Maríuhænan: Leikhús fyrir leikskólann

Þjóðleikhúsið: Maríuhænan, dansleikhús frá Noregi fyrir börn frá níu mánaða aldri

Hugmynd, leikmynd og hreyfingar: Inger Cecilie Bertrán de Lis
Dansarar: Inger Cecilie Bertrán de Lis og Tinna Grétarsdóttir
Tónlist: Karoline Rising Næss
Búningar: Hilde Elisabeth Brunsted
Lýsing: Elisabeth Kjeldahl Nilsson og Gunnvá Meinseth
Tónlistarflutningur: Karoline Rising Næss, Andreas Bratlie, Tale M. Mydske
Ráðgjöf: Robert Skjærstad
Framleiðandi: Inger Cecilie Bertrán de Lis
Aðstoð við framleiðslu: Marianne Alber


Maríuhænan

Sú var tíð að ég trommaði með alla mína krakka í leikhús og á tónleika og á balletta og gaf þeim ordrur um að sitja grafkyrr sýningar á enda – það var sko engin miskunn (hjá Magnúsi) þá. Þetta var þáttur í uppeldinu, þau áttu að læra á leikhús fyrir lífið.

Eitt sumar bjó ég í Edinborg. Ég var búin að verða mér úti um miða út á blaðamannapassa á leiksýningar, tónleika, kvikmyndasýningar og uppákomur allra handa á hátíðinni miklu, sem haldin er þar síðla sumars ár hvert. Enn skyldu börnin njóta með mér – enda hafði ég engan til að passa – faðir þeirra var víðs fjarri. Ég man að þetta þótti nú ekkert til fyrirmyndar þarna í Edinborg – börnin voru litin hornauga, enda yfirleitt einu gestirnir undir lögaldri og máttu ekki láta á sér kræla. “Children should be seen – but not heard” er partur af ævafornri breskri lífsspeki, sem lærði skólinn miðlaði okkur í enskukennslu forðum daga. Sú regla var greinilega enn í gildi á áttunda áratugnum.

Það er af sem áður var, nú eru börnin dregin í leikhús, um það leyti sem þau hætta á brjósti, í þeirri von að vekja með þeim áhuga eða janvel löngun til að verða partur af þessari töfraveröld. Því ekki? Fyrir mörgum er leikhúsið eins konar flóttaleið frá ísköldum raunveruleikanum – flóttaleið, sem virðist einhvern veginn meira freistandi núna en nokkru sinni fyrr.

Satt að segja leið mér eins og hálfgerðri boðflennu á barnasýningu frá Noregi í Þjóðleikhúsinu á laugardag. Ég var alein með sjálfri mér, hafði engin börn til að halda í höndina á eða hjala við, þegar ókyrrð færðist í litla kroppa.

Ég verð að viðurkenna, að mér fannst jafnvel meira spennandi að fylgjast með leikhúsgestum – metnaðarfullum foreldrum og afkvæmum þeirra á ýmsum aldri – en því sem fram fór á sviðinu sjálfu. Bara það að skoða andlitin og hreyfingar í rökkvuðum salnum, dást að væntumþykjunni sem skein út úr brosandi augum, samheldni hjónaleysa, óþekkt barna og þolinmæði aðstandenda, sem snarminnkaði eftir því sem leið á sýninguna. Í salnum fór fram spennandi leikverk, spuni við óvæntar aðstæður.

Eitt barnanna – sem var nú varla meira en fimm mánaða – var ekki fyrr búið að koma sér fyrir í fangi móður sinnar og ljósin höfðu verið slökkt, þegar það leysti vind og upp gaus þessi líka yndislega barnslega kúkalykt (sem er eiginlega alls ekki vond). Móðirin átti óhægt um vik og gat sig hvergi hrært, fyrr en sýningu lauk fjörutíu og fimm mínútum síðar. Hún sá enga ástæðu til að biðjast afsökunar, enda því skyldi hún gera það?

Einn lítill gutti átti erfitt með að sitja kyrr og vildi helst vafra um salinn, upp og niður stiga eða jafnvel upp á svið. Pabbinn reyndi að vera kurteis í upphafi og tala drenginn til – í hálfum hljóðum þó – en var farinn að klípa hann fast og lengi, þegar drengurinn lét sér ekki segjast. Móðirin sneri sér bara undan og lét sem henni kæmu ekki við þessir ofvirku feðgar.

Sumir krakkarnir sátu stilltir og prúðir allan sýningartímann og fylgdust af athygli með því sem fram fór á sviðinu. Sú athygli segir auðvitað mest um gildi sýningarinnar. Þetta voru börn, sem komin eru til vits og ára, hætt á bleyjum, öguð í leikskólanum, vön því að sitja á rassinum og hlusta á hið talaða orð.

Það er óneitanlega vandi að skrifa um leikverk, sem er ætlað börnum frá níu mánaða aldri. Það liggur í hlutarins eðli, að þar eru ekki notuð mörg orð. Verkið snýst um það að segja litla einfalda sögu og halda athygli ungra áhorfenda. Það er gert með stórum hreyfingum, sterkum ljósum, fallegum litum og og talandi tónum.

Rauðhærður álfur í grænum kjól fangar strax athygli áhorfenda. Hann veifar grönnum handleggjum, stígur ballettfótum létt til jarðar og talar til barnanna með stórum spurulum augum. Svo kemur maríuhænan til sögunnar. Hún er með rauða skel og hreyfir sig hægt. Álfurinn og maríuhænan eru villt í skóginum. Risasatórir blikkandi sveppir skjóta þeim skelk í bringu, að ekki sé talað um, þegar sólin og tunglið fara að hoppa og skoppa allt um kring. En sagan endar vel og allir eru glaðir. Og glöðust eru börnin í salnum, þegar þeim er boðið upp á svið til að taka þátt og halda áfram að búa til leikrit.

Inger Cecilie Bertrán de Lis er höfundur verksins um Maríuhænuna og er sjálf í aðalhlutverki. Manni sýnist af fallegum hreyfingum Inger, að hún sé menntaður dansari, og það hefði svo sannarlega verið gaman að sjá hana spreyta sig á erfiðara verkefni. Hún er ljúf og góð og á gott með að halda athygli barna. Eflaust er það henni hjartans mál að ná til yngstu borgaranna og leiða þau inn á ókannaðar brautir, gera þá að betri manneskjum. Mér finnst það einhvern veginn liggja í augum uppi. Þetta er hugsjónastarf og eflaust oft vanþakklátt.
Tinna Grétarsdóttir var í hlutverki maríuhænunnar. Maríuhæna gefur ekki mikið svigrúm til að sýna hæfileika og þess vegna er erfitt að dæma framlag Tinnu. En vonandi gefst tækifæri til þess seinna.

Umgjörð sýningarinnar er látlaus og einföld, sem vera ber með farandsýningar. Tónlistin metnaðarfull og mikið í hana lagt. Hún kallar á athygli og mann langar til að fá meira að heyra.

Hugmyndin að þessu stutta verki fyrir börn er góð, en kannski fulldýru verði keypt til að flytja milli landa. Af hverju gerum við ekki þetta sjálf? Við eigum fjöldann allan af atvinnulausum dönsurum og leikhúsfólki, sem er fúst til að fórna sér fyrir þá sem eiga að erfa landið (obs! – skuldirnar, er það ekki veðsett upp í topp?) – litlu börnin – opna fyrir þeim nýja og heillandi veröld. Svona sýningar ættu að vera fastir liðir í starfsemi leikskólanna og dagheimilinna, sem og í fyrstu bekkjum grunnskóla. Það er aðeins lítill hópur metnaðarfullra foreldra, sem lætur það eftir sér að kaupa sig inn á sýningar fyrir ungabörn. En börnin eiga það skilið að fá að vera með, fá að njóta þess besta sem í boði er – öll börn, ekki bara sum.

Fjörutíu og fimm mínútur eru langur tími fyrir lítil börn. Margt getur komið upp á á ekki skemmri tíma. Því fannst mér í rauninni athyglisverðast við þessa óvenjulegu leiksýningu, hvað börnin, áhorfendur – þrátt fyrir allt – sýndu mikla hæfileika til að einbeita sér, hlusta, taka undir og svara af skynsemi og rökvísi. Enginn fór að gráta, enginn fór að blaðra eða öskra. Það ríkti þokkaleg þögn í salnum, sem lofar góðu um framtíðina. Hvenær byrjar annars þetta alræmda agaleysi Íslendinga? Byrjar það í skólanum?