Óliver!
Þó að mér hafi ekki enn tekist að skilja, hvernig Selmu Björnsdóttur, tókst að sannfæra Þjóðleikhússtjóra um, að hundgamall söngleikur, sem búið er að teygja og toga árum saman endalaust í útvarpi, sjónvarpi, leikhúsum og kvikmyndasölum um alla heimsbyggðina, skyldi verða jólasýning hér uppi á Íslandi eina ferðina enn, þá verð ég að viðurkenna, að ég dáist að fagmennsku, vandvirkni, smekkvísi og krafti þessarar ungu konu, sem lætur sér greinilega ekki allt fyrir brjósti brenna. Það er töggur í Selmu Björnsdóttur og full ástæða til að byrja á því að óska henni til hamingju með fjörlega og vandaða sýningu.
Skyldu þær hafa valið Oliver Twist, af því að nú er kreppa á Íslandi? En nota bene, kreppa er bara tímabundið ástand, sem varir ekki að eilífu – vonandi. Líf fátæklinga í göturæsum stórborga nítjándu aldarinnar var varanlegt ástand. Það voru örlög meirihluta þjóða. Enn voru engar almannatryggingar komnar til sögunnar, engin samárbyrgð, engin von. Það var ekkert þjóðfélag til, (eins og Maggie Thatcher komst eitt sinn að orði) – bara einstaklingar, hver fyrir sig.
Það var örfámenn yfirstétt, sem fæddist með silfurskeið í munninum. Auðurinn var geymdur í bankahólfum, í landaeignum eða í skartgripum. Hann gekk i arf. Peningarnir uxu á trjánum og lífið var leikur frá upphafi til enda.
Fyrir misskilning lendir Oliver í röngum hópi við fæðingu. Hann er alinn upp á munaðarleysingjahæli og síðan á götunni. Hann kynnist kjörum hinna verst settu – en það var augljóst frá upphafi, að hann tilheyrði ekki. Hann var öðru vísi, háttvís og tillitssamur. Að lokum er misskilningurinn leiðréttur, og hann ratar aftur heim, inn fyrir múra auðs og forréttinda. Og þá er bara spurningin: Hefur hann lært af reynslunni? Mun hann reyna í framtíðinni að rétta hlut smælingjanna, minnugur æskuáranna? Við fáum aldrei svör við þeim spurningum, því að bók Charles Dickens endar, þar sem Oliver snýr aftur í faðm fjölskyldunnar og fær vitneskju um arfinn, sem honum ber.
Við lestur bókarinnar um Oliver Twist grét maður hvað eftir annað ofan í koddann sinn yfir grimmd og miskunnarleysi mannskepnunnar gagnvart þeim, sem minna mega sín og eiga enga málsvara í hörðum heimi. Maður grætur ekki á söngleik, enda er ekki ætlast til þess. Sagan er stytt og einfölduð, flóknir útúrdúrar skornir af og skemmtanagildið sett í öndvegi. Tónlistin, söngurinn og dansarnir eru það sem halda sýningunni á lofti, sagan víkur og verður væmnari á sviðinu en í sögunni, ádeilan dofnar, höfundurinn dólar í bakgrunninum. Niðurstaðan er meira að segja sú, að maður er í lokin ekki viss hvort er meira aðlaðandi – miskunnarlausir og grimmúðlegir undirheimar glæpaklíkunnar eða smáborgaraleg hversdagsveröld yfirstéttarinnar. Söngleikurinn er saminn níutíu árum eftir dauða Dickens, þannig að höfundur hafði löngu fyrirgert rétti sínum til áhrifa. En hefði hann sætt sig við það að láta valta yfir boðskap bókarinnar og þynna hana út í ekki neitt?
Það sem hreif mig mest á á sýningunni um Oliver Twist frumsýningarkvöldið voru börnin og framlag þeirra. Það er ótrúlegt, hvað þau voru fagmannleg, frjálsleg, glöð, fim, skýrmælt og tónviss. Það var engu líkara en þau hefðu unnið í leikhúsi frá fæðingu og hefðu að baki áralanga þjálfun. Strax í upphafsatriðinu slógu þau rétta tóninn og eftir það áttu þau hug og hjörtu áhorfenda. Dansarnir voru mátulega einfaldir, en samt þokkafullir, söngurinn bjartur og agaður. Og bara leikgleðin ein og sér var eins og hressandi andvari á þessum síðustu og verstu tímum vonleysis og svartsýni. Ég þekki ekki til Alette Collins, dansahöfundarins, en hún kann greinilega á sitt fólk, veit takmörk þess og spinnur skynsamlega úr hæfileikum þess. Allir fengu að njóta sín, ekki bara börnin, heldur fullorðnir líka. Dansarnir voru augnayndi sýninguna í gegn.
