Freyjuginning: Að leita að sjálfri sér

Christina Sunley
Freyjuginning
Ugla


Freyjuginning

Þegar ég var unglingsstúlka var ég send sumarlangt til ættingja minna við Winnipegvatn í Manitoba. Síðar á ævinni átti ég eftir að koma oft á þessar slóðir, jafnvel upplifa Íslendingadaginn í Gimli, dansa fram á nótt og spranga um í upphlut ömmu minnar.

Það er því svolítið merkilegt að vera komin aftur á þessar slóðir og ferðast í huganum til sömu staða með Christinu Sunley, höfundi bókarinnar Freyjuginning, sem kom út á þessu ári og hefur vakið mikla athygli vestan hafs. Christina, rétt eins og ég, átti skyldfólk, sem settist að við bakka vatnsins og reyndi að draga fram lífið við harðan kost. Margt af mínu fólki iðraðist þess alla tíð að hafa yfirgefið gamla landið, hafði jafnvel samviskubit yfir að hafa hlaupist undan skyldum sínum, eins og einhver orðaði það. Íslendingar beggja megin Atlantshafsins gátu aldrei fyrirgefið. Og enn, öllum þessum árum síðar, er þessi hugsun ofarlega í hugum fólks. Christina glímir við hana í þessari bók. Hún er þriðja kynslóð Íslendinga í Kanada, hefur glatað málinu og finnur lítið til skyldleika með íslensku þjóðinni.

Þetta er ekki bara venjuleg örlagasaga tveggja systra í henni Ameríku. Þetta er saga þeirra kynslóða Íslendinga, sem flúðu land sitt í lok nítjándu aldar og settust að á sléttum Manitoba í Kanada. Og áttu aldrei afturkvæmt. Þetta er bók um ferðalanga í framandi umhverfi í leit að uppruna sínum. Þeir eru með söguna á bakinu, goðsöguættjörðina, Ísland hugans og hjartans. Þeir eru afkomendur landnemanna og “það er ekki hægt að eiga nema eina móður og eitt móðurland.”

Freyja er alin upp í dæmigerðu amerísku úthverfi, en á hverju sumri fer hún ásamt móður sinni til Gimli, sem er lítið íslenskt þorp við Winnipegvatn, og dvelst á heimili ömmu sinnar. Afi Freyju er látinn, en hafði verið höfuðskáld Vesturfaranna., vinsæll og mikils metinn. Á heimili ömmu lifir fólkið í minningunni um gamla landið. Það talar íslensku, fer með skáldskap. Sæmundur fróði, Auður djúpúðga og Egill Skallagrímsson eru heimilisvinir. Fólkið vitnar stöðugt í fornkappana og jafnvel hin heiðnu goð. Freyja sogast inn í framandi veröld álfa og trölla. Hún lifir sig inn í skáldskap forfeðranna og lærir utan bókar ljóð afa síns. Áhrifavaldurinn í þessu sumarlífi Freyju er Birdie, móðursystir hennar, dularfull og töfrandi listakona, sem enn býr í föðurhúsum.

Birdie er hrífandi persónuleiki – við fyrstu kynni. Hún heillar alla með leiftrandi gáfum, frásagnarsnilli, hugmyndaríki og líkamlegu atgervi. Hún er fegurðardís og veit af því; nýtir sér það. Hún hefur átt marga vonbiðla, hafnað öllum og býr enn hjá Siggu mömmu. Er listakona, vakir um nætur, skrifar óð til lífsins og elskar allt sem íslenskt er.

Við höfum þó ekki verið lengi innan dyra í þessu húsi ömmu, þegar við skynjum veikleika Birdie. Hún er ýmist hátt uppi eða langt niðri – og þá er hún jafn andstyggileg, kaldhæðin og miskunnarlaus og hún var dásamleg áður. Birdie er að sumu leyti snillingur, en samt svo sjúk, að hún er ófær um að sjá um sig sjálf. Mamma hennar er sú eina, sem kann að tala hana til.
Höfundur bókarinnar nálgast þessa konu af miklum skilningi, samúð og nærfærni. Hún gæðir hana holdi og blóði. Hún ilmar af lífi og lit langt út fyrir síður bókarinnar, hvort sem hún er í maníu eða þunglyndi. Það þarf kjark og kunnáttu til að geta fjallað svo opinskátt um geðhverfasýki (bipolar disorder).

