranna í útlöndum. Hirðskáldanna og víkinganna í fornöld, en fjárplógsmanna og bankabraskara á okkar dögum. Það er ekki tilviljun, að banksterarnir eru kenndir við útrás (strandhögg) og víkinga endurborna. Það eru tilbrigði við þetta stef í verkinu, sem minna okkur á hrun lýðveldisins og á bónbjargarmenn, sem leita aftur heim á náðir Noregs. Skipbrotsmenn snúa bugaðir til baka og leita ásjár þeirra sem heima sátu.

Í þessum punkti vekur söguþráðurinn jafnvel upp spurningar um afstöðuna til Evrópusambandsins. Hvert ætla afkomendur víkinga að halda, eftir að hafa steytt á skeri og brotið skip sín í spón? Sú var tíð, að áhrif víkinga teygðu anga sína um alla Evrópu, frá Eystrasalti að Svartahafi og frá Miðjarðarhafi að Atlantshafi. En kannski er það of stórt svið fyrir ættlera víkingaaldar. Kannski er bara best að hypja sig aftur heim til Noregs. Norski fáninn kemur við sögu – svolítil 17da maí stemning frá Karl Johann. Bein skírskotun í raunveruleika dagsins í dag.

Ekki meir um söguna, snúum okkur að verkinu. Það er full ástæða til að óska Baltasar Kormáki til hamingju með magnaða sýningu, sem heldur manni föngnum frá upphafi til enda. Baltasar og Ólafur Egill, höfundar leikverksins, hafa kosið að skipa Þormóð í öndvegi. Atburðarás verksins hverfist um hann og baráttu hans við sjálfan sig og kenjótt öfl tilverunnar. Þormóður stígur fram sem sannfærandi persóna, vekur samúð og forvitni.

Björn Thors, í hlutverki Þormóðs, nýtir sér flókinn karakter hans, svo að úr verður ógleymanleg manneskja. Grannur og útlimalangur, með stór barnsleg augu, verður hann svo hjálparvana og væntumþykjulegur, að hann snertir streng í brjóstum kvenna – og kannski karla. Það er gaman að vera búin að fá til liðs afkomanda einhverrar ástsælustu leikkonu Íslands, Helgu Valtýsdóttur. Hún er eins og endurborin í þessum sonarsyni sínum.

Þorgeir Hávarsson, hetjuhugsjón skáldsins holdi klædd, er tilkomumikill og eftirminnilegur í meðförum Jóhannesar Hauks Jóhannesarsonar. Hann er bara ekki sú manngerð, sem vekur samúð kvenna – er heldur vitgrannur og ofstopafullur til þess.

Sumir leikenda þurfa að bregða sér í fleiri en eitt hlutverk, en engu að síður er hver karakter skírt mótaður, fylginn sér og sannfærandi. Vil ég þar nefna Stefán Hall, sem vakti strax athygli, Ólaf Egil og Atla Rafn, sem smeygðu sér léttilega úr einu hlutverki í annað. Sindri Birgisson í hlutverki Kolbaks hins írska þræls, sem að lokum tekur við ástum kvenna og búsforráðum, er ómissandi andstæða við hina norrænu hetjuhugsjón vígamannsins og skáldsins. Þeir fyrirlíta hið hversdaglega bardús hinnar friðsamlegu tilveru búandkarla. En það er þrællinn og afkomendur hans ,sem lifa af eftir að báðir, hetjan og skáldið, hafa mætt örlögum sínum og farið sér að voða. Bardagasenan milli skáldsins og þrælsins, ástmanna heimasætunnar í Ögri, var hreint út sagt listilegt sjónarspil.

Mér varð líka starsýnt á kvenfólkið, þær Brynhildi Guðjónsdóttur, sem er hreint ótrúlega akróbatísk og fjölhæf, Ilmi Kristjánsdóttur, sem var hrífandi látlaus í hlutverki Þórdísar Kötludóttur, og Ólafíu Hrannar, sem stal senunni hvað eftir annað með sterkum innkomum. Það reyndi minna á Lilju Nótt, en hún kom samt mjög vel fyrir. Fyrir Baltasar er aðeins besta fólkið nógu gott. Ólafur Darri var mjög skörulegur í hlutverki Vermundar goða, en beinlínis magnaður í hlutverki Ólafs konungs Haraldssonar.