Jóhann G. Jóhannsson hefur unnið árum saman í leikhúsinu og klikkar aldrei. Hinn agaði söngur barnanna segir allt um vandvirkni og metnað Jóhanns í starfi. Og sama verður sagt um framlag hans í gryfjunni, þar sem faldir voru snillingar á flautu og klarínett, fagott og horn, trompeta og básúnur og ég veit ekki meira upp að telja. Auðvitað allir ómissandi og gefandi fólk, bæði fyrir okkur í salnum og á sviðinu.
Næst á eftir börnunum – sem voru stjörnur kvöldsins – langar mig að nefna leikmynd og búninga. Umgerðin getur skipt sköpum um velgengni sýningar. Vytautas Narbutas hefur valið að búa Oliver natúraliska leikmynd, sem endurspeglar umhverfi og tíðaranda á öld Dickens. Hann nýtir sér hringsviðið skynsamlega, þannig að skiptingar er snöggar og einfaldar. Í bakgrunni er brugðið upp margvíslegu myndefni, sem flikkar upp á sýninguna. Leikmyndin og lýsing Lárusar Björnssonar og Ólafs Ágústs Stefánssonar spila skemmtilega saman. Afkimar stórborgarinnar, sem hýsa dreggjar mannlífsins, þjófagengi, hórur og misyndismenn, allra handa, virkar eins og spennandi ævintýraveröld í samanburði við formfasta en daufgerða umgjörð betri borgaranna. Svona fegrar söngleikurinn sorann, en slævir boðskap höfundar í leiðinni.
Ekki má ég gleyma að geta búninganna hennar Maríu Ólafsdóttur, sem voru aldeilis í takt við umgerðina, bæði í litum og að gerð – hún vék í engu frá hefðbundinni notkun tweed ullarinnar að breskum sið. Maður gat ekki slitið augun af smekklegu litavali í búningum margra kvennanna, sem voru hver annarri eftirminnilegri, jafnvel í smáhlutverkum.
Það þriðja sem mig langar til að nefna er leikur Eggerts Þorleifssonar í hlutverki hins fræga Fagins. Fagin er skúrkurinn í verkinu sem notfærir sér neyð munaðarlausra barna til misyndisverka. Hann gerir þau út til að ræna vegfarendur og liggur síðan á ránsfengnum eins og ormur á gulli. (Í rauninni var Fagin ekki persóna í skáldsögu heldur þekktur maður samtíma höfundi. Uppljóstrun um starfsemi hans í miðborg Lundúna var mikill skandall á sínum tíma).
Eggert hefur um árabil verið einn helsti gamanleikari þjóðarinnar og nýtur mikilla vinsælda sem slíkur. En Fagin er ekki bara grínpersóna. Hann er margslunginn og flókinn karakter. Djúpt í vitund hans bærist óvænt mennska, sem hlýtur að vera ögrandi fyrir hæfileikaríkan leikara að fást við. Eggert tekst með sköpunarkrafti sínum að vekja samúð með skúrknum, jafnvel aðdáun. Það er ekki laust við, að maður finni til, þegar hann í óðagoti glutrar niður öllu þýfinu, sem átti að verða honum lífeyrissjóður í umkomulausri elli. Eggert hefur mjög góða fysík, eins og sagt er, sem hann nýtir til fulls í átökum sínum við skúrkinn. – Og svo syngur hann eins og engill! Klezmer söngurinn hljómaði seiðandi og ekta.