Íslendingadagurinn í Gimli er hápunktur sumarsins. Þá eru bakaðar pönnukökur og vínartertur, fjallkonan klæðist skautbúningi og fer með íslensk ættjarðarljóð eins og stallsystir hennar á Austuvelli 17. júní. Það er sungið og spilað og dansað fram á nótt. Að vísu er þetta Yankee tónlist bak við bláar Yankee buxur og Texas hatta. Þetta heitir Nýja Ísland, sem er auðvitað að renna sitt skeið. Með nýjum kynslóðum fjarar málið út og landar vorir renna saman við hinn þunga straum þjóðanna. Ekkert getur stöðvað þá þróun. Tungumálið gleymist að lokum, síðustu leifar íslenskrar menningar, heimanfylgju flóttafólksins handan hafsins.

Seinna, þegar Freyja hefur missti móður sína og móðursystur, Birdie, sest hún að í New York og vill loka þessum kafla lífsins, segja skilið við fortíðina. Hún er búin að fá nóg af þessu öllu saman, “þessum dapurlegu litlu Íslandsleifum,” eins og hún sjálf orðar það.
En það fer nú reyndar á annan veg.

Á þessu hausti hef ég lesið tvær bækur um börn, sem tekin eru frá móður sinni og gefin ókunnugum. Bókin um Freyju er önnur þeirra. (Hin er bók Sindra Freyssonar “Dætur mæðra minna”.) Það er kannski hrein tilviljun, en engu að síður löngu tímabært umræðuefni. Áður fyrr þótti það ekki tiltökumál að hrífa barn úr móðurfaðmi og færa öðrum til fósturs. Lífsbaráttan var hörð, fjöldi barna dó í bernsku og mæður áttu oft ekki annarra kosta völ. Þetta var algengt til sveita, ef þannig stóð á, veikindi, fátækt, sjúkdómar og fráfall fyrirvinnu. Stundum gat þetta blessast, en oftar en ekki hafði þetta skelfilegar afleiðingar, sem drógu dilk á eftir sér. Í öllum fjölskyldum eru börn sem hefur verið misþyrmt á þennan hátt. Og maður getur ímyndað sér hvernig líf þeirra hefði orðið, ef þau hefðu fengið að lifa því lífi, sem guð ætlaði þeim, vera til blessunar sinni eigin móður og njóta upprunans.

Þegar Freyja er þrettán ára fer hún í heimsókn til gamla landsins með Birdie, frænku sinni. Mér finnst frásögn höfundar rísa hæst í þeim hluta bókarinnar. Hún er svo fjörleg, hrífandi og dramatísk, að maður stendur á öndinni hvað eftir annað. Höfundur virðist þekkja landið, þjóðina, söguna, og jafnvel tungumálið, betur en margir þeirra, sem hér eiga heima allt sitt líf. Þó að ég hafi hrifist af frásagnargleði höfundar í fyrri hluta bókarinnar, þá magnast þessi aðdáun um helming, þegar á líður og rís hæst í gígnum við Öskju, þegar Birdie klæðir sig úr öllum fötunum og stingur sér til sunds í “mjólkurgræna laugina.”

Þetta er æsispennandi saga og mikið gleðiefni, að hún skuli hafa verið þýdd á íslensku. Hún á erindi við okkur, þessi bók. Hún gefur okkur innsýn í líf Íslendinga á fjarlægum slóðum rúmri öld eftir að þeir flúðu heimalandið. Þeir stofnuðu Nýja Ísland og héldu, að þeir gætu haldið áfram að vera Íslendingar í annarri heimsálfu – þrjóskuðust við.

Nú er komin ný kynslóð Íslendinga, sem stendur á vegamótum – að fara eða vera? Hvað tekur við? Erum við reiðubúin að fórna þjóðerni okkar, tungu okkar? Getum við lært af frændum okkar, Vesturförunum?

Nú þegar ég hef lokið við að lesa bókina um Freyju og veit, hvernig hún endar, gæti ég allt eins hugsað mér að byrja upp á nýtt og lesa hana aftur. Og í þetta sinn mundi ég lesa hana hægar – ekki elta atburðarásina heldur njóta textans, drekka í mig hvert orð, hverja setningu, sem seytlar fram af gáska og fjöri og töluverðu listfengi. Ég hef ekki séð frumtextann, en ef dæma má út frá tungutaki Þórdísar Bachmann, þá er þetta þrusugóður texti, hraður, hrjúfur, litríkur og miskunnarlaus á köflum. Þórdís Bachmann á svo sannarlega heiður skilið fyrir að koma þessari merku bók til skila á gamla málinu.