Þessi sýning er mikið sjónarspil – sjónhverfingaspil vildi maður heldur segja. Sviðsmyndin er mjög látlaus í grunninn. Þægileg lýsing flæðir um svæðið, en kastljósi beint að þeim sem orðið hafa hverju sinni. Einn kunnuglegur klettur rís upp fyrir miðju, annars ekkert. En eins og hendi sé veifað ferðumst við frá einum stað í annan, inn í Djúp og norður á Strandir, um borð í skip eða í bústaði höfðingja og kotbænda. Búfénaður, hross, sauðfé og gaggandi hænur birtast manni ljóslifandi á sviðinu. Menn heyja einvígi, rífa hver annan á hol, höggva hausa frá búkum, blóðið rennur – og allt eru þetta sjónhverfingar, bara leikendur sjálfir, sem bregða sér í ólíkustu gervi og draga okkur á tálar.

Maður hrífst af hugmyndaauðgi, fagmennsku, litadýrð og fegurð – oft óskar maður þess, að leikurinn stöðvist og að maður fái að njóta myndarinnar á sviðinu ögn lengur. Það er engu líkara en að Baltasar hafi fengið allt það besta frá foreldrum sínum, skúlptúristanum og málaranum. Uppstillingar eru ægifagrar, byggðar upp eins og málverk eða skúlptúr. Til dæmis myndin af Kristi á krossinum – maður greip andann á lofti.

En auðvitað er Baltasar ekki einn að verki. Í þessu málverki birtast líka hugmyndir og hæfileikar leikmyndarhöfundar, Grétars Reynissonar, búningahönnuðar, Helgu I. Stefánsdóttur og ljósameistara, Lárusar Björnssonar – og ekki má gleyma tónlistarstjóranum, Gísla Galdri. Frábær sveit, sem sem hefur í samráði við leikstjóra þaulhugsað hvert atvik og hvern smáhlut. Allt gert af miklu listfengi og alúð og fellur saman í eina ljúfa litasinfóníu.

Af framansögðu má ráða, að ég er stórhrifin af þessari margræðu og listfengu sýningu. Samt verður ekki hjá því komist að finna að einu mikilvægu atriði – raddbeitingu og framsögn leikaranna, flestra hverra, er stórlega ábótavant. Þetta er þeim mun verra sem galdur tungutaksins í texta Laxness er aðalsmerki sögunnar. Það er því mikið sem fer forgörðum, þegar málsnilldin týnist í veikradda tuði – stundum þegar síst skyldi. Þetta er sérdeilis óboðlegt, þegar leikarinn mælir í bundnu máli. Hefði ekki verið ráð að þýða kiljönskuna yfir á auðskilið nútímamál og rappa það af fullum raddstyrk út í salinn?

Leikendur eru látnir tala út í vængina eða jafnvel uppsviðs með þeim afleiðingum, að hljóðið berst ekki fram í salinn, nema viðkomandi sé mjög raddsterkur frá náttúrunnar hendi og hafi mikið volume – eins og til dæmis Ólafur Darri og Ólafía Hrönn. Mér finnst, að leikstjóri geti hugsanlega bætt úr þessu með því að minna fólk á að tala fram í salinn. Það þarf hins vegar lengri tíma til að bæta framsögn og auka styrk raddarinnar. Það er eitthvað sem leiklistarskólar verða að taka til athugunar.

Ég sagði í upphafi, að mér hefði hrosið hugur við að þurfa að skrifa leikdóm um þetta erfiða verk Halldórs Laxness, Gerplu, en þegar öllu er á botninn hvolft, þá hafði ég ekkert að óttast. Þetta leikverk – sem á eflaust eftir að öðlast sinn eigin tilverurétt, aðskilið frá bók Halldórs Laxness – er svo auðskilið, svo skemmtilegt, fyndið, andríkt og einfalt, að ég óska þess heitast, að allir landsmenn megi njóta og læra af. Megi það lifa lengi á fjölum Þjóðleikhússins og verða því lyftistöng í framtíðinni.