Við vorum ungar Reykjavíkurmeyjar að stíga okkar fyrstu dansspor inn í veröld leikhússins – töfraveröld, þar sem grár veruleikinn var skilinn eftir utan dyra. Við fórum úr skólafötunum, íklæddumst gervi ballerínunnar, settum hárið í hnút og gutum gagnrýnum augum að stórum speglum búningsherbergisins. Biðum spenntar eftir að dyrnar opnuðust og meistarinn segði myndugri röddu: “Vær saa gode.”
Mér er þetta allt saman svo ljóslifandi í minningunni. Við stilltum okkur upp í röð fyrir framan speglana og byrjuðum sláæfingarnar. Bidsted gekk meðfram röðinni, gagnrýndi hverja og eina – hver og ein fékk sinn skammt: Bein í baki, inn með magann, halda höfðinu hátt – en, to, tre, en, to, tre…
Svitinn bogaði af okkur. Við reyndum að gera betur en við gátum, ekki skyldum við gefast upp. Allt fyrir Bidsted.
Ég held við höfum allar elskað hann í laumi. Að vísu vorum við svo ungar, að við vissum ekki, hvað ástin var. En við þráðum heitt að gera honum til hæfis og að heyra hann segja eitthvað fallegt og uppörvandi við okkur. Það var aðalsmerki Bidsteds, að hann gat blásið okkur í brjóst trú á sjálfar okkur, trú á getu okkar og að við værum að gera eitthvað, sem máli skipti.
Stærsta rósin í hnappagati Bidsteds er og verður þó Helgi Tómasson, núverandi listrænn stjórnandi San Francisco-ballettsins. Það má segja, að Bidsted hafi uppgötvað Helga sem barn og leitt hann inn á þá braut, sem reyndist honum seinna svo heilladrjúg. Það er kannski engin tilviljun, að nú hefur Helgi verið gerður að heiðursdoktor við hinn heimsfræga Juillard tónlistarháskóla í New York.
Bidsted var brautryðjandi. Aðeins rúmu ári eftir að stofnaður var Balletskóli Þjóðleikhússins færði hann upp sýningu, sem má segja að hafi orðið upphaf þess blómaskeiðs, sem fylgdi í kjölfarið. Mig minnir að hann hafi á þessari fyrstu sýningu fundið hlutverk fyrir sem næst allar dansmeyjarnar. Fyrir hlé raðaði hann okkur eftir stærð í tvöfalda röð fram eftir sviðinu, þær minnstu fremst og þær stærstu aftast, og síðan var brugðið upp mynd af því undirbúningstarfi, sem unnið er baksviðs, þegar eitthvað mikið stendur til.
Seinni hluti sýningarinnar var ballettinn: “Ég bið að heilsa” við undurljúfa tónlist Karls Ó Runólfssonar. Meistarinn sjálfur brá sér í gervi skáldsins – í fuglslíki.
“Nú andar suðrið sæla vindum þýðum, á sjónum allar bárur smáar rísa og flykkjast heim að fögru landi ísa…”
Orð Jónasar rifjast upp fyrir mér hér á litlu gangstéttarkaffihúsi í listahverfi Mexíkóborgar, þar sem ég sit og hugsa til löngu liðinna daga.
Við stelpurnar höfðum aldrei séð alvörudansmær áður. Lisa Kjæregaard, fyrri eiginkona Bidsteds, var ógleymanleg í hlutverki stúlkunnar med rauðan skúf í peysu. Lisa var sólódansmær vid Pantomime Teatret í Tívolígarðinum í Kaupmannahöfn.
Ég var bara ein af mörgum bárum, sem “flykktust heim að fögru landi ísa.” Ég man eins og það hafi verið í gær. Næfurþunnir kjólar, fisléttir og sægrænir, vöfðust eins og þang utan um granna líkama okkar, þar sem við bylgjuðumst um sviðið – reyndar sé ég af gömlum myndum, að ávali bylgjunnar átti fátt sameiginlegt med gelgjulimum þessara táningsstelpna.
Þessi ævintýrakvöld fannst mér sem allt væri fullkomnað og að framvegis mundi ég svífa dansandi gegnum lífið.
Þökk sé Bidsted, sem nú er horfinn af sviðinu.