Græðgin, hrokinn, fallið, hefnd guðanna

Þjóðleikhúsið: HEFND GUÐANNA

VÖLVA
Eftir Pálínu Jónsdóttur og Walid Breidi
Byggt á Völuspá í endurortri gerð Þórarins Eldjárns
Tónlist: Skúli Sverrisson
Sviðsmynd og videosamsetning: Xavier Boyaud
Búningur: Guðrún Ragna Sigurjónsdóttir og Filippía I. Elísdóttir
Hárgreiðsla: Guðrún Erla Sigurbjarnardóttir
Ljósastjórn: Karl Sigurðsso


Þjóðleikhúsið

Hart er í heimi
Hórdómur mikill
Skeggöld, skálmöld
Skildir eru klofnir
Vindöld, vargöld
Og veröldin steypist.
Enginn maður öðrum hlífir.

Þetta eru líklega þau fáu orð sem mér hafa geymst í minni úr Völuspá þeirri, sem okkur var gert að lesa úr Sýnisbók Sigurðar Nordal í menntaskóla um miðja seinustu öld. Völuspá Þórarins Eldjárn er auðvitað miklu aðgengilegri, enda er Þórarinn skáld unga fólksins og talar þeirra mál. Völuspá og Hávamál – þetta hljómaði eins og hebreska í okkar eyrum, og það þurfti býsna kröftuga og jafnvel ástríðufulla kennara til að troða þessum kaldhamraða texta inn í svefngengla latínuskólans: …og veröldin steypist. Enginn maður öðrum hlífir.

Í eyrum unglinga á þessum árum var Völuspá bara torskilinn skáldskapur, eitthvað sem gerðist í ómunafortíð, víðsfjarri samtímanum. En nú allt í einu hljómar þetta kunnuglega. Jafnvel mögnuð tónlist Wagners sjálfs tekst ekki að fá hárin til að rísa til jafns við rödd Brodda Broddasonar, í hvert sinn sem hann ávarpar þjóðina um miðjan dag í Útvarpi Reykjavíkur. – Veröldin steypist – enginn maður öðrum hlífir. Það eru fréttir dagsins.

Er það hrein tilviljun, að öll þau verk, sem nú spretta upp á leiksviðum borgarinnar fjalla um sama efni: græðgina, hrokann, fallið, hefnd guðanna?

Ef leikkonana Pálína Jónsdóttir hefði verið uppi um miðja seinustu öld og hefði flutt Völuspá með slíkum tilþrifum sem hún gerði í fyrrakvöld á litla sviði Þjóðleikhússins (Kassanum) – og hefðu íslenskukennarar Menntaskólans í Reykjavík haft hugrekki eða hugmyndaflug til að kalla hana inn á gólf til okkar og leyfa henni að takast það sem þeim tókst ekki, þá er ég næstum því viss um, að þessi rammi kveðskapur stæði okkur enn lifandi fyrir hugskotssjónum. Og kannski hefðum við líka dregið einhvern lærdóm af forspánni – hver veit?

Af praktískum ástæðum sé ég þó ekki fram á, að þessi stutta (60 mínútur) kammersýning Pálínu – þar sem allt hangir á sama bláþræðinum, tónlist, mannsrödd, sviðsmynd, lýsing og hvít klæði prímadonnunnar – sem hefðu ein sér nægt til að koma af stað heilli borgarastyrjöld – muni eiga langa lífdaga á sviðinu. Svona konfektmolar eru bara fyrir fáeina innmúraða og innvígða í Valhöll– ekki fjöldann. En hins vegar fyndist mér tilvalið að semja við Pálínu um að fara um landið og bæta menntaskólanemendum nútímans upp það sem við fórum á mis við á hinni öldinni. Þetta er upplögð farandsýning, þ.e.a.s. Ef að ljósameistari samþykkir, því að án ljósa missir þessi sýning marks.

Það var nautn fyrir fegurðarskynið að horfa á eftir mjóum kroppi í ótrúlega hvítum kjól fara hamförum um þessa einföldu en samt margslungnu leikmynd, sem gat verið allt í senn, ljúf og mild, hörð og miskunnarlaus. Hrífandi tónlist Skúla Sverrissonar, lýsing Karls Sigurðssonar og leikmynd Xaviers Boyaud – allt ein órjúfandi heild. Manni rann kalt vatn milli skinns og hörunds. Hreyfingar völvunnar voru áhrifamiklar í mýkt sinni. Jafnel fjöllin hopuðu. Það er augljóst, að Pálína nýtur góðs af dansnámi fyrri ára. Henni var nóg að hreyfa sig – án orða.
Hins vegar fannst mér rödd hennar ekki nógu voldug og um of eintóna fyrir þennan magnaða texta. Auðvitað hlýtur það að koma niður á flutningi og túlkun leikverks, ef meðleikstjórar tala ekki orð í íslensku. Það vantaði einhvern veginn stígandi í flutninginn. Mér fannst Pálína, leikstjórinn, ekki nýta sér raddsvið Pálínu, leikkonunnar, ekki spila nógu djarfmannlega á þetta hljófæri mannslíkamans. Og mér koma í huga mörg tilfelli á undanförnum árum. Náið samlíf leikstjóra og leikara – ég tala nú ekki um, ef það er ein og sama persónan – á það til að slæva gagnrýna hugsun.

Þegar ég vaknaði í morgun sá ég enn kjólinn fyrir fyrir mér, sem völvan klæddist. Hann er meistarastykki einn út af fyrir sig, hann er sá möndull, sem allt snýst um – ólýsanlegur í fjöllyndi sínum. Fyrir augum mér sveiflast hann eftir taktföstum, ógnvekjandi tónum tölvunnar. Hryllingurinn sækir enn að mér. Hryllingur hins ókomna. Kjólinn er reyndar svo flókinn að gerð, að þó að ég hefði kjólmeistara mér við hlið, tækist mér ekki að lýsa honum. Ég er jafnvel alveg viss um, að höfundunum sjálfum, þeim Filippíu og Guðrúnu Rögnu, mundi vefjast tunga um tönn. Þær hljóta að hafa sótt hugmyndina til álfanna í hólnum. En fyrir stássmeyjar nútímans er sýningin alveg þess virði að gera sér ferð í leikhúsið – þó að það væri ekki nema til að líta djásnið augum.