Hrátt og kalt

Borgarleikhúsið: Rautt brennur fyrir eftir Heiðar Sumarliðason

Leikstjóri: Kristín Eysteinsdóttir
Leikmynd og búningar: Finnur Arnar Arnarson
Lýsing: Björn Bergsteinn Guðmundsson og Magnús Helgi Kristjánsson
Tónlist og hljóðmynd: Frank Hal


Hrátt og kalt

Þegar ég stóð upp að lokinni sýningu í gækvöldi var mér efst í huga, hvað Hjálmar Helgi Ragnarsson, rektor Listaháskólans, hlyti að vera stoltur á þessari stundu. Það er mikil gleði fólgin í því að sjá árangur verka sinna – sjá ungt fólk, sem maður hefur haft til leiðsagnar árum saman, skila árangri. Listaháskólinn er farinn að sanna sig, nemendur eru farnir að láta að sér kveða í atvinnuleikhúsum borgarinnar – ekki bara leikarar heldur líka leikhöfundar.

Heiðar Sumarliðason er fyrsti nemandi Listaháskólans sem fær að skrifa fyrir alvöruleikhús. Heiðari liggur mikið á hjarta. Og hann er barn síns tíma. Öllum gömlum gildum – sögu, menntun, menningu, reynslu, er kastað út í hafsauga. “Fór ekki í leikhús í heil tíu ár.” “Byrjaði ekki að lesa leikrit fyrr en mjög nýlega.” Shit! Snúum okkur beint að efninu. Núinu – raunveruleikanum eins og hann blasir við okkur hér og nú.

Fjórir einstaklingar eru að koma sér fyrir í lífinu, byrja sambúð, byggja sér hreiður og safna í sarpinn. Allt er svo gott og allir svo hamingjusamir. En ekki er allt sem sýnist. Fyrr en varir fáum við að sjá aðra hlið á menneskjunni. Fortíðin lætur ekki að sér hæða, enginn kemst undan henni.

Í netheimum þrífst ýmislegt, sem ekki þolir dagsbirtu. Þegar sorinn er dreginn upp, blasir við önnur veröld, ógnvekjandi og viðbjóðsleg. Það lá stundum við, að manni fyndist ósanngjarnt að ætlast til þess að ungir og óharðnaðir leikendur gætu staðið undir svo grimmilegum texta. Þegar Kristján lýsir því fyrir konu sinni, hvernig ókunnur maður tók hann í rassinn, dettur María eitt augnablik út úr rullunni – ímyndunarafl leikkonunnar nær ekki að fanga hugsunina.

En það var líka í eina skiptið sem þessi spennandi leikkona, Dóra Jóhannsdóttir, varð mát. Reyndar voru leikendur, þau Jörundur Ragnarsson, Sveinn Ólafur Gunnarsson og Þorbjörg Helga Þorgilsdóttir auk Dóru, hvert öðru betra. Það var að vísu farið sparlega með leikhæfileika þeirra, en framsögn og raddbeiting klikkaði hvergi – nema þá í búktalinu í upphafi leiksins. En það hafði eitthvað með tæknina að gera og auðvelt að laga.

Þau greinilega nutu þess að flytja góðan texta og gerðu það af mikilli einlægni. Góðan texta – segi ég, því að hann var æði skáldlegur í hversdagleik sínum. Það virðist liggja vel fyrir Heiðari að skrifa samtöl – sem er ekki svo lítils virði við handritagerð. Þessir hæfileikar gætu fleytt honum langt. Kannski er “Rautt brennur fyrir” hugsað sem kvikmyndahandrit. Manni fannst það á stundum. Var hann ekki kvikmyndasjúkur unglingur?

Mér fannst höfundur fara út af sporinu í lokaatriðinu, hlaupa frá sjálfum sér. Er lausn fyrirgefningarinnar ekki einum of auðveld? Sumir glæpir eru einfaldlega ófyrirgefanlegir – eða valda fórnalambinu þvílíkum sársauka, að ekki verði fyrir bætt. Datt höfundinum kannski ekkert annað betra í hug? Er þetta ekki of billeg lausn – of grunnhyggin?

Leikmyndin við verkið var athyglisverð og bjó því skýra umgjörð. Lýsing og tónlist undirstrikuðu tómleikann og angistina. “Ást eða öryggi”, sagði hún. Uppdráttur af íbúð, eins og hann lítur út fyrir smiðnum, sem er rétt ókominn og ætlar að byggja til framtíðar. Allt svo hrátt og ógnvekjandi. Leikstjórinn, Krístin Eysteinsdóttir er greinilega töff stelpa, sem lætur sér ekki allt fyrir brjósti brenna. Uppfærslan var bísna steril á köflum, alveg í anda textans.

Mér varð ósjálfrátt hugsað til Tracy Letts, höfundar Fjölskyldunnar, sem nú gengur fyrir fullu húsi í Borgarleikhúsinu. Það er eitthvað svipað með þeim tveimur, honum og Heiðari. Þeir velta sér báðir upp úr lágkúrunni, nota götumál og svífast einskis til að draga fram óhroðann. Kannski er þetta það sem koma skal. Það er að verða kynslóðabil í leikhúsinu, og enginn getur stöðvað þá þróun.

Helsti kostur leikrits Heiðars “Rautt brennur fyrir” er hvað það er stutt – en beinskeytt. Höfundur kemur sér strax að efninu og þjarmar að okkur miskunnarlaust. Klukkutíma síðar stöndum við upp, svolítið gáttuð. Það hvarflaði að mér, að ég væri ekki nógu “cool”. Er heimuirnn þá svona? Spurði ég, hin “lífsreynda” kona. Missti ég af einhverju?