Það eru tveir strákar, sem skipta með sér hlutverki Olivers, þeir Ari Ólafsson og Sigurbergur Hákonarson. Því miður hef ég bara séð annan þeirra leika, Ara Ólafsson, en ég efast ekki um, að Sigurbergur sé líka fallegur , ljúfur, ljóshærður og lagvís eins og Ari. Ari hefur undurfagra rödd, sem á augabragði tekst að bræða hvers manns hjarta og heilla konur upp úr skónum. Alla vega tókst honum það samstundis á sviðinu í Þjóðleikhúsinu. Þær Nansý, öðru nafni Vigdís Hrefna Pálsdóttir, og Beta, öðru nafni Ólöf Jara Skagfjörð, féllu fyrir Oliver við fyrstu kynni og reyndust honum sannir vinir, þegar á reyndi. Þetta eru viðkunnalegar stelpur, syngja og dansa eins og þær hafi aldrei gert annað, og má eiginlega segja, að Vigdís Hrefna hafi slegið í gegn í sínum rauða kjól, glæsileg og sjálfsörugg. Og það er varla hægt að geta Nansýar án þess að nefna Bill Sikes, ástmann hennar og banamann. Í bókinni er Bill mikill skelfir, hann er hinn hættulegi glæpamaður, grimmari og óþolinmóðari en sjálfur Fagin. Mér fannst Þórir Sæmundsson ekki blása nógu miklu lífi í töffarann, vera hikandi í túlkun sinni, ekki nógu ógnvekjandi. Mætti ekki bæta úr því?
Ekki má gleyma að geta Hrapps, Tryggva Björnssonar, sem heillaði salinn með fagmannlegri sviðsframkomu og glæsilegum söng. Valgeir Hrafn Skagfjörð leikur til skiptis við Tryggva, og efast ég ekki um, að hann sé ekki síðri. Börn eru til alls vís, að því er virðist.
Mörg smærri hlutverk eru í verkinu. Þau eiga það öll sammerkt að vera mjög vel útfærð og allrar athygli verð. Til dæmis eru þau Bergþór Pálsson og Þórunn Lárusdóttir ógleymanleg sem illmennin Bumble og frú Corney. Fúllyndi þeirra og kraftmikill söngur syngur enn í eyrum.
Það voru viðbrigði að sjá tvo öndvegisleikara, þau Arnar Jónsson og Ragnheiði Steinþórsdóttur, í sterílum hlutverkum betri borgaranna, sem voru eins og sótthreinsuð af leiðindum. Jafnvel Dickens sjálfum var um megn að glæða þessar peresónur lífi og lit. Enn eitt parið kemur í hugann, þau Friðrik Friðriksson, útfararstjóri og Esther Talía Casey (hefur greinilega verið helguð leiklistinni frá upphafi) kona hans drógu upp skýra mynd af millistéttarfólki, sem er miskunnarlausara gagnvart smælingjunum en allir aðrir. Álfrún Örnólfsdóttir var sætari en sætasti sykurmoli sem dóttirin í húsinu og ástkona Nóa, Ívars Helgasonar, lærlingsins. Þeirra saga er miklu ýtarlegri i í bókinni og hefði alveg mátt segjast öll. Þessi tvö hefðu vissulega ráðið við það. Baldur Trausti var sléttur og felldur sem Grimwig læknir. Hann hafði ekki úr miklu að moða, en gerði það sem hann gat. Sama er að segja um kráareigandann, Val Frey Einarsson.
Þá er bara eftir að geta tveggja kvenna, sem fóru með lítil hlutverk en gerðu þeim ógleymanleg skil. Þetta eru þær Edda Arnljótsdóttir og Lilja Guðrún Þorvaldsdóttir. Mikið lifandis ósköp gerðu þær mikið úr litlu. Hvort sem Edda birtist sem hortug matráðskona eða blindfull móðir á pöbbarölti, gaf hún sig alla í hlutverkið. Og Lilja Guðrún sem Sally gamla með leyndarmál Olivers við brjóst sér! Ekki var hún síðri. Lítil hlutverk, en stór í túlkun Eddu og Lilju Guðrúnar.
Það er til marks um frábæra þýðingu Þórarins Eldjárn, að hún virtist mjög töm á tungu ungviðsins, stóð hvergi í barnungu fólkinu. Hvert orð heyrðist, skýrt og klárt, fram í salinn. Mættu margir eldri leikarar taka sér það til fyrirmyndar – eða var þetta kannski hljóðstjórn þeirra Ísleifs Birgissonar og Tómasar Freys að þakka?
Ég geri ráð fyrir, að sú sem hélt í alla þræði, hafði augun alls staðar, gætti þess að sviðið íðaði af lífi frá upphafi til enda, að hvergi væri dauður punktur, áminnti fólk um lifa með verkinu og einbeita sér, heiti Selma Björnsdóttir. Endanlega ber hún ábyrgðina, sem byggist á því, að allir leggi sig fram og hlýði. Í okkar agalausa samfélagi, þar sem allt er á hverfanda hveli og enginn aktar hver annan, er þessi sýning léttir og huggun, skemmtileg afþreying og ekki of íþyngjandi fyrir andann.