Stjörnuleikur sem endar með flugeldasýningu

Borgarleikhúsið frumsýnir: Fjölskyldan – ágúst í Osage sýslu

Höfundur: Tracy Letts
Leikstjóri: Hilmir Snær Guðnason
Tónlist: KK
Leikmynd: Börkur Jónsson
Lýsing: Björn Bergsteinn Guðmundsson
Búningar: Margrét Einarsdótti


Fjölskyldan – ágúst í Osage sýslu

Þegar ég geng prúðbúin inn í leikhúsið á frumsýningarkvöldi, er mér oft svipað innan brjósts og þegar ég legg upp í langa flugferð. Það fer fiðringur um magann um leið og flugvélin hefur sig á loft og skýst upp í bláan himininn. Framundan eru óvissuævintýri.

Flugstjórinn – að þessu sinni Hilmir Snær Guðnason – hafði með sínu fallega brosi og meðfæddu hrifnæmi vakið væntingar meðal farþega, og það lá einhvern veginn í loftinu, að allir hlökkuðu til ferðarinnar.

Þetta var langt flug, og ég stóð mig að því að á miðri leið að vera farin að líta á klukkuna, svona eins og maður gerir, þegar flugfreyjurnar eru löngu hættar að bera fram mat og vín, orðinn óþolinmóður að komast á áfangastað.

En svo gerðist eitthvað óvænt þarna frammí. Það var eins og flugvélin sneri af leið, færi af braut. Hún nötraði og skókst eins og lauf í vindi. Spennan hríslaðist aftur í myrkvaðan farþegasalinn og enginn gat setið kyrr í sæti sínu lengur. Þegar flugvélin loks lenti heilu og höldnu, stóðu allir upp og fögnuðu farsælum ferðalokum. Farþegarnir grétu og hlógu í senn.

Leikritið Fjölskyldan, eftir Bandaríkjamanninn Tracy Letts, hefur notið fádæma vinsælda í heimalandinu. Nú er bara að vita, hvort Íslendingar kunni að meta óvægna sjálfsgagnrýni höfundar og nærgöngula bersögli – hvort þeir þoli að horfast í augu við sjálfa sig í spegli, þar sem ekkert er dregið undan.

Mér finnst ekki sanngjarnt að bera Letts saman við stórskáld á borð við Tsjekov eða jafnvel Tennessee Williams. Styrkleiki hans liggur ekki endilega í skáldlegri dýpt eða gagnrýninni söguskoðun, heldur í því hvernig hann beitir málinu og höfðar til almennings bæði í hugsun og atferli. Textinn rennur fram áreynslulaust, léttur og leikandi, eins og sykur á tungu. Stundum er hann svo flatur, að hann hljómar eins og margtuggin klisja, yfirborðslegur, jafnvel þreytandi. En kannski er það einmitt galdurinn. Höfundur bregður upp spegli og sýnir okkur sannleikann. Raunveruleikinn – lífið sjálft – getur verið svo kaldrifjað, svo grimmt og miskunnarlaust, að maður heldur fyrir eyru og augu, vill ekki hlusta, vill ekki sjá. Flestir afneita sannleikanum og kjósa heldur að lifa í blekkingunni.

Letts er fæddur í Tulsa, Oklahoma, einhvers staðar á sólbökuðum sléttum í Miðvestrinu við landamæri Suðursins. Og einhvern veginn hef ég á tilfinningunni, að verk hans beri keim af þessu útúrborulega umhverfi. Eða eins og hann segir sjálfur í viðtali:

„Hugsaðu þér kvikmyndina The Last Picture Show, settu hana í lit, taktu út karakterana og gerðu þá alla að repúblikönum og þá færðu nokkuð skýra mynd af bænum. Okkur Shawn (bróður hans) fannst við hvorugur eiga heima þarna.”

