Spillingin étur börnin sín í Eftirlitsmanninum

SPILLINGIN ÉTUR BÖRNIN SÍN e. Nikolaj Gogol
Eftirlitsmaðurinn
Þýðing: Bjarni Jónsson
Leikstjóri: Stefán Jónsson
Leikmynd: Móeiður Helgadóttir
Búningahönnun og leikgervi: Myrra Leifsdóttir
Lýsing: Mika Haarinen
Tónlist: Magga Stín


Eftirlitsmaðurinn

Nú eru liðnar tæpar tvær vikur síðan lokaársnemendur við Listaháskólann í Reykjavík frumsýndu Eftirlitsmanninn eftir Gogol. Þetta verk er talið skyldulesning allra þeirra sem unna góðu leikhúsi – eins konar klassík leikbókmenntanna. Gogol er settur á stall með Moliére og Shakespeare.

Upphaflega stóð til að sýna verkið aðeins fimmtán sínnum, en vegna mikillar aðsóknar hefur nú verið ákveðið að bæta við nokkrum í viðbót, þannig að síðbúnum gefst enn tækifæri til að verða sér úti um óvænta andlega hressingu.

Sýningin kemur skemmtilega á óvart og glæðir á ný von um framtíð þessarar voluðu þjóðar, hugvit og metnað. Þetta einstæða verk er skrifað fyrir hartnær tvö hundruð árum, en á engu að síður brýnt erindi við nútímafólk. Við sjáum sjálf okkur í spéspegli. Við hlæjum dátt, en snúum heim hugsi.

Í fyrsta lagi fór sýningin fram í óvenjulegu umhverfi, í gömlu húsi Landsmiðjunnar – sem einu sinni var – við Sölvhólsgötu. Þarna eru ekki lengur ungir menn að læra að smíða vélar. Nú læra þeir að leika listir sínar. Listaháskólinn er þarna til húsa. Og það var óneitanlega hressandi tilbreyting að ganga inn í vélsmiðju, sem er óvart orðin að leikhúsi. Þarna er ekkert sem minnir á Ísland 2007. Sem betur fer, Enginn að hreykja sér, enginn íburður, ekkert óhóf. Hver krókur nýttur. Hvítkalkaðir veggir og metnaðarfullar listakonur framtíðarinnar við skenkinn.

Það hefur þurft mikla útsjónarsemi og hugmyndaflug til að koma fyrir leikmynd og finna rými til athafna í því skrítna og þrönga plássi, sem okkur var vísað til sætis í. Lofthæð var lítil, en mér fannst það ekki koma að sök. Þrengslin undirstrikuðu músarholusjónarmiðin, sem verkið fjallar um. Fátæklegt þakherbergið, þar sem eftirlitsmanninum er vísað til sængur í gistihúsinu, er dæmigert fyrir hugmyndina að baki verkinu. Það getur enginn staðið uppréttur í þessu herbergi. Við erum í músarholu. Þrengslin steðja að á alla vegu.

Þó að við sæjum ekki fram í eldhúsið eða inn í bakherbergin, þá vissum við hvar þau voru og hvað þar fór fram. Þar kemur til hugvitsöm lýsing hins finnska Mika Haarinen. Lýsingin víkkar sviðið. Leikmyndin var því ekki eins knöpp og efni stóðu til. Móeiður Helgadóttir, leikmyndahönnuður, hefur eflaust líka þurft að sýna aðhald og nýtni við val á leikmunum. Mér finnst hún komast mjög vel frá vandasömu verkefni.

Sama verður sagt um Myrru Leifsdóttur, sem sá um búninga og leikgervi. Gervin voru svo sannfærandi, að mér var ómögulegt að átta mig á hver var hvað, því að allir léku meira en eitt hlutverk. Sérstaklega varð mér starsýnt á Osip, þjón eftirlitsmannsins, sem var svo strákslegur með þunnan skegghýjung í vöngum, að ég var með böggum hildar um, af hvoru kyninu leikarinn (eða leikkonan) væri.

Það er augljóst, að þessi leikendahópur þekkist mjög vel og er vanur að vinna saman, enda eru allir þessir sjö krakkar á lokaári í leiklistardeildinni eftir þiggja ára nám. Þetta er einmitt sá tími lífsins, þegar maður er sannfærður um, að allt sé mögulegt og framtíðin sé óendanleg. Tækifærin líka. Kannski verður samt aldrei eins gaman að lifa eins og einmitt núna – maður er enn að læra, kynnast nýjum höfundum og leikstjórum, getur valið sér rjómann úr leikbókmenntunum til að baða sig upp úr. Þetta er ögurstund í lífi hvers og eins..

Gleðin og nautnin leyndi sér heldur ekki í leik þessa unga fólks. Öll náðu þau ótrúlega góðum tökum á persónum sínum og gáfu þeim líf, sem vakti áhuga, forvitni. Og ég sé ekki betur en að þarna innan um séu efni í gamanleikara framtíðarinnar.

Hópatriðin voru augnayndi, augnablik úr gömlum kvikmyndum. Með samtvinnun lýsingar og látbragðs var formið brotið upp oftar en einu sinni, og þá færðist leikurinn meir yfir í leikhús fáránleikans. Dramatískir og angurværir tónar Möggu Stínu og félaga hennar mögnuðu stemninguna. Fylliríssena eftirlistmannsins er líka við mörk fáránleikans – ógleymanlegt atriði. Og ekki er síðri samleikur móður og dóttur í stofunni heima með hreðjatak á eftirlitsmanninum. Það toppaði eiginlega allt.

Mér sýnist Stefán Jónsson, leikstjóri og fagstjóri leikaranáms Listaháskólans hafa lagt mikla alúð og metnað í þetta verk. Þetta er flókin uppfærsla, því að hver leikari leikur a.m.k. Þrjú hlutverk. Það hefur því verið í í mörg horn að líta og hvergi mátt gefa eftir. Þrátt fyrir þrengsli á sviðinu rennur sýningin ljúflega. Hún er gáskafull með þungum undirtón. Og það er eins og krakkarnir bæti hvert annað upp.

Og eitt enn. Oft ber við í leikhúsum á seinni árum, að leikarar kunna ekki að tala þannig að allir heyri. Það er augljóst, að leiklistardeild Listaháskólans leggur metnað sinn í kenna raddbeitingu og góða framsögn. Það er til fyrirmyndar og set ég það á kredit hjá Stefáni Jónssyni, leikstjóra og fagstjóra deildarinnar. Það er unun að hlusta á góðan texta, ef vel er farið með. Og mér virðist þýðing Bjarna bæði safarík og skáldleg.

Ég leyfi mér að mæla með þessu frábæra klassiska verki, sem á beint erindi við íslensku þjóðina um þessar mundir.