Jesús litli: Fíngerður vefur sem hvergi slitnar

Borgarleikhúsið: Jesús litli

Eftir: Benedikt Erlingsson, Berg Þór Ingólfsson, Halldóru Geirmundsdóttur

Frumsýnt í Borgarleikhúsinu 21. nóv. 2009
Leikstjórn: Benedikt Erlingsson
Leikmynd og búningar: Snorri Freyr Hilmarsson
Lýsing: Kjartan Þórisson
Tónlist, útsetningar og tónlistarstjórn: Kristjana Stefánsdóttir
Höfundar sýningar: Benedikt Erlingsson, Bergur Þór Ingólfsson, Halldóra Geirmundsdóttir, Kristjana Stefánsdóttir og Snorri Freyr Hilmarsso


Jesús litli

Sagan endurtekur síg. Alltaf sama sagan, eins og Eldjárn segir, – ár eftir ár. Jólin nálgast. Í svartasta skammdeginu er allt sett á fullt í háspenntu neysluæði. Það þarf að nýta hverja stund til að undirbúa hátíðarnar. Það þarf ekki bara að þrífa allt hátt og lágt, heldur þarf eiginlega að breyta heimilinu í eins konar vöruhús. Fólk gerir út leiðangra í Kringlur og Smáralindir og kemur klifjað til baka af dóti og virðist aldrei fá nóg. Við þurfum að vinna baki brotnu til þess að eiga fyrir þessum ósköpum. Samkeppnin við náungann, mannjöfnuðurinn við nágrannann, kröfurnar frá umhverfinu – þetta þrennt og meira til beygir okkur undir þrældómsok neysluæðisins.

Og rétt um það leyti sem við erum að niðurlotum komin brestur hátíðin á. Við leitum kirkjugriða. Allt í einu fylllast kirkjur landsins – sem þar fyrir utan standa lengst af tómar – og heill herskari opinberra starfsmanna þylur yfir okkur í einum kór dularfullt jólaguðspjall frá botni Miðjarðarhafsins fyrir tvö þúsund árum. Það er alveg sama hvernig veröldin velkist og veltist, stríð eða friður, uppgrip eða kreppa, þetta er fastur punktur í tilverunni.

Það hvarflar ekki einu sinni að fjármálaráðherra að skera þetta niður í kreppunni. Þetta er heilagt: jólaguðspjallið, Jesús og María, vitringarnir þrír, meyfæðingin, Heródes og Pílatus og alger skortur á gistirými í Betlehem. Þangað var öllum stefnt vegna manntalsins, sem kom auðvitað frá skattstofunni. Þess vegna var Jesús í jötu lagður lágt, frelsarinn var oss fæddur. Amen.

Við flykkjumst í kirkjur landsins, við leggjum við hlustir. En heyrum við nokkuð? Er þetta ekki sagan endalausa um það, að sjáandi sjáum við ekki og heyrandi heyrum við ekki? Við tökum þátt í einhverju sem er staðnað ritual, form án innihalds og boðskapurinn upprunalegi löngu týndur, gleymdur og grafinn.

Ég geri alveg ráð fyrir, að einhvern veginn á þessum nótum hafi höfundar Jesús litla verið að hugsa og í framhaldi af þeim pælingum hafi orðið til þessi snjalla paródía, sem birtist að lokum fullsköpuð á leiksviðinu undir heitinu JESÚS LITLI. Jólasagan er sögð, eins og Matteus og Lúkas sögðu hana endur fyrir löngu – en undur og stórmerki, við erum allt í einu farin að leggja við hlustir. Og þegar sagan er sögð af trúðum í englalíki, þá verður hún svo ótrúlega fyndin. Ég tala nú ekki um, þegar trúðarnir eru nútímafólk, sem stenst ekki þá fresitingu að spyrja óþægilegra spurninga af og til.

Benedikt Erlingsson er skráður höfundur og leikstjóri þessarar sýningar, þó að nöfn allra leikenda séu að vísu nefnd til sögunnar. Ég sé það alveg fyrir mér, að grunnhugmyndin og söguþráðurinn sé Benedikts – hann hefur fengið í vöggugjöf allt það besta frá báðum foreldrum og bætir gott um betur. Er allt í senn, andlega þenkjandi, gagnrýninn í hugsun og hugmyndaríkur. Síðan hafi bæst í hópinn þeir leikendur, sem hann treysti á, Halldóra Geirmundsdóttir, Bergur Þór Ingólfsson og Kristjana Stefánsdóttir. Einvalalið – ekki bara sléttir og felldir leikarar, heldur hljóðfæraleikarar, söngvarar, akróbatar, skáld og ræðumenn. Þrotlaus vinna, það var spunnið og spunnið. Úr varð fíngerður vefur, sem hvergi slitnar en hangir saman á bláþræði hugvitsemi og listfengi. Bæði Kristjana og Bergur Þór hafa voldugar raddir, sem Halldóra bætir upp með ótrúlegri mímík og leikni.

Leikmynd Snorra Freys Hilmarssonar er einföld en samt margslungin. Það sama má segja um lýsingu Kjartans Þórissonar. Saman tókst þessum tveimur að skapa leikritinu ramma sem hélt okkur föngnum, en leyfði samt ímyndunaraflinu að leika lausum hala.
Ekki má gleyma tónlistinni, sem rennur eins og rauður þráður um alla sýninguna og lyftir henni um margar hæðir. Sérstaklega var ég stolt af því að heyra, að Maríukvæði vinar míns, Atla Heimis, hefði hlotið náð fyrir augum (eyrum) tónlistarstjórans, Kristjönu.

Það eina sem ég mundi leyfa mér að kvarta yfir, er að ég heyrði ekki alltaf nógu vel til leikenda. Ég sat innarlega, og þar sem leikendur verða að leika til þriggja átta, fer ekki hjá því, að þeir snúi stundum höfðinu frá manni og þá heyrist ekki orðaskil. Ég missti því greinilega af nokkrum góðum orðatiltækjum.

Þegar ég gekk aftur út í raunveruleikann og ískalt náttmyrkrið að sýningu lokinni, fór ég að velta því fyrir mér, hvar ég mundi setja aldurstakmarkið. Þetta er ekki barnaleikrit, þó að titill verksins villi mönnum kannski sýn – Jesús litli. Nei, síður en svo. Leyfum börnunum að vera Jesúbörn, leyfum þeim að hlakka til jólanna, trúa í blindni á bókstafinn og draga sinn eigin lærdóm. Þeirra er framtíðin, nógur tími til að efast. Þetta er leikrit fyrir fullorðið fólk, sem þarf á því að halda, fremur nú en nokkru sinni, að leita griða undan neyslufylliríinu, helgislepjunni og hræsninni.