Það fer ekki á milli mála, að það sem fram fer á sviðinu er sérdeilis amrískt. Slétt og fellt á yfirborðinu, en undir niðri er ekki allt sem sýnist. Þetta er ekki Evrópa – þetta er ekki Tsjekov. Dregin er upp mynd af samfélagi, þar sem fjarlægðin stíar fólki í sundur, tengslin rofna, samskiptin lúta lögmálum hræsninnar og kynslóðirnar ná ekki talsambandi. Þarna er engin saga. Þetta er allt í núinu.

Frumbyggjarnir koma að vísu við sögu, þótt hún sé ósögð og undir yfirborðinu. Johnna, sem sogast inn í fjölskylduna alveg óvænt, lætur lítið yfir sér; hlutverk hennar er kannski mikilvægara en öll hin. Það er hún, stúlka af ættbálki Indjána – sem voru ofsóttir, hraktir og smáðir út á ystu nöf útrýmingar – sem endanlega bendir á hugsanlegt svar við óhamingju samfélagsins. Við brjóst sér geymir hún sinn eigin naflastreng, sem í móðurkviði tengdi dóttur við lífgjafa sinn. Naflastrengurinn er sagan. Ef hann slitnar, rofna tengsl kynslóðanna. Við sitjum uppi í tómarúmi, rótlaus og án tilgangs.Fólk sem svona er ástatt fyrir leitar að lokum á náðir óminnisins – í lyfjaglasið eða flöskuna – til að slæva sársaukann. Að lokum er það Indjánastúlkan sem situr eftir óhögguð, þegar fjölskyldan er farin á tvist og bast og hefur nánast tortímt sjáflri sér.

Mér leist vel á húsið sem birtist á sviðinu. Lýsingin gaf því notalegan blæ. Þetta gat verið hús með sál. Mér fannst að í þessu húsi hlyti að búa hugsandi fólk. Bækur þöktu alla veggi, lampinn yfir sófanum hafði aðdráttarafl og eldhúsið var þægilega druslulegt. Suðurríkjatónninn í tónlist KK og félaga vakti upp heimþrá til liðins tíma. Þrúgandi mollan var stundum gefin í skyn með orðum og látbragði leikaranna, en gleymdist þess á milli. Það var að vísu stílbrot, sem má lagfæra. Mér leist líka vel á manninn í húsinu og hlakkaði til að kynnast honum nánar. – manni sem las bækur og orti ljóð. En þótt hann hyrfi sjónum okkar strax í upphafi, hélt hann samt áfram að vera aðalpersónan í sögunni.

Og hvað segir maður svo, þegar upp er staðið? Ég viðurkenni, að um tíma var ég orðin býsna óþolinmóð. Mér fannst textinn langdreginn og lágkúrulegur á köflum, jafnvel væminn og vemmilegur. Mér fannst, að það hefði mátt stytta verkið og slípa textann til að halda spennunni. Sérstaklega truflaði þetta mig í öðrum þætti. Samt verð ég að segja, að máltíðin, erfidrykkjan, bætti það allt upp – hún var „tær snilld” í innihaldslausu orðagjálfri, sem engan enda ætlaði að taka.

Í seinasta þættinum náðu leikararnir sér aftur á strik og sýningin endaði í stjörnuleik, hverjum á fætur öðrum. Þetta minnti á flugeldasýningu, þar sem flugið magnast með hverri sprengju og endar í stjörnustríði.

Ég sé ekki betur en að Hilmir Snær sé kominn til að vera í hinni fátæklegu stétt leikstjóra á Íslandi. (Lái honum hver sem er að vera orðinn leiður á að leika breimandi elskhuga til eilífðarnóns.) Það er, eins og hann segir sjálfur, mikið púsluspil að ná þessu öllu saman, og honum ferst það bara bærilega. Sýningin hefur eðlilegt flæði, atriðin skarast léttilega og áreynslulaust. Margt fólk í litlu húsi, en enginn þvælist hver fyrir öðrum. Enda hefur hann á að skipa miklu mannvali og mörgum stjörnum. „Leikaraleikrit” er kannski rétta orðið, eins og hann nefndi það sjálfur. Eða kannski stjörnustríð?

Konur hafa algerlega yfirhöndina í þessu verki, enda er þarna spilað á strengi tilfinninga, sem tilheyra þeirra veröld. Og þó að kallarnir taki örlögum sínum af karlmennsku og lítillæti, spinna þeir allir vel úr misstórum hlutverkum. Nefni ég þó sérstaklega Theódór Júlíusson, sem er ekta í hlutverki hins aumkunarverða átvagls, og Rúnar Frey Gíslason, sem er óhugnanlega eftirminnilegur í hlutverki ómerkilegs flagara.

Sigrún Edda Björnsdóttir var ótrúlega flott í lokaþættinum. Hún slagaði hátt upp í Margréti Helgu, sem var þó óneitanlega stjarna kvöldsins. Ég hef ekki séð mikið til Margrétar Helgu á seinni árum, en hún hefur greinilega vaxið af lífsreynslu og listrænum sköpunarkraft með árunum. Frá því hún stóð upp úr rúminu á efri hæð hússins í upphafi leiks hélt hún athyglinni óskiptri og var óhugnalega trúverðug í vímunni og æðinu sem geisaði í líkama hennar.

Raddstyrkur Margrétar Helgu og beiting raddarinnar er eitthvað, sem yngri leikarar mættu taka sér til fyrirmyndar. Hvert orð sem hún sagði náði um allan salinn, sem var hins vegar ekki hægt að segja um hina yngri í hópnum. Ég hélt fyrst, að ég væri orðin heyrnarlaus, en svo kom á daginn, að fólkið í kringum mig á öftustu bekkjunum kvörtuðu undan hinu sama. Það virðist eins og kynslóðabil hafi orðið í leikhúsinu eins og í leikritinu. Kannski ætluðu allirs ér að leika í kvikmyndum – ekki á stóru sviði. En þetta þarf að lagfæra, því að áhorfandinn missir af mikilvægum tengingum og tilvísunum í leikfléttum, sem þarmeð fara forgörðum.

Hanna María Karlsdóttir gerði sér mat úr úr heldur nöturlegu hlutverki sínu. Mér fannst hún komast næst því að vera hin dæmigerða amríska kelling, eins og þær gerast svæsnastar. Og þó – Nína Dögg hefði alveg eins getað flogið beint inn frá Miami. Svona stelpur sér maður á myndum í glansritum. Ekkert kemst að nema sjálfið og útlitið. Jóhanna Vigdís átti erfitt uppdráttar með sitt hallærislega hlutverk, enda enga skýringu að fá á vandræðagangi hennar frá höfundarins hendi fyrr en rétt undir lokin. Sama má segja um Unni Ösp Stefánsdóttur; indjánastúlkan gegnir að vísu óræðu hlutverki í leikritinu, þótt höfundi takist tæplega að glæða persónuna sjálfa holdi og blóði. Ung stúlka, sem ég hef ekki séð á leiksviði áður, Guðrún Bjarnadóttir, kom skemmtilega á óvart í hlutverki hins óhamingjusama unglings. Jafnvel í myrkri voru hreyfingar hennar vandræðalega álappalegar. Persónusköpun hennar var sannfærandi – líklega er þarna efnileg leikkona á ferð.

Þótt áhorfendur hafi á tímabili beðið átekta milli vonar og ótta, fór ekki milli mála af undirtektum þeirra að leikslokum, að þessum liðshópi á sviðinu hafði tekist að vinna hug þeirra og hjörtu. Við höfðum orðið vitni að stjörnuleik. Á útleiðinni mátti heyra allt um kring, að verkið hafði kveikt áhuga leikhúsgesta. Þeir voru ýmist í hrókasamræðum eða hörkurifrildi um persónur og leikendur í þessu fjölskyldudrama. Og þá er tilgangi verksins náð, ekki satt?