Ekkert er eins og var

Stundum, þegar ég vakna við sólarupprás, finnst mér eins og tíminn standi í stað í þessu værðarlega þorpi uppi á kletti við hafið. Þögnin er svo þung, að ég nem andardrátt hafsins hingað upp í gluggann til mín, reglubundinn og sefandi. Aðeins þunglyndislegt eintal uglunnar rýfur þögnina – og hundgá öðru hverju. Einhvers staðar nærri fer bíll í gang. Af hverju ætti ég að fara á fætur?

En smám saman breiðir sólin út faðminn, og flögrandi tónar boða kyrrðarstund í þorpskirkjunni. Hér eru allir kaþólskir.

Svona hefur þetta alltaf verið. Hér breytist ekkert.

Húsin í þorpinu standa uppi af gömlum vana. Þau eru eins og mannfólkið, þurfa alúð og nærgætni – stöðugt þarf að hvítta og tjarga og bæta og staga. Annars hverfa þau inn í sjálf sig og verða óvistleg, þessi hús.

Fólkið í þorpinu eru þeir sem eftir urðu, þegar aðrir efnuðust og fluttu burt – inn í nútímann. Til skamms tíma var hér ekkert rennandi vatn, og enn eru engin nútímaþægindi – enda hafa íbúarnir aldrei kynnst neinum munaði – alltaf verið fátækir og nægjusamir. Franco elskaði ekki þessa þjóð. Hann fyrirleit hana og ofsótti.

Konurnar í götunni kyssa mig á hverjum morgni og bjóða góðan dag. Gatan er þeirra ríki, sumar þeirra hafa aldrei farið út fyrir þorpið. Þær hafa enga löngun til þess, segja þær hlæjandi – til hvers? Guð er góður.

Á þriðjudögum bregða þær þó vana sínum. Þær klæða sig upp á og steðja á markaðinn niðri í bænum. Þar kaupa þær skelfisk, bakkalá og grænmeti til vikunnar og koma í strætó til baka – fjasandi og masandi, svo að undir tekur í vagninum.

Svona hefur þetta alltaf verið. Ekkert breytist.

Í næsta húsi við okkur búa Miguel og Inma, og tveir ungir synir þeirra, Kilian og Jaime. Jaime er heyrnarlaus og hefur oft átt erfitt. Hann hleypur alltaf upp í fangið á mér, þegar mig ber að garði. Langar til að segja eitthvað fallegt, en kann ekki orðin – ekki enn, hann er að læra.

Miguel er rafvirki. En pabbi hans – sem líka heitir Miguel – er lærður múrari. Hann er einn þeirra, sem allt geta – smíðað, málað, lagt pípur og flísar – nefndu það. Svo þekkir hann líka alla í bænum og er innan handar, þegar eitthvað bjátar á. Ómissandi, sem sagt.

Nema hvað. Ég ætlaði þennan morgun að banka upp á hjá Miguel yngri. Við vorum nýkomin í þorpið og allt í volli. Vaskurinn í eldhúsinu lak, rafmagnið var farið af tölvunni, wifiið gufað upp, og við gátum ekki losað um járngrindina út á veröndina – líklega vegna sjávarseltu. Vorum eiginlega fangar í eigin húsi.

Erindið var sem sagt mjög brýnt.

Ég bankaði á dyrnar. Það leið drjúg stund. Loks kom Miguel til dyra. Ég skynjaði á augabragði, að ekki væri allt með felldu. Þarna stóð hann í gættinni, gleiðfættur og nakinn í beltisstað. Loðinn á bringunni og með óræðan glampa í augunum. Ég þekkti Miguel ekki fyrir sama mann. Á bak við hann stóðu bræðurnir, Kilian og Jaime, og horfðu á mig þessum stóru svörtu augum, sorgmæddir á svip. Hvorugur kom til mín að kyssa mig á vangann. Hvað hafði gerst?

Það var hálfdimmt í forstofunni. – Að vísu kominn miður dagur en dregið fyrir sólina að hætti Spánverja. – Allt í einu sá ég bregða fyrir skugga af kvenveru inni í eldhúsinu. Hún var með svuntu á maganum, sem ég kannaðist við, en þetta var ekki sama konan. Þetta var ekki Imna. Konan var að bera diska á borð – diskana hennar Imnu. Svo kom hún með glösin hennar Imnu og jafnvel hnífapörin líka. Ég trúði ekki mínum eigin augum. Hvar var Inma? Strákarnir héldu áfram að horfa á mig, fylgdust með hverri hreyfingu. Þeim leið ekki vel, og mér ekki heldur.

Miguel fór hjá sér, þorði varla að horfa í augun á mér. Ekki alveg jafnborubrattur og þegar hann opnaði fyrir mér dyrnar skömmu áður. „Já, ég er búinn að skipta um konu – Inma fór aftur til mömmu sinnar í Almunécar. Við vorum búin að vera svo lengi saman, hvort eða er. Þetta er allt í lagi, strákarnir eru hjá mér um helgar“.

Hann sagði mér ekki einu sinni nafn konunnar, kynnti mig ekki fyrir henni. Þetta var þó kona í alvöru, nýja nágrannakonan mín! Búinn að skipta um konu – bara si svona!

Ég gleymdi alveg erindinu. Ég gat ekkert sagt. Hvaða máli skipti nú einn lekur vaskur eða rafmagnsleysi? Ég sneri við og gekk út án þess að kveðja. Ég var með hugann við bræðurna. Mamma farin og kæmi aldrei til baka. Nú skildi ég þessa djúpu sorg í augum þeirra. Þeir hötuðu þessa nýju konu.

Allt er breytt, ekkert er eins